15.05.1985
Efri deild: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5265 í B-deild Alþingistíðinda. (4549)

5. mál, útvarpslög

Haraldur Ólafsson:

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið til meðferðar í allan vetur á hv. Alþingi. Í Nd. hafa orðið breytingar á frv. frá því er það var lagt fram fyrstu daga þings á s. l. hausti. Flestar eru þessar breytingar til komnar í meðförum hv. menntmn. Nd. Eru þær liður í samkomulagi stjórnarflokkanna um þessi mál. Aðrar eru síðar til komnar fyrir tillöguflutning einstakra þm. Aðalágreiningsefni þessa máls í meðförum nefndar og þings hefur tengst auglýsingum og menningarsjóði. Það hefur hins vegar ekki farið fram nein ítarleg umræða um útvarpsstarfsemi sem slíka. Það er eins og allan tímann hafi meiri áhersla verið lögð á að ræða um þetta sem fyrirtækismál en ekki sem þjóðfélags- og menningarmál.

Framsóknarmenn hafa talið mestu skipta að efla innlenda dagskrárgerð, auka fjölbreytni, bæta enn gæði Ríkisútvarpsins, koma á nokkuð skipulagðri útvarpsstarfsemi um land allt, þar sem um væri að ræða starfsemi í öllum kjördæmum landsins svipaða þeirri sem nú fer fram á Akureyri á vegum Ríkisútvarpsins. Einnig hefur verið lögð áhersla á að bæta gæði flutnings útvarpsins, koma því inn á öll heimili í landinu og fá FM-kerfi sem allir gætu náð til. Einnig höfum við lagt áherslu á fræðsluútvarp og starfsemi því tengda. Þessi atriði hafa nú komið inn í frv. í þeirri gerð sem það hlaut í hv. Nd. En til þess að bæta gæði dagskrárefnis, til þess að auka veg útvarpsstarfsemi í landinu lögðum við til að stofnaður yrði menningarsjóður sem í rynni ákveðinn hundraðshluti af auglýsingatekjum í útvarpsstöðvum. Það er miðað við tíu af hundraði. Rynni það í sjóð sem varið yrði eftir sérstökum reglum til þess að styrkja og efla sérstaka meiri háttar dagskrárgerð innlenda sem til menningarauka gæti talist. Gert er ráð fyrir að úr þessum menningarsjóði verði greiddur kostnaður Ríkisútvarpsins af starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar en sá hlutur er festur í lögum.

Rétt er að taka það mjög skýrt fram að ætlast er til að allar hugsanlegar útvarpsstöðvar á landinu hafi rétt til að sækja um og hljóta styrk út þessum menningarsjóði í samræmi við þá dagskrá eða áætlanir um dagskrárgerð sem þær hafa í huga. Til að standa undir auknum kostnaði við rekstur Ríkisútvarpsin, höfum við framsóknarmenn verið dálítið hikandi að ganga langt í að minnka auglýsingatekjur útvarpsins. Þar af leiðandi höfum við haldið nokkuð fast við að auglýsingar yrðu ekki með öllu gefnar frjálsar í öðrum útvarpsstöðvum. Ég vil einnig taka það fram að sú breyting hefur orðið í meðferð hv. Nd. á frv. að horfið er frá hugmyndum um nefskatt en innheimtukerfið látið halda sér. Byggir það á upplýsingum um tæknileg atriði sem gerir auðvelt að fylgjast með hverjir eiga útvarps- og sjónvarpsviðtæki. Við höfum samt sem áður gengið mjög langt til samkomulags um það að veita leyfi til auglýsinga í öðrum útvarpsstöðvum en Ríkisútvarpinu. En við höfum einskorðað okkur við að það væri einungis í þeim tilfellum að unnt sé að heimta inn afnotagjald fyrir not af dagskrá útvarpsstöðvar sem ekki sé leyfilegt að hafa auglýsingar. Þar sem kapalkerfi eru eða þráðakerfi er augljóst að unnt er að heimta inn afnotagjöld. Þar af leiðandi höfum við ekki viljað fallast á að auglýsingar yrðu í slíkum kerfum. Í öðrum tilvikum, þar sem ekki er hægt að innheimta afnotagjöld, höfum við fallist á að auglýsingar verði leyfðar. Ef sú staða kemur hins vegar upp að unnt sé að útvarpa þráðlaust og tæknilega hægt að fylgjast með hverjir vilja gerast áskrifendur að slíku útvarpi, þá sjáum við ekki ástæðu til að hafa auglýsingar þar. Það er kannske ekki langt í land að svo verði. Ég er þess fullviss að ef þetta frv. verður að lögum og þau verða endurskoðuð innan þriggja ára, þá muni fjölmargt nýtt hafa komið fram á tæknisviðinu sem valdi því að endurskoða þurfi kannske fleiri atriði en þau sem tiltekin eru í því frv. sem hér liggur fyrir.

