14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5221 í B-deild Alþingistíðinda. (4513)

453. mál, lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum kennara

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég tók það svo að hér væri fsp. um hvað liði frv. um löggildingu kennara en ekki almennar umr. um málefni kennara. Það væri viss ástæða til að taka þátt í að ræða hér á hinu háa Alþingi þá yfirgripsmiklu punkta sem hv. ræðumaður Hjörleifur Guttormsson vék hér að áðan. En eins og hv. þdm. vita er ræðutími í fyrirspurnatímum takmarkaður við tvær mínútur þannig að mér gefst enginn kostur á að víkja að þessum punktum. Hins vegar sýnir þessi ræða hans að fsp. er ekki nema fyrirsláttur. Á bak við hana liggur sú hvöt að vekja hér upp með hálfsagðri sögu ýmis önnur atriði sem ég vildi gjarnan að mér gæfist kostur á að ræða síðar við þennan hv. þm. hér í deildinni.

Annars stóð ég ekki upp út af því. Ég stóð upp út af tveim atriðum öðrum. Í fyrsta lagi vil ég lýsa því yfir að það er ekki nein fyrirstaða á því að menntmn. afgreiði það frv. sem hv. þm. hefur flutt um starfsheiti kennara.

Ég vil í öðru lagi segja að ég var mjög undrandi á þeim tón sem kom fram hjá hv. þm. Kristínu Tryggvadóttur í garð þeirra fjölmörgu kennara sem hafa stundað þau störf á liðnum árum og áratugum og ekki hafa kennararéttindi. Orð eins og þau hvort hægt sé að treysta hverjum sem er fyrir uppeldi barnanna. Það hafa kennt mér fjölmargir kennarar sem ekki höfðu lögskilin réttindi. Ég get nefnt mann eins og Brynjólf Sveinsson yfirkennara við Menntaskólann á Akureyri sem dæmi. Ég get nefnt mann eins og Sverri Kristjánsson sagnfræðing. Ég get nefnt ótal aðra menn sem hafa kennt mér í gegnum árin og kennt mér mikið. Mér finnst það Alþingi til vansæmdar að þessi tími nú skuli notaður til þess að kasta grjóti að þessu fólki. Ég fullyrði það að ýmsir af merkustu skólamönnum landsins hafa verið sjálfmenntað fólk sem átti þess ekki kost sjálft að fara í langskólanám, eins og hugur þess stóð til. vegna lítilla efna. Ég get líka nefnt Benediki Björnsson skólastjóra á Húsavík. Ég efast um að aðrir menn hafi skrifað betri málfræðibækur um íslenski mál en hann né verið meiri uppalendur en hann eins og hans smásögur bera glöggt vitni. Það má nefna ótal menn aðra og ég held að það væri þinginu til meiri sóma, herra forseti, ef þm. reyndu að halda þessum umr. innan þess ramma að leyfa þeim mörgu gegnu sjálfmenntuðu mönnum og konum, sem hafa komið við uppeldi barna á undanförnum áratugum, að vera í friði.