01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

54. mál, endurmat á störfum kennara

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í þann mund sem hæstv. fjmrh. gerðist talsmaður þeirrar útbreiddu skoðunar á Alþingi að kennarar ynnu ekki fyrir sínu lága kaupi dundaði ég mér við að telja úr sæti mínu þá hv. þm. sem ég þóttist vita með vissu að hefðu verið kennarar einhvern tíma á ævinni. Það voru ekki allir þm. í salnum, en ég taldi 17.

Hvað segir þetta okkur? Það segir okkur að kennaramenntun sé nokkuð góð almenn undirstöðumenntun, dugi mönnum víða til starfa í þjóðfélaginu. Það er venja úr þessum stól að ávarpa menn sem háttvirta þingmenn. Það bendir þá til þess að kennarar séu mjög háttvirtir þegar þeir eru orðnir fyrrv. kennarar. (Gripið fram í: Flokkast þetta undir atgervisflótta?) Vera má að þetta sé atgervisflótti og vera má að þetta sé staðfesting á flótta úr stéttinni. Út af þeirri aths. verð ég að segja að ég er mest hissa á því að flóttinn skuli ekki vera þegar orðinn miklu meiri en raun ber vitni. Ef við lítum á starfskjör kennarastéttarinnar þá er spurningin: Hvers vegna er það, úr því að þetta er nokkuð almenn undirstöðumenntun, þar sem kennarar geta leitað víða fanga til starfa, hvernig í ósköpunum stendur á því að þeir una þessum kjörum og svara því ekki með fótunum, með því að yfirgefa sinn eina atvinnuveitanda, hæstv. fjmrh., og leita þar fyrir sér sem þeirra störf eru betur metin og reyndar betur launuð?

Þessi till. til þál. um að skipa nefnd til að meta kennara upp á nýtt er ein af þessum ákaflega fallega hugsuðu till. sem stundum koma upp á þingi. Ekki hvarflar að mér eitt augnablik að hún sé fram sett til þess að gera hosur sínar grænar í atkvæðaveiðaskyni gagnvart kennurum. Slíkt gera hv. Kvennalistakonur ekki, eins og kunnugt er. Þetta er því ákaflega vel meint. Og ég get ekki fundið einn einasta mann, hvorki innan þings né utan, meira að segja varla hæstv. fjmrh., sem mundi standa hér upp í stól til þess að andmæla svo sjálfsögðum hlut að efla beri álit og virðingu kennara í þjóðfélaginu.

Það merkilega er, af því að hér eru stundum látin falla orð um það að þarna eigi að efla manngildi en ekki auðgildi, að leiðin sem á er bent til þess að hækka álit kennara, hækka starfsmat kennara, í þjóðfélaginu er sú að meta beri störf þeirra til fjár, til meiri peninga. M.ö.o.: sú hugsun er látin í ljós, vafalaust réttilega, og endurspeglar hugsunarhátt þjóðfélagsins, að ef kennarar væru betur launaðir, þá væru þeir í meiri metum í þjóðfélaginu. Þetta er vafalaust laukrétt.

Hvaða starfsstéttir skyldu það vera í þessu tveggja þjóða þjóðfélagi okkar Íslendinga sem hafðar væru í mestum metum? Það er áreiðanlega ekki barnakennarinn sem vinnur langan starfsdag og sinnir starfi sínu af köllun. Það er ekki bóndinn. Það er ekki erfiðismaðurinn. Þrátt fyrir sjómannarómantíkina, þá er það ekki heldur sjómaðurinn. Ekki heldur vísindamaðurinn og skáldið. Það eru þeir sem vaða í peningum. En þó því aðeins að það sé nokkurn veginn augljóst að þeir hafi lítið fyrir þeim haft. Einkum og sér í lagi eru þeir taldir klókir og snjallir og hafðir í háum metum ef það liggur nokkurn veginn ljóst fyrir að þeir leggja ekkert af mörkum, helst ekki neitt, til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins. Það eru fínir karlar, miklir menn og í miklum metum. Það hefur ekki hvarflað að neinum hv. þm. að flytja till. til þál. um það að slíka menn beri að endurmeta — þá niður á við eða hvað — í áliti Alþingis. Enda sýnir þetta að það er ekki hlaupið að því að flytja till. til þál. eða jafnvel setja lög um það hvernig þjóðfélagið á að meta fólk. Slíkt endurspeglar væntanlega bara það gildismat sem í þjóðfélaginu ríkir. Það er hluti af pólitík þjóðfélagsins. En hitt er rétt að ef kennurum væru greidd hærri laun yrðu þeir um leið, þegar af þeirri ástæðu einnig, í meiri metum hafðir.