Menningarsjóðshugmyndin er sem sagt tengd því að bæta dagskrá og einnig að gera nokkra takmörkun, en ég vil taka það fram og undirstrika að hér er um mjög litla takmörkun á auglýsingum að ræða. Þá teljum við að betur sé búið að Ríkisútvarpinu heldur en ef algjört auglýsingafrelsi væri og útvarpið mundi hugsanlega tapa alimiklu af þeim tekjum sem það hefur núna af flutningi auglýsinga. En hinar miklu skyldur sem Ríkisútvarpinu eru lagðar á herðar valda því að bæði auglýsingatekjur og tekjur af afnotagjöldum eru nauðsynlegar til þess að það geti gegnt þeim skyldum sem því ber að gera skv. þessum lögum.

Það þarf ekki annað en að lesa 15. og 16. gr. frv. til að sjá hve gífurlega víðtæki svið það er sem Ríkisútvarpinu er ætlað að annast. Það er kannske það sem mest ber á, þegar þetta frv. er lesið yfir, hve miklar kröfur eru gerðar til Ríkisútvarpsins en litlar til annarra hugsanlegra stöðva. Það eru nánast engar kröfur gerðar til annarra stöðva umfram almennt tal um að efla íslenska tungu og vera menningarlegt og lýðræðislegt og hin sjálfsagða klausa um að þær skuli vera skyldugar að flytja ýmsar tilkynningar frá lögreglu, almannavörnum, slysavarnafélögum eða öðrum slíkum, og liggur í augum uppi að slíkt er nauðsynlegt. Að öðru leyti eru bókstaflega engar skyldur lagðar á þessar hugsanlegu nýju útvarpsstöðvar. Það er að vísu sagt að þær skuli gera útvarpsréttarnefnd grein fyrir dagskrárstefnu. En það er svo almennt orðað að ég held að það sé ekki nokkur leið að lesa neitt út úr því annað en það að tilkynna beri útvarpsréttarnefnd í stórum dráttum á hvaða tíma eigi að útvarpa og kannske örfá orð um hlutfall talaðs máls og hljómlistar eða eitthvað slíkt. Hins vegar er í sambandi við Ríkisútvarpið bókstaflega tekið fram að það skuli annast allfullkomna fréttaþjónustu, það skuli flytja allmikið af innlendu efni og það skuli yfirleitt vera miðill fyrir sem allra fjölbreytilegasta menningar- og þjóðfélagsumræðu í landinu. Það liggur því í augum uppi að við hljótum að leggja mikla áherslu á að Ríkisútvarpið hafi tekjur sem geri því fært að gegna þessum skyldum sínum, gegna þessu gífurlega margþætta hlutverki sem það á að hafa með höndum. Þar af leiðandi teljum við uggvænlegt að möguleikar þess til tekjuöflunar séu í nokkru skertir.

Það komu fram allmargar brtt. í hv. Nd. og voru flestar felldar, m. a. í sambandi við boðveitur og eignarhald á útvarpssendistöðvum. Ég held að eins og þau mál1iggja fyrir núna í frv. sé ekki ástæða til að taka það upp. Það gæti orðið nauðsynlegt í sambandi við nýrri tækni sem væntanleg er innan fárra ára, að setja reglur um þau efni. En ég held að ekki sé ástæða til þess fyrr en að endurskoðunartíma væntanlegra laga kemur. Það er ætlun mín að flytja brtt. við frv., brtt. sem færa það í nokkuð svipað horf eins og það kom frá meiri hluta hv. menntmn. Nd. Hvort önnur atriði verða þar tekin til athugunar veit ég ekki. En ég mun a. m. k. flytja brtt. bæði við 4. og 5. gr. frv.

