14.05.1985
Neðri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5245 í B-deild Alþingistíðinda. (4540)

86. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Það liggur við, af því að mönnum hefur nú verið nokkuð heitt í hamsi, að mig langi til að segja hér gamansögu í upphafi máls míns. Hún er örstutt. Hún segir frá bankastjóra sem var boðið í veislu af starfsmanni bankans. Þegar hann hafði fengið í glas leit hann í kringum sig, skoðaði veggina og sagði svo þessa frægu setningu: „Það er ekki eins og hér búi bankastarfsmaður, heldur bankaþjófur,“ lagði frá sér glasið og gekk út. En hann gerði aldrei neitt meira í því máli en leggja frá sér glasið og ganga út. Það var löngu, löngu seinna sem íslenskir dómstólar tóku á þessu máli og þá kom í ljós hversu glöggskyggn hann hafði verið á sínum tíma. (Iðnrh.: Það er ekkert skrýtið.) Ég sé að hæstv. iðnrh. hlær þannig að hann þarf engar leiðbeiningar að hafa um það hvort hér eru skrýtlur á ferðinni eða góðar og gamlar sögur.

En svo við víkjum að áfengislögum þá hef ég hugsað mér að byrja á því að minnast örlítið á viðtal við Guðrúnu Helgadóttur sem kom í útvarpinu. Þar taldi hún upp sem meðmæli og hinn stóra ávinning, ef þetta frv. yrði að lögum, tekjurnar sem ríkissjóður fengi. Það er vel að hún er farin að hugsa um kassann. En hún gleymdi að geta þess að hjá hinum vestrænu þjóðum er það viðurkennd staðreynd — ég sé að hv. 10. landsk. þm. Guðrún Helgadóttir er hér til staðar – (GHelg: Eins og ævinlega, þm.) — þegar hún er ekki erlendis — að það er ein króna sem kemur inn á móti hverjum þremur eða fjórum sem fara út. (GHelg: Ég var að vitna í hæstv. forsrh. Það er ekki mín skoðun sem ég var að lýsa.) Það var verið að tala um aðalávinninginn og ég vænti þess að þm. sé þess minnugur hvað hann sagði.

En ég ætlaði að eiga örlítið meiri orðastað við hv. þm. og var að vona að hann hyrfi ekki svo skjótt af vettvangi því að hér er um landskunnan og góðan barnabókahöfund að ræða og mér sýnist að í tilefni árs æskunnar hafi umræddur barnabókahöfundur ákveðið að færa þeim Jóni Oddi og Jóni Bjarna gjöf sem þeir munu lengi minnast.

Ég tel að hv. 6. þm. Reykv. hafi viljað tala hér af mikilli alvöru um þessi mál. Ég reyndi að skrifa niður eftir honum nokkrar fullyrðingar sem féllu í hans ræðu. Ein fullyrðingin var þessi: Við bönnum ekki æskunni að velja sér vegi. Bönn duga ekki, sagði hann á öðrum stað. Hann gleymir því að öll rökin sem hann notaði gætu verið rökin með því að leyfa hassneyslu eða innflutning á eiturefnum í landið. Við bönnum ekki æskunni að velja sér vegi. Við erum að setja æskumenn í tugthúsið á Íslandi fyrir að neyta þessara efna. Hvað er hv. þm., fyrrv. formaður allshn. hér í þinginu, að tala um? Veit hann ekki í hvernig þjóðfélagi hann lifir? Er honum ekki ljóst að við setjum lög þar sem við bönnum eitt og annað? Hvernig dettur manni á löggjafarsamkomu þjóðarinnar í hug að halda því fram að við stjórnum ekki landinu með lögum, boðum og bönnum? Er hann að leggja til að lagasafnið verði afnumið í einu lagi? Hvar eru rökin fyrir svona málflutningi? (EBS: Kynnist maður lífinu í allshn.?) Hv. 6. þm. Reykv. spyr hvort maður hafi kynnst lífinu í allshn. Ég minnist þess að hann kynntist það vel lífinu í allshn. að þegar áfengismál voru á dagskrá og komu til nefndarinnar afgreiddi hann þau undir vor, það seint að málið sofnaði hér í deildinni áður en það fór til atkvæða. Það má vel vera að kynning við lífið hafi komið þar inn í.