Við höfum horft upp á það að undanförnu að þetta þjóðfélag hefur leystst upp í stríðandi fylkingar, í tvær þjóðir. Annars vegar þeirra sem þiggja lítil laun fyrir vinnu sína, greiða hins vegar sína skatta og skyldur til þjóðfélagsins. Og svo er hin fylkingin sem nýtur svolítið annarra kjara af hálfu þjóðfélagsins. Um hvað var þetta verkfall? Það var krafa um það að fólk sem gegnir opinberri þjónustu fengi sín störf metin til jafns við hvað? Við mat markaðarins, við markaðslaunin. Það undarlega er að þeir, sem aðhyllast lögmál markaðarins og segja að hin ósýnilega hönd markaðarins sé hinn rétti aðili, hinn hlutlausi, hlutlægi aðili, voru helstu andófsmenn í þessu máli.

Rétt er að láta það koma fram sem dæmi, ég hygg að það sé rétt, að einn æðsti embættismaður ríkisins, þ.e. æðsti stjórnandi hljóðvarps og sjónvarps, sem ætti að vera einhver mesta virðingar- og trúnaðarstaða íslensks menningarsamfélags, er áreiðanlega ekki hálfdrættingur í launum á við röskan sölumann. Ég hygg að hæstu laun opinberra starfsmanna, ef farið er eftir launatöxtum, séu nokkurn veginn lægstu laun sem borguð eru á frjálsum markaði fyrir störf sem, ef við værum að beita starfsmati eða einhverju slíku mati, þykja þrátt fyrir allt meiri virðingarembætti frá fornu fari í þjóðfélaginu. Nóg um þetta.

Er líklegt að þessi velviljaða og fallega hugsaða till. komi að einhverjum notum, að hún breyti einhverju um hag kennara Þegar nefndin hefur skilað áliti og komist að þeirri niðurstöðu að meta beri kennara betur mun hún væntanlega leggja til að það beri að endurspegla í því að þeirra störf verði betur launuð og síðan verði þeirri till. vísað til hæstv. fjmrh. sem hefur, eins og alþjóð veit, alveg sérstakar skoðanir á því máli. Er mjög líklegt að þetta leiði til einhverrar niðurstöðu? Ég hef ekki trú á því. Hins vegar er ástæða til að spyrja: Ef við viljum bæta hag kennara og kjör og þar með virðingu þeirra í samfélaginu, eru einhverjar leiðir til þess aðrar en verkföll eða harðvítug kjarabarátta? Á að lögleiða kennslu sem lögbundið starf, eins og pípulagnir eða annað slíkt? Ég held ekki. Ég held meira að segja að við séum að sigla inn í þjóðfélag þar sem ætti að leggja allar lögbindingar niður á slíkum störfum. Ég vek athygli á því að í umr. um iðnmenntun hefur það sjónarmið þótt nýstárlegast að við séum of rígskorðuð í verkaskiptingu liðins tíma, þ.e. iðn- og tæknimenntun þurfi fyrst og fremst að vera breið almenn menntun sem geri fólki kleift alla sína starfsævi að byggja ofan á þessa menntun, og færa sig til milli starfa, af þeirri augljósu ástæðu að úrelding starfa er ör. Mörg störf, sem eru löggiltar iðngreinar, eru ýmist að hverfa eða þegar horfnar eða munu fyrirsjáanlega hverfa.

