14.05.1985
Efri deild: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5226 í B-deild Alþingistíðinda. (4524)

5. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að mæla hér fyrir frv. sem hv. þm. er nú orðið vel kunnugt af mikilli umfjöllun bæði í allan vetur, í fyrra og nokkur ár þar á undan. Eins og mönnum er kunnugt, þá er þetta frv. að uppistöðu til frv. sem útvarpslaganefnd gekk frá. Sú nefnd var skipuð 23. sept. 1981 af þáverandi menntmrh., núverandi hæstv. forseta Nd., til að endurskoða núgildandi útvarpslög nr. 19 frá 1971. Í nefndinni áttu sæti þeir Markús Á. Einarsson veðurfræðingur, sem var formaður nefndarinnar, Andrés Björnsson útvarpsstjóri, Benediki Gröndal fyrrv. forsrh., Ellert B. Schram þáverandi ritstjóri, Kristján J. Gunnarsson þáverandi fræðslustjóri, Ólafur R. Einarsson menntaskólakennari, sem nú er látinn, og Vilhjálmur Hjálmarsson þáverandi formaður útvarpsráðs og fyrrv. menntmrh.

Nefndin skilaði áliti 1982 og þá var því dreift til allra þm. Það er óhætt að segja að mönnum hafi gefist mjög rúmur tími til að taka afstöðu til allra meginatriða þessa máls. Hér er í raun og veru ekkert það nýtt á ferðinni sem krefst verulegrar kynningar. Þó er þetta mál á þann veg nýtt að margt þarf reynsla að leiða í ljós. Þess vegna vil ég nefna það strax að gert er ráð fyrir því að um framkvæmd þessa máls gildi nokkur aðlögunartími. Það er gert ráð fyrir því að þrjú ár verði eins konar aðlögunartími. Lögin séu endurskoðuð, ef þurfa þykir, innan þess tíma. Fyrstu útvarpsleyfin, sem veitt yrðu skv. væntanlegum lögum, ættu að gilda til þriggja ára einvörðungu til að byrja með.

Útvarpslaganefndin, sem vann að undirbúningi þessa máls fyrst, tók mið af þremur meginforsendum í starfi sínu:

1. Að leggja áfram þær skyldur Ríkisútvarpinu á herðar að sjá öllum landsmönnum fyrir fjölbreyttri dagskrá hljóðvarps og sjónvarps og tryggja aðstöðu og tekjur til þess að svo geti orðið.

2. Að leggja til að fleirum en Ríkisútvarpinu yrði veittur réttur til útvarps, hljóðvarps og sjónvarps, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. M. ö. o., að afnema einkarétt Ríkisútvarpsins á útvarpi.

3. Að ein útvarpslög fjölluðu um allan útvarpsrekstur í landinu.

Grundvallarbreytingin í þessu frv. var sem sé að fleirum en Ríkisútvarpinu yrði veitt leyfi til útvarps. Fyrsti kafli frv. fjallar ítarlega um skilyrðin, sem uppfylla þarf til að slík leyfi verði veitt. Í þeim kafla eru í fyrsta lagi ákvæði um útvarpsréttarnefnd sem skipuð verði skv. frv. sjö mönnum kjörnum af Alþingi-og sjái hún um leyfisveitingar. Eftir þær breytingar sem gerðar voru í Nd. er einnig gert ráð fyrir að þessi nefnd sjái um fleiri atriði, m. a. að hún fjalli um og staðfesti verðskrár auglýsinga í útvarpsstöðvum.

Skilyrði til þess að fá leyfi útvarpsréttarnefndar eru þessi:

Í fyrsta lagi að eingöngu sé útvarpað á metra- og desimetrabylgju skv. úthlutun Póst- og símamálastofnunar á senditíðnum í samræmi við alþjóðasamþykktir, en það þýðir að Póst- og símamálastofnunin gefi út leyfisbréf þar sem kveðið er á um tíðni og útgeislað afi stöðva, og aðrir tæknilegir eiginleikar sendistöðvar skuli vera í samræmi við reglugerð sem Póst- og símamálastofnunin setur og framfylgir.

Í þriðja lagi er áskilið að sveitarstjórnir á svæðum þar sem útvarpsstöðin er starfræki mæli með veitingu leyfis til útvarpssendingar. Þetta á að sjálfsögðu ekki við nema um sjálfan starfsstað stöðvarinnar, en ekki þá staði sem útsendingar ná til, enda væri slíkt örðugt í framkvæmd.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að erlendir aðilar fái ekki leyfi til útvarpsreksturs, með þeirri undantekningu þó sem varðar útvarp varnarliðsins.