En hitt undraði mig hvað maðurinn, hv. 6. þm. Reykv.. er vel að sér í bókmenntum og þekkir þar ýmsar frægar sögupersónur, m. a. Gróu á Leiti. veit að hún er skrifuð með stórum staf. Gróa á Leiti hafði þá reglu að tilkynna að ólyginn hefði sagt sér. Íslenskir blaðamenn og fréttamenn hafa löngum á seinni árum viljað halda því fram að það væri nauðsyn að þeir gætu þagað yfir heimildarmönnum, þeir þyrftu ekki að gefa upp hverjir heimildarmennirnir væru. Ekki veit ég hvort Gróa á Leiti var á undan sinni samtíð hvað þetta snerti, en við skulum ekki gera litið úr því að það er rétt að það getur verið nauðsyn hjá blaðamönnum að gefa ekki upp sína heimildarmenn til þess að þeir hafi trúnað manna. En blaðamennirnir gleyma því að stjórnmálamenn geta komist í nákvæmlega sömu aðstöðu. Þeir geta komist í þá aðstöðu að þeir gefi ekki upp heimildarmenn til þess að hafa trúnað. Mér er spurn: Telja blaðamenn að þeir einir séu stundum í þessari aðstöðu? Ég ætla að leiða eitt vitni fram hér á eftir en áður en ég kem að því þykir mér rétt að minnast örlítið á hv. 5. þm. Austurl.

Hv. 5. þm. Austurl. var iðnrh. og ég minnist þess að hann undi illa tillöguflutningi sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn stóðu að varðandi samninga við Svisslendinga. Hvaða orð haldið þið að hann hafi valið þeim hóp sem stóð að því að leggja fram till. í þessu máli, taldi sig vinna af jafnmiklum heilindum og hann, hafði aðeins aðrar skoðanir? Hann bar það á þá að þeir hefðu holgrafið íslensku víglínuna. Honum hætti stundum til að tala á styrjaldarmáli. Hvað ætli hershöfðingi hefði gert í stríði við hermenn sem hefðu holgrafið víglínuna? Ég efa það að hv. 5. þm. Austurl. sé ljóst hvaða áburð hann var með. Ég efa að honum sé það ljóst. En mér þótti það hreint skop þegar hv. 5. þm. Austurl. kom hér upp í pontuna, var hér orðinn hálföfugur til að festa augun á skrifara deildarinnar og gleymdi því að það verður að tala í þessi tól til þess að það komist á segulbandið uppi. Siðavendnin og prédikunartónninn var svo algjör. Hann sagðist hafa orðið mjög hissa á þessum ummælum sem ég lét falla og undrandi á þm. að láta slíkt frá sér fara.

En ég var yfir mig hissa á einu atriði. Hv. 5. þm. Austurl. sagðist hafa lesið allan þann póst sem borist hefði út af þessu máli. Það verður að segjast eins og er að það er einhver lélegasti árangur í yfirlestri yfir pappírum, hafi hann lesið allt sem honum barst, að komast að þeirri niðurstöðu sem hann komst að. Það má vera furðulegt að lesa alla pappírana, allar upplýsingarnar sem liggja fyrir og komast að þeirri niðurstöðu að hann ætli sér að styðja bjórinn. Þetta minnir á það þegar ágætur maður hraðlas Biblíuna og sagði:

Biblían er sem bögglað roð fyrir brjósti mínu,

gleypti ég hana alla í einu,

svo að ekki kom að gagni neinu.