Það eru viss atriði í frv. sem ég held að þurfi að athuga. Það er t. d. varðandi kjörtímabil útvarpsráðs annars vegar og útvarpsréttarnefndar hins vegar, þar sem segir að útvarpsráð skuli kosið eftir hverjar alþingiskosningar en útvarpsréttarnefnd til fjögurra ára. Ég tel rétt að þetta sé samræmt og álít eðlilegast, út frá því sjónarmiði að Ríkisútvarpið sé sem sjálfstæðast, að fjögurra ára tímabil gildi fyrir útvarpsráð.

Annað, sem ekki komst inn í umræður flokkanna í haust en ég hef talið rétt að taka upp og kanna nú hvort samstaða fæst um, er ráðningartími útvarpsstjóra. Ég tel eðlilegt að hann fylgi svipuðum reglum og mjög hefur verið rætt um að teknar verði upp varðandi ráðningu ýmissa embættismanna, að það sé tímabundin ráðning en ekki æviráðning. Þetta hefur verið tekið upp í Þjóðleikhúsinu t. d. og gefist vel. Ég held að það sé til góðs eins að hafa slíkar reglur um ákveðinn ráðningartíma. Í þessu tilviki legg ég til að ekki verði gengið lengra en svo að hann yrði ráðinn til fjögurra ára í senn. Í Þjóðleikhúsinu gildir sú regla að ekki má ráða þjóðleikhússtjóra nema einu sinni aftur til fjögurra ára í röð. Það má kannske segja að það sé fullstrangt einkum og sér í lagi með tilliti til þess að ekki hefur enn þá verið gengið frá lífeyrismálum þeirra embættismanna sem þannig eru ráðnir.

Varðandi ráðningu annarra yfirmanna Ríkisútvarpsins gætu ríkt svipaðar reglur. Mér er ekki fullkomlega kunnugt um hvernig því er háttað nú. En þar eins og í öðrum ríkisstofnunum mun ráðningartími vera miklu meira samningsbundinn nú en var áður þegar yfirleitt gilti æviráðning.

Þá er einnig spurning um hlutfall innlends og erlends efnis. Ég minnist þess að þegar umræður voru hér um stofnun sjónvarps — ég fylgdist nokkuð með því sumarið 1966, sumarið áður en sjónvarpið hóf starfsemi sína — var mikill hugur í mönnum um að setja fastar reglur um hluttali innlends og erlends efnis. Ég tel erfitt að gera ákveðnar tillögur um slíkt. Það hlýtur samt að vera stefna Ríkisútvarpsins að hafa sem mest innlent efni og beinlínis tekið fram í lögunum að það skuli gert. Varðandi aðrar stöðvar eru hins vegar engin skilyrði um slíkt í frv. Það er ekki á það minnst nema þetta sem ég gat um með tunguna.

Þá er enn eitt atriði sem ég held að menn hafi kannske ekki velt nógu rækilega fyrir sér. Það er varðandi auglýsingar í því sjónvarpsefni sem tekið er í gegnum gervihnetti. Það hlýtur að skipta miklu fyrir útvarpsstöðvar hér að frá því sé gengið á þann veg að auglýsendur hér beri ekki mikinn skaða af. Einnig hlýtur það að snerta auglýsingatekjur útvarpsstöðvanna á ýmsan hátt. Þetta er kannske flóknara mál en svo að unnt sé að taka það upp á þessum vettvangi. Ég vil einungis vekja athygli á því máli.

Þá vil ég einnig geta þess að í ákvæðum til bráðabirgða segir að útvarpsréttarnefnd skuli kosin þegar lögin taka gildi en samkvæmt frv. eiga þau að taka gildi 1. janúar 1986. Ég tel tvímælalaust að þessu verði að breyta þannig að útvarpsréttarnefnd verði kjörin fyrr til þess að útvarpsstarfsemin geti hafist þegar í byrjun janúar.

Ég lýsi því yfir að ef þessu máli verður vísað til hv. menntmn. Ed. mun ég leggja áherslu á að það verði rætt ítarlega og að það verði afgreitt, en ég áskil mér rétt til þess að fylgja og flytja brtt. við frv.