Í fimmta lagi er óheimilt að senda út efni sem ekki hefur verið aflað leyfis fyrir með lögmætum hætti. Það segir sig e. t. v. sjálft, en þó er hert á skilyrðunum með þessu ákvæði, t. d. að afla þurfi leyfis skv. höfundaréttarlögum og flutningsréttar.

Það er rétt að geta þess að gert er ráð fyrir að þeir aðilar sem leyfi fá til útvarpsrekstrar hlíti sömu skyldum og Ríkisútvarpið varðandi þjónustu við Almannavarnir ríkisins.

Það sem skiptir meginmáli í þessu frv. er að létta af þeim algera einkarétti sem Ríkisútvarpið hefur nú á þessum fjölmiðli, þannig að við megum sem fyrst njóta viðlíka frelsis og fjölbreytni um efni sem flutt er á öldum ljósvakans eins og gildir um prentaða fjölmiðla. Það ætti ekki að vera óeðlilegra nú á dögum um þessa tegund fjölmiðlunar heldur en er um annað tjáningarfrelsi. Þess vegna er þetta frv., þó að það sé á margan veg flókið og margbrotið og menn greini á um ýmis einstök atriði í því, í raun og veru tákn um það viðhorf nútímamanna að menn skuli í hvívetna njóta tjáningarfrelsis. sem takmarkast ekki af öðru en því tilliti til náungans sem fest er á blað í vissum ákvæðum laga og almennum siðareglum. M. ö. o., að ríkið hafi engan einkarétt á því að tjá sig um menn og málefni á öldum ljósvakans, heldur geti einstaklingar og þeirra samtök átt hlut að máli engu síður.

Það er fleira í þessu máli sem varðar líka tjáningarfrelsið og þá um leið lýðræðið. Það er hið umdeilda atriði sem hér kom til allsögulegrar atkvgr. í hv. Nd. í gær, rétturinn til auglýsinga, sem er fyrst og fremst til þess að auka jafnrétti þeirra sem útvarp reka til aðgangs að fjármögnun. Ef þessum auglýsingarétti væri ekki til að dreifa, þá væri aðstaða fjársterkra aðila til að reka útvarp enn sterkari. Það segir sig sjálft að þarna er um vissa gagnverkun að ræða. Útvarpsstöð, sem sendir út auglýsingar og allmikið af þeim, á auðveldara með að fjármagna gott framleitt efni heldur en hin stöðin, sem ekki nýtur slíkra tekna og byggir þá frekar á einhverju ódýru efni sem er misjafnt að gæðum. Á hinn bóginn er það líka svo að í þeirri útvarpsstöð, sem sendir út gott, vandað og vinsælt efni og margir hlusta þess vegna á munu menn sækjast eftir að auglýsa. Þessir hagsmunir fara því saman, menningarhagsmunirnir og auglýsingahagsmunirnir. Og ekki einungis vegna fjármögnunarinnar, heldur vil ég líka leggja á það áherslu að nú á dögum gera menn sér æ betur ljóst að það þarf að fullnægja ýmsum faglegum kröfum til þess að auglýsingar nái tilgangi sínum um leið og þær fullnægja bæði lagalegum og siðferðilegum kröfum. Að þessu hafa t. d. unnið samtök, sem ég vil gjarnan nefna hér og eru tiltölulega ný af nálinni, samtök auglýsingastofa. Ég hygg að slík samtök geti haft mikil áhrif á hagstæða og menningarlega þróun á þessu sviði og það skiptir vissulega máli.

Menn tala stundum um það með alinokkurri fyrirlitningu að auglýsingar séu verkfæri fjármagnsins og þær hvetji til óþarfrar neyslu, séu óskemmtilegar og ómenningarlegar á allan hátt. Auðvitað eru til slíkar auglýsingar, en það eru líka gild hin gagnstæðu rök sem eru nákvæmlega jafnþung á metunum, því að upplýsingagildi auglýsinganna skyldum við ekki vanmeta. Eins og frv. var, áður en því var breytt í Nd., var það raunar svo að allar stöðvar höfðu rétt til að auglýsa nema kapalstöðvarnar, þ. e. nema litlu stöðvarnar úti í byggðarlögunum sem starfað hafa raunar fyrir utan öll lög í mörg herrans ár. Ef frv. hefði ekki verið breytt væri þeim bannað að dreifa upplýsingum út í sín byggðarlög gegn gjaldi þeirra sem upplýsingarnar vildu gefa, þ. e. í auglýsingaformi. Það bann hefði valdið misrétti einmitt gagnvart þessum stöðvum og þá um leið misrétti gagnvart þeim byggðarlögum sem ég hef séð í nokkur ár að hafa bæði látið sér vel líka og notið þess að hafa þessar kapalstöðvar, sem þar hafa verið reknar.