Ég er hræddur um að hv. 5. þm. Austurl. hafi lesið þá pappíra álíka vel og viðkomandi aðili las Biblíuna. En ég ætla að vitna hér í Dagblaðið 11. maí 1985 og með leyfi forseta lesa það sem Sigrún Stefánsdóttir fréttamaður kemur hér á framfæri:

„„Þetta er eins gróf yfirlýsing og frekast getur orðið og tilhæfulaus óhróður,“ sagði Sigrún Stefánsdóttir fréttamaður í viðtali við DV. Ummæli Ólafs Þ. Þórðarsonar þingmanns um hugsanlega mútuþægni fréttamanna ríkisfjölmiðlanna í umr. um bjórinn voru borin undir fréttamanninn.“ Reyndar talaði ég um að það hvarflaði að mér með opinbera starfsmenn. Fréttamenn eru þar í hópnum.

Þm. nefnir sérstaklega í ræðustól á þingi frétt um bjórsamlagið. Sigrún Stefánsdóttir var eitt sinn með frétt um bjórsamlagið í sjónvarpinu en þær hafa reyndar verið fleiri en ein.“ Alveg er það merkilegur hlutur hvílík uppspretta frétta bjórsamlagið hefur verið. Hvað þyrfti mörg bjórsamlög til að halda dagblöðunum gangandi með helstu fréttir á útsíðum? Eða er hugsanlegt að nýjar stöðvar hefðu þarna nægt fréttaefni upp á hvert kvöld í framtíðinni?

Þessi frétt um bjórsamlagið, þessi þáttur sem ég talaði um, hafði nefnilega fleiri aðila til viðtals en Guttorm Einarsson. Það var viðtal við Jóhannes Bergsveinsson. Þegar fréttamenn taka viðtöl taka þeir sér gjarnan það vald að klippa þau niður og taka aðeins hluta úr þeim. Það er þó nokkuð mikið vald sem felst í því að klippa niður fréttir eða skoðanir manna á þennan hátt. Það athyglisverða við þetta var að það birtist aðeins örlítið brot af því sem þessi þekkti maður hafði að segja um þessi mál. Hinu var fleygt og m. a. því sem hann hafði lagt sérstaka áherslu á. Það þótti ekki hæft að þessu sinni.

Það hefur borist til þessa fréttamanns undirritað skjal þar sem forseti Ungmennafélags Íslands og ÍSÍ taka afstöðu til þessa máls og fleiri aðilar hafa skrifað undir, allir með það sameiginlegt að þeir hafa unnið og vinna að æskulýðsmálum í landinu. Fréttamaðurinn mat það svo að þetta væri ekki hæft til birtingar eða lagði ekki áherslu á að skýra frá því.

Hv. 2. þm. Reykv. segir orðrétt í Dagblaðinu 11. maí 1985, með leyfi forseta: „Ég held að maðurinn sé að segja þetta sér og öðrum til skemmtunar.“ Það má vel vera að hv. 2. þm. Reykv. telji að ég hafi af þessu skemmtun. Þar er þó um mikinn misskilning að ræða. Ef ég væri að leita mér að skemmtiefni þá er ábyggilegt að ég veldi aðra umr. en um bjórinn. Það er alvara þessa máls. En það er alvöruleysið, sem blasir við í afstöðu manna, sem mig undrar.

Ég get vel hlustað á ræðu eins og 3. þm. Vestf. flutti hér þar sem hann taldi að sér væri heimilt að skipta um skoðun og reyndi að færa rök að þessu máli, — reyndi að færa. Ég var hans rökum ósammála. En mér var ljóst að honum var þetta ekkert gamanmál. Hann var að horfa og skoða þetta út frá því sjónarhorni hvernig ætti að taka skynsamlega á þessu.

En það eru vafalaust ýmsir sem telja að hér sé um gamanmál að ræða. Ég held þó að stærri hópurinn liti svo á að það sé ekki. Ég hef ekki trú á því að ungir sjálfstæðismenn, sem gengust fyrir fundi í Hafnarfirði, hafi litið á þetta sem neitt gamanmál. Þeir höfðu sínar meiningar um þetta. Á þeim fundi töluðu Agnes Bragadóttir, Jón Magnússon, Halldór Kristjánsson og Páll V. Daníelsson. Það mun hafa hitnað dálitið í kolunum á þeim fundi. Guttormur lét orð falla efnislega á þennan veg: Við skulum í næstu prófkosningum aðeins kjósa þá sem vilja vinna að framgangi þessa hagsmunamáls okkar. Þarna er barist. Þarna er stefnan mörkuð. Við viljum fá þetta og við munum berjast fyrir því að setja þá út sem ekki vilja styðja það.

