14.05.1985
Neðri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5260 í B-deild Alþingistíðinda. (4545)

86. mál, áfengislög

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Í upphafi þessarar umr. og lengst af hafa menn haldið sig við málefni og skipst á rökum með og móti bjór. Síðan gerðist það hér fyrir helgi að hv. 5. þm. Vestf. velur þann kostinn að veitast persónulega að flm. þessa frv. með aðdróttunum sem auðvitað var útilokað að sitja undir. Hann hélt því fram í ræðu sinni að flm. hefðu búið sig undir það að þiggja umboðslaun fyrir áfengt öl og sagði síðan, með leyfi forseta: „Það skyldi þó ekki vera að búið væri að ganga frá samningum um slíka hluti?“

Ég tek mark á því sem hv. þm. Ólafur Þórðarson segir og það er alveg greinilegt að hann ætlast líka til þess að það sé tekið mark á honum þó að það séu ekki nærri því allir sem gera það. Það var þess vegna sem ég stóð hér upp í gærkvöldi vegna þessara ásakana og aðdróttana og krafðist svara og sannana fyrir þessum áburði. Þetta voru óvandaðar kveðjur sem ég a. m. k. sit ekki undir. Það er þess vegna sem ég segi að það var hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sem hóf þennan leik og það var ljótur leikur.

En hann hafði kannske eitthvað til síns máls. Það gat vel verið að hann hefði einhver rök fram að færa. Það gat vel verið að hann hefði sannanir um það að einhverjir af flm. frv. væru búnir að undirbúa það að þiggja umboðslaun vegna sölu á áfengum bjór. Þm. hafði orðið ber að því að skýla sér á bak við þinghelgi, neitaði að svara spurningum fjölmiðla um þessar yfirlýsingar sínar og ég taldi því rétt og eðlilegt að beina þessum spurningum til hans héðan úr ræðustóli þar sem hann gat enn þá skýlt sér á bak við þinghelgina. Ég skoraði á hv. þm. og vísaði til sæmdar hans, að hann svaraði spurningum og færði sönnur á sínar fullyrðingar.

Hvað hefur svo gerst? Nú hefur þessi hv. þm. tekið hér til máls og þingheimur hefur hlýtt á þessa ræðu sem mér skilst að hafi átt að vera svar við mínum spurningum. Hann tók þann kostinn að fara hér með gamansögur og hálfkveðnar vísur, fara með rangfærslur um mín nefndarstörf fyrir fjöldamörgum árum síðan. Hann hefur valið þann kostinn að veitast að nafngreindum fréttamanni hjá sjónvarpinu fyrir það hvernig sá fréttamaður hefur skilað sínum fréttum, telur sér sæmd í því að velja sér upp úr starfi-þessa nafngreinda fréttamanns án þess að hann sé til svara hér í þinginu. Hann ýjar að því að blaðamenn séu í hlutverki Gróu á Leiti þegar þeir vilja ekki undir öllum kringumstæðum gefa upp sínar heimildir. Hann kveinkar sér undan leiðara í tilteknu dagblaði þar sem verið var að fjalla um þessi ummæli hv. þm.

En hvernig getur hv. þm. Ólafur Þórðarson verið að kveinka sér undan því að fjölmiðlar fjalli um þessi ummæli, svo alvarleg sem þau eru? Og enn var það hv. þm. sem hóf leikinn en ekki þetta viðkomandi blað. Menn verða að vera menn til þess ef þeir taka svona mikið upp í sig að því sé svarað og að reynt sé að grípa til varna eða hafa skoðanir á því sem þeir segja ef þeir vilja þá láta taka mark á sér.

Sem sagt, þm. tók þann kostinn að snúa út úr. Hann fjallaði hér í löngu máli um tiltekið viðtal við hv. 5. þm. Reykv. í Helgarpóstinum sem kom ekkert mínum spurningum við og var alls ekki neitt svar, algjörlega út í hött, þegar um það var að ræða hvort flm. frv. hefðu þegið umboðslaun eða ekki. Hann hélt síðan sínum dylgjum áfram og virtist skemmta sér ágætlega við það og var greinilega líka að reyna að skemmta ýmsum öðrum þm. með þessum gálgahúmor sínum. Ég verð að biðjast afsökunar á því en ég hef ekki svona húmor.

Þm. sá ekki ástæðu til að biðjast afsökunar á sínum ummælum, hann sá ekki ástæðu til að draga þau til baka. Ræða hans var þvættingur og hún ber vott um hugleysi og ákveðinn karakter, að geta haft samvisku og þrek til þess að koma hér upp í ræðustól á hv. Alþingi og bera á menn sakir og skýla sér síðan á bak við þinghelgi og neita að færa sönnur á sitt mál eða þá að biðjast afsökunar á því ella.

Herra forseti. Það hefur verið rætt um þinghelgi hér í sambandi við þetta mál. Þinghelgin er til þess að verja þm. en hún á ekki að vera skálkaskjól fyrir þá. Þinghelgin er til þess að þm. geti staðið hér upp og sagt sannleikann og geti sagt sína samvisku, sannfæringu og haft skoðun án þess að eiga það á hættu að utanaðkomandi aðilar, hvort sem það eru stjórnvöld eða aðrir, reyni að drepa þann sannleika í dróma eða kæfa hann niður. Þinghelgin er vörn fyrir þm. en það á ekki að nota þinghelgina til þess að svívirða kollega sína, hvað þá fólk úti í bæ.

Ég fjölyrði ekki frekar um þetta mál, herra forseti. Það hefur satt að segja ekki verið mikið tilefni til þess. Ég er hryggur yfir því hvernig hv. þm. Ólafur Þórðarson hefur haldið á þessu máli því að ég hef borið sæmilega virðingu fyrir honum og hans málflutningi oft á tíðum. En ég verð því miður að viðurkenna að mér finnst hann vera ákaflega lítill kall eftir þessa orðaskipti.