Nú hefur þessi annmarki verið sniðinn af frv. og ég hygg nú að menn muni sjá þegar frá líður að þetta hafi verið vel ráðið þótt viðkvæmt hafi verið fyrir mörgum um sinn. En fyrir því er þetta kannske svona mikið umræðuefni að einmitt þetta atriði hefur vafist fyrir mörgum í öðrum löndum, og þá einkanlega þar sem menn hafa ekki vanist því eins og hér að Ríkisútvarpið sé rekið öðrum þræði með auglýsingum. Það eru nefnilega ekki svo margar þjóðir sem hafa verið svona á undan sínum tíma eins og við. Finnar hafa haft auglýsingaútvarp í allmörg ár og menn eru æ meira að hverfa að þessu ráði núna í mörgum löndum. Það voru miklar umræður um þetta atriði t. d. í danska þinginu í vetur.

Við ræddum þetta nokkuð saman, danski menningarmálaráðherrann, Mimi Stilling Jakobsen, og ég, þegar við stóðum báðar í því að mæla fyrir þessum hugmyndum. Við vorum sammála um það að einn þáttur í þessu auglýsingamáli væri vanmetinn. Það væri sá þáttur sem veitir listamönnum atvinnu, sem virkjar listina í þágu hins hagnýta, sem virkjar listina í þágu atvinnuveganna og veitir atvinnu og tækifæri myndlistarmönnum, fólki sem stundar leiklist, fólki sem stundar kvikmyndagerð o. s. frv. Og þeim greinum sem þessu tengjast veitast meiri möguleikar með hinu nýja fyrirkomulagi og auknum fjölda útvarpsstöðva. Ég er því ekki í nokkrum vafa um það að breyting á þessum lögum á eftir að hafa áhrif sem eru miklu víðtækari en einungis það að geta stilli á mismunandi stöðvar eða hlustendur velji á milli dagskráa. Ég hygg að hún eigi eftir að hafa mikil áhrif á starfsemi listamanna í landinu og gefa þeim sem framleiða dagskrár með hugviti sínu og þekkingu nýja möguleika. Þetta er líka hluti af því sem er nýtt í atvinnulífi framtíðarinnar. Ég held að menn skilji það æ betur að atvinnulífið á Íslandi verður að vera fólgið í fleiru en sjávarútvegi og landbúnaði. Það sem gerist á þessum sviðum er líka hluti af atvinnulífinu og getur auk þess tengst þessum grundvallargreinum með mjög áhrifaríkum og jákvæðum hætti, með kynningu og fræðslu.

Það er athyglisvert að hér um bil allir menningarmálaráðherrar Evrópuríkjanna eru þeirrar skoðunar að aflétta beri einkarétti ríkisvaldsins á útvarpi þar sem hann er enn, enda held ég nú að andstaða gegn því sé í raun og veru að verða úr sögunni. Ég vil leyfa mér að láta það eftir mér að túlka afstöðu hv. alþm. svo að það sé að verða úr sögunni vegna þess að ég er sannfærð um að meiri hl. alþm. er þessarar skoðunar. Hitt er annað mál að það finnast í hv. Alþingi þm. sem hafa enn þá þessi steinaldarsjónarmið, t. d. Alþb. eins og það leggur sig, að því er virðist vera, a. m. k. í Nd. Því var haldið fram stundum á árum áður að það væru menn svona heldur af betra taginu sem veldust til Ed. og það má vel vera, með allri virðingu fyrir hv. þm. Nd., að svo sé einmitt hér í þessari hv. deild. Þá á ég við af betra taginu að því leyti til, að þeir séu svona lengra komnir í andlegum efnum og þá væntanlega víðsýnni og opnari fyrir ýmsum framfarastraumum. En það er nú einmitt það sem þetta frv. er fyrst og fremst um. Það er einmitt að standa að og taka við framförum og færa sér nýja tækni í nyt, þannig að fleiri eigi möguleika á því að njóta þess frelsis sem okkur finnst í raun og veru að hverjum og einum beri eðli mála samkvæmt.