Það er ekki verið að fara í neinar grafgötur með það hvað fyrir mönnum vakir. En ég á von á því að þær kveðjur sem ég fái séu fyrst og fremst þær að menn telji að ég sé að tefja þetta mál. Í fundargerðabók allshn. Nd. er það bókað í fyrravetur þegar þetta mál var á dagskrá að ég óskaði eftir því að það færi út úr nefndinni og inn í deildina í atkvæðagreiðslu. Ég óskaði eftir því það tímanlega að það væri öruggt að það væri möguleiki að þingið tæki afstöðu. Það var ekki orðið við því. Ég hafði ekki meiri hl. til að ná málinu út. En sá vopnaburður sem nú dynur er ekki til að stytta umr. um þetta mál. Þegar heill leiðari er lesinn upp í útvarpinu til þess aðeins að vega að mér, þá spyr maður sjálfan sig: Er nokkur ástæða til þess að vera að hlífa mönnum við umr.? Það er sennilega rétt að leiða hér fram fyrsta vitnið.

Fyrsta vitnið er Jón Baldvin Hannibalsson alþm. og það væri vel ef hann gengi í salinn. Heimildirnar eru Helgarpósturinn fimmtudaginn 31. jan. 1985, 5. tölublað. Ég sakna þess að hv. þm. er ekki í salnum. (Forseti: Hv. þm. er hér.) Að vera hálfur í hvarfi í dyragættum er nú ekki beint sterkt og ég býst við að það væri ekki talið nothæft í réttarsal í það minnsta. Enda mat ég það svo rétt að það væri óvíst að hann væri hæfur sem vitni við þær kringumstæður því að þar mega menn ekki verða tvísaga. En með leyfi forseta verð ég að lesa hér framburð þessa aðila:

„Jón Baldvin Hannibalsson alþm.: Þjóðin hundleið á skinhelgi og hræsni. Það tíðkast alræmd mútustarfsemi vegna áfengissölu.“ — Það hvarflar ekkert að hv. þm. — „„Niðurstöður þessarar skoðanakönnunar sýna að þjóðin er orðin hundleið á skinhelgi, hræsni og vitleysisgangi í þessum málum,“ sagði Jón Baldvin Hannibalsson alþm., fyrsti flm. frv. til laga um breytingu á áfengislögum — sem gerir ráð fyrir að bjór verði leyfður á Íslandi.“ (Gripið fram í.) — Hv. 5. þm. Reykv. er genginn í salinn og vil ég að það sé á hreinu í þingtíðindum að hann hafi tekið það hressilega við sér að hann hafi gengið í salinn. Þá held ég áfram lestrinum, með leyfi forseta:

„Það er vitað frá fyrri könnunum að meiri hluti hefur viljað heimila framleiðslu og sölu á bjór, en kannske má túlka þessa niðurstöðu núna þannig að meiri hlutinn vilji það ekki aðeins, heldur krefjist þess. Þetta er ánægjulegt,“ sagði Jón Baldvin.

Hann sagði að nú væri það spurning hvort meiri hluti á Alþingi herti upp hugann til að fylgja sannfæringu sinni. Á þingi væri a. m. k. vitað að það væri meiri hluti fyrir frv., kannske tveggja atkvæða meiri hluti. Jón taldi jafnvel að þessi hópur væri stærri. „Það er bara ákveðinn hópur þm. sem ekki þorir að fylgja sannfæringu sinni af venjulegri kjósendahræðslu, en vonandi duga þessar niðurstöður til þess að þeir fái kjark til að fylgja sannfæringu sinni,“ sagði Jón Baldvin.“