Kennarar búa við þau markaðsskilyrði að þeir eru margir. Það er slæmt ef menn vilja vera í miklum metum og fá góð laun. Það er mikið framboð af kennurum. En sér í lagi búa þeir við það óhagræði á markaðinum að þeir eiga bara einn vinnuveitanda, ríkið. Í því efni skiptir ekki máli hvort handhafi ríkisvaldsins er hæstv. núv. fjmrh. eða aðrir menn og velviljaðri, að eigin sögn, leysi hann af hólmi, því að það hafa margir menn setið í því ráðuneyti, margir meira að segja fyrrv. kennarar, án þess að það hafi endurspeglast í stórlega bættum hag eða auknu áliti kennarastéttarinnar. Þetta er ekki spurning um vild eða óvild.

Hvað er þá hægt að gera? Mér dettur í hug að minna á eina hugmynd, sem þeir hafa einkum og sér í lagi beitt sér fyrir, frjálshyggjupostular, sem mér finnst skoðunar verð, sem tiltölulega hleypidómalaus maður. Hún er sú að létta af kennurum því oki að búa bara við þennan eina sínka atvinnurekanda. Hugmyndin er m.ö.o. sú, svo ég vitni í hv. þm. Guðmund Einarsson — þetta hafa nefnilega frjálshyggjupostularnir lesið af útlendum fræðibókum — að kostnaður þjóðfélagsins við skólahald verði útgreiddur í sérstöku formi. Það er miðað við venjulegan „meðalnormkostnað“ nemanda í skóla. Síðan gefi ríkið út ávísun í hendur foreldra, eða nemenda þegar þeir eru sjálfum sér ráðandi, og segir: „Vær so god“ — hér er það sem þjóðfélagið greiðir með þér til þinnar menntunar. Síðan getur þú farið með þessa ávísun hvert sem þú vilt, í hvaða skóla sem vill við þér taka. Það þýddi þá um leið að þessi sínki vinnuveitandi, þetta voðalega leiðinlega bákn og kerfi, með allar sínar miðstjórnartilhneigingar og flatneskjutilfinningar og leiðindatilfinningar aðrar, væri bara á bak og burt. Ríkið yrði að fara að stunda samkeppni við skólann. Þ.e. góðir kennarar, afbragðs kennarar, hugsjónamenn í fræðslustarfi og upplýsingastarfi, þeir settu á stofn skóla. Smám saman færi það orð af þessum skóla að þetta væri afbragðs skóli. Og hvað mundi gerast? Jú, nemendur mundu auðvitað flykkjast þangað með ávísanirnar sínar. En ef þessi skóli færi að slaka á klónni, um leið og honum færi að förlast, um leið og það álit skapaðist að annar skóli væri nú enn þá betri, þá mundu þeir kannske snúa sér þangað. Í staðinn fyrir miðstjórnarprinsippið væri komin samkeppni. Samkeppni um hvað? Það eina sem máli skiptir — að bjóða okkur góðan skóla.

Oft gerist það í hugmyndafræðiumræðu að menn grafa sér skotgrafir og skjóta síðan á andstæðinginn alveg blint og galið. Ég er marxisti og þar af leiðandi fyrirlít ég allar skoðanir frjálshyggjupostula eða öfugt. Ég veg athygli á því að vinstrimenn á Íslandi eru öllum öðrum fremur miklir einstaklingshyggjumenn. Við sjáum það yfirleitt bara strax í klæðaburði, að þeir eru allt öðruvísi en hægrimenn í klæðaburði, miklu einstaklingsbundnari. Þeir eru alla jafnan miklir boðberar valddreifingar. Þeir eru raunverulega miklir andstæðingar ríkisbákns og kerfis og embættismennsku og hinnar dauðu handar. Þeir vilja einkaframtak ekki síst í andanum. Ekki dytti mönnum í hug að bjóða skapandi listamönnum upp á þau harmkvæli sem íslenskir nemendur þurfa að þola, allan þann námsleiða og gelda stagl sem fram fer oft og tíðum í skólum. Nei, burt með hina dauðu hönd hins lamaða ríkisvalds. Frelsum kennarana undan oki þessa eina atvinnurekanda. Gefum þeim kost á því að starfa sjálfstætt, hafa eigið frumkvæði, stofna eigin skóla og sendum síðan nemendum, þegar þeir hafa aldur, vit og þroska til, tékka fyrir skólahaldinu og útrýmum námsleiðanum og leysum vandamálin.