Ég veit að hv. þm. Eiður Guðnason, sem nú gengur hér yfir í næsta herbergi, þekkir það frá sínum flokksmönnum, a. m. k. einhverjum þeirra, að þeir telja að meginatriði nýrra útvarpslaga sé í raun og veru ekki tjáningarfrelsið, heldur það hverjir eigi boðveitukerfin, að þetta mál snúist meira um eignarrétt en um tjáningarrétt. Ég er þeirrar skoðunar að þetta mál snúist ekki um eignarrétt. (EG: Eignarrétturinn er forsenda tjáningarréttarins.) Eignarrétturinn er ekki forsenda tjáningarréttarins í þessu tilviki, nema menn séu þeirrar skoðunar að þegar ein tegund einokunar er lögð af eigi önnur tegund einokunar að taka við. Ég held hins vegar að margt sé rétt í því sem hefur komið fram í máli flokkssystkina hv. þm. um boðveitur. Þetta eru hugmyndir sem fram hafa komið m. a. frá formanni Samtaka sveitarfélaga, hann hefur kynnt ítarlegar greinargerðir um þessi efni og þetta er í sjálfu sér hið merkasta mál. En þetta er ekki einungis útvarp, þetta er tegund fjarskipta sem tvímælalaust á heima í fjarskiptalögum. Þetta atriði hef ég rætt við hæstv. samgrh. og hann er reiðubúinn til þess að taka þetta atriði einmitt til umfjöllunar í nýrri endurskoðun fjarskiptalaga sem nú fer fram. Það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt að sveitarfélögin hafi þarna mikið um að segja, ekki síst vegna þess að þetta varðar mjög skipulagsmál þeirra. En á hitt er að líta, að boðmiðlunin eða kapalkerfin eru ekki grundvallaratriði þessa máls. Það er ekki víst að það verði svo afskaplega langur tími þangað til við erum ekki lengur háð kapalkerfum í þessum efnum. Þess vegna snúast þessi lög ekki að grundvelli til um það atriði, heldur er grundvöllur þessa máls sá að fleiri en Ríkisútvarpið eitt hafi rétt til þess að nýta þennan fjölmiðil sem við erum að tala um. Það er grundvallaratriði. Og það atriði hvílir í raun og veru á hugsjónastefnu. Það er hugsjónamál að borgararnir í landinu fái að njóta tjáningarfrelsis innan ramma hinna almennu laga að sjálfsögðu. Það er ævinlega undanskilið, en að enginn einkaréttur setji mönnum skorður þegar um slík mál er að tefla. Það er m. ö. o. einfaldlega frelsishugsjón sem liggur að baki þessu máli. Það er einn af hornsteinum okkar samfélags, það er ein af hugmyndum lýðræðisins. Það er í raun og veru ekkert minna en þetta sem við erum að tala um. Og við erum að tala um það að óttast ekki hið nýja heldur að notfæra okkur það til framfara og menningar. Við erum að tala um það að treysta fólki svo vel að við rekum ekki einangrunarstefnu í okkar landi. Við viljum hafa opin augun fyrir því jákvæða og fjölbreytta, fyrir því fagra og góða, en við viljum fá að meta sjálf hvað er fagurt og gott. Þess vegna viljum við gefa fólki tækifæri til þess að ákveða sjálft hvaða fjölmiðil það nýtir helst á þessu sviði, rétt eins og við viljum ákveða það sjálf hvaða blöð við lesum helst eða hvaða bækur við kaupum eða fáum lánaðar í bókasöfnum.

Ég held, virðulegi forseti, að það sé ekki sérstök ástæða til þess að fara ítarlega út í einstakar greinar þessa máls á þessu stigi, heldur fjalla um málið í stórum dráttum, eins og reyndar er gert ráð fyrir við 1. umr. mála, og ég vonast til þess að hv. Alþingi samþykki þetta frv. sem fyrst, þó að mér sé ljóst að því var breytt á þann veg að það tekur ekki gildi fyrr en síðar á árinu þótt samþykkt sé. Ég held að það sé í raun og veru ekki neikvætt, því að það þarf tíma til þess að undirbúa reglugerðir skv. þessum lögum. Hér er um mörg ný atriði að ræða, og tíminn verður notaður í sumar og fram að gildistöku til að undirbúa þessi mál þannig að sem allra best geti orðið að framkvæmd staðið þegar lögin hafa tekið gildi.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.