Örlítið innskot. Hvort skyldi nú þurfa meiri kjark til að taka ákvörðun í andstöðu við skoðanakönnun eða í samræmi við skoðanakönnun? Það þarf litinn kjark til að fylgja eftir í kjölfar á skoðanakönnun þar sem meiri hluti leggur til ákveðna hluti. Það þarf mun meiri kjark til að sigla á móti vindinum, hv. 5. þm. Reykv. (JBH: Sumir beygja sig fyrir fámennum þrýstihópum.) Með leyfi forseta vil ég halda áfram lestrinum:

„Hann kvaðst eiga von á því að málið færi í gegn á þessu þingi ef það yrði þá ekki þæft eða svæft í nefnd, „en það reynir mikið á Gunnar Schram, því að hann er formaður allshn.

Jón var spurður um álit sitt á röksemdum gegn bjór: „Í fyrsta lagi fer sú umr. öll fram á þeirri forsendu að hér sé ekki bjór. Það er bara hin mesta vitleysa. Landið er yfirfullt af bjór, bruggi í heimahúsum, landabruggi, smygli og svo þessu „bjórferlíki“.“ — Með leyfi forseta, til fróðleiks, mér er ekki ljóst hver er munurinn á landabrugginu og bruggi í heimahúsum, en það má vel vera að 5. þm. Reykv. upplýsi það hér á eftir. — „Um læknisfræðilegu hliðina, t. d. aukningu á skorpulifur, hef ég það að segja að það eru mjög skiptar skoðanir á meðal lækna um þau mál. Það eru heilar stofnanir í Þýskalandi sem halda því fram að bjór hafi að vissu leyti líka hollustuáhrif, og hvað varðar skorpulifur, þá má alls ekkert síður rekja hana til léttra vína. Bjór út af fyrir sig er ekkert annað en sárasaklaus neysluvara og breytir engu til eða frá um þetta áfengisböl.“

Jón Baldvin sagði að meiri hluti þjóðarinnar skildi ekki móðursýkiskenndar upphrópanir sumra manna um að bjór væri arsenik eða eiturlyf.“

Herra forseti. Ég hef ekki heyrt þessi hróp þessara manna sem boða þetta. Það má vel vera að hv. 5. þm. Reykv. hafi heyrt þetta á ferðum sínum um landið þegar hann hefur verið að kanna hver á Ísland og væri þá fróðlegt ef það kæmi fram hér í umr. á eftir. Þá held ég enn áfram lestrinum, með leyfi forseta:

„Jón vék að sölufyrirkomulagi á áfengum drykkjum hérlendis og sagði skipan á sölunni í gegnum áfengiseinkasölu ríkisins fáránlega í heild sinni. Vitað væri hvernig og hvaða leiðir umboðsmaður áfengis færi til þess að auglýsa sína vöru, koma henni fyrir á réttum stað í hillunum og fá rétta aðilja til að veita vörunni hæfilegan forgang.“ — Á hvaða aðila er verið að bera mútur? Hvar er kjarkurinn í manninum sem boðaði að það þyrfti kjark til að gefa upp þessa menn? Hvar eru nöfnin, hv. 5. þm. Reykv.?

„Þetta er m. ö. o. alræmd mútustarfsemi,“ sagði Jón Baldvin. „Þar að auki ber ríkið allan þungann af innflutningnum fyrir utan svo þá siðferðilegu þversögn af hálfu ríkisins að segja að áfengi sé eiturlyf, það sé böl o. s. frv., en nota áfengið samt sem áður sem eina helstu tekjulind ríkisins. Þeir sem stunda þetta eiga sjálfir að bera þungann af innflutningnum og ríkið að taka sinn toll og sína skatta af vörunni. Ég er fylgjandi því að bjór verði seldur í verslunum, en ég held bara að það yrði of stór biti fyrir þm. að kyngja. Þeir verða alltaf að vera í smáu skrefunum.“ sagði Jón Baldvin Hannibalsson alþingismaður.“

Hv. 1. þm. Norðlendinga fær þarna sérstaka kveðju. Honum henta ekki stóru bitarnir. Hann er í smáu skrefunum. Það var ekki talið sennilegt að stærri skref hentuðu honum en að bjóða upp á áfengisverslanir ríkisins. Það var ekki talið trúlegt að það hentuðu honum þeir stóru bitar að bjóða upp á matvöruverslanir almennt. Smáu skrefin og litlu bitarnir voru það sem hann, hv. 1. flm., taldi að hentaði í þessu máli.

Herra forseti. Það er með þennan lestur eins og þegar klerkarnir hafa flutt sitt ávarp í kirkjunni, þá er nauðsyn að leggja út af textanum. Undan því verður ekki komist. Sérstaklega er það nauðsynlegt vegna hv. 6. þm. Reykv. sem satt best að segja vandaði mér ekki kveðjurnar í því sem hann flutti hér í ræðustól í gær. (EBS: Hver hóf þann leik?) Herra forseti. Hér er ekki um knattspyrnuleik að ræða. Sá sem flutti frv. kom því inn í Alþingi. Hann hlýtur að vera upphafsmaður að þeirri umr. Það er á engan hátt saknæmt eða neitt athugavert við það.

En spurningin er þessi: Hvaða aðilar eru það sem þarf að múta til að flöskurnar standi rétt í hillunum? Er það útsölustjórinn á staðnum? Er það starfsmaðurinn sem sér um að raða flöskunum? Þetta eru stór orð. En það er athyglisvert að fréttamennirnir, fréttamenn fjölmiðlanna hafa ekki tekið það mark á hv. 5. þm. Reykv. að þeir teldu þess virði að skýra frá þessu einu sinni. En þegar ég læt þess getið hér í þingræðu að það hvarfli að mér — ég kveð nú ekki sterkar að orði — þá er eins og maður hafi stungið þetta lið með títuprjóni í rassinn, svo hörð eru viðbrögðin. Hvað er það sem kemur í veg fyrir að menn taki mark á hv. 5. þm. Reykv.? Hvað veldur því að ekki er tekið mark á honum? Af hverju taka mennirnir ekki við sér?

En hann segir meira: „ ... og fá rétta aðilja til að veita vörunni hæfilegan forgang.“ Hæfilegan forgang hvar? (Gripið fram í: Og hvernig forgang?) Og hvernig forgang? Ef það er að koma honum á framfæri í fréttastofum þá verður að leita til vissra aðila í því sambandi. Það fer ekki á milli mála. Ég segi bara eins og er að ég er að verða spenntur að fá að hlusta á hv. 5. þm. Reykv. útskýra þetta allt nánar.

Hyggur hv. 6. þm. Reykv. að það sé hugsanlegt að það hafi hvarflað að einhverjum lesanda Helgarpóstsins eftir að hafa lesið þetta að e. t. v. væri það rétt að menn þægju mútur? Eða er hann þeirrar skoðunar að ekki sé mark takandi á hv. 5. þm. Reykv.? Þetta er erfitt dæmi og umhugsunarefni.

„Þetta er m. ö. o. alræmd mútustarfsemi.“ Það var maður sem talaði við útvarpið og talaði um kjarkinn sem þyrfti og það þyrfti að leiða fram vitnin. Nú er stundin komin hjá hv. 5. þm. Reykv. ef kjarkurinn er til staðar, nema þarna hafi verið um lýðskrum að ræða. (Gripið fram í: Það getur ekki verið.) Það getur ekki verið, ég tek undir það, það er óhugsandi. Ég hygg að það sé hv. 6. þm. Reykv. ljóst að hv. 5. þm. Reykv. undanskilur ekki einn einasta mann í þessu landi þegar hann talar um hina alræmdu mútustarfsemi. Hann undanskilur ekki einn einasta mann, svo fast er kveðið að fullyrðingum.

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að halda uppi öðru en efnislegri umr. En það kemur mér mjög á óvart ef hv. 5. þm. Reykv. á ekki eftir að biðja um orðið.