15.05.1985
Efri deild: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5268 í B-deild Alþingistíðinda. (4550)

5. mál, útvarpslög

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Eins og hv. síðasti ræðumaður minntist á í upphafi síns máls er ekki hægt að kvarta undan því að þetta mál hafi ekki fengið nægjanlega umfjöllun þó að það hafi ekki enn þá legið fyrir þessari hv. deild eða verið fjallað um það þar af leiðandi í nefnd hér. Ég er hér kominn eingöngu til að lýsa yfir því að afstaða okkar þm. BJ í Ed. mun ekki verða önnur en afstaða fulltrúa okkar í Nd. Við munum leggja fram þær tillögur til breytinga á þessu frv. sem þar komu fram og þá einkanlega með tilliti til þeirra niðurstaðna sem urðu þar í atkvgr. um brtt.

Eins og fram kom í umr. í Nd. um þetta frv. erum við ekki eins sátt við þetta frv. og við hefðum viljað vera. Einkum og sér í lagi erum við gagnrýnin á þann — að vísu mjög stóra lið í þessu frv. sem gerir ráð fyrir áframhaldandi pólitísku eftirlitskerfi á Ríkisútvarpinu og nýju sams konar pólitísku eftirlitskerfi á hinum frjálsu útvarpsstöðvum. Verður maður í raun og veru að vona að náist það ekki fram nú að losa fólk, bæði hlustendur og framleiðendur, undan þeirri ánauð að sífellt sé verið að framlengja hlutföll og niðurstöður kosninga hér á þingi inn í allar stofnanir framkvæmdavaldsins þá náist það einhvern tíma, helst í náinni framtíð. En kannske verður það ekki fyrr en BJ hefur öðlast nægilegt afl til að hreyfa málum eins og stjórnkerfisbreytingum í okkar landi.

Hér mætti margt nefna í sambandi við málflutning þeirra manna sem í meginatriðum eru í andstöðu við þetta frv. En vegna þess að ég tel að þetta frv. skipi orðið allt of mikið rúm í okkar þingstörfum, miklu meira en eðlilegt er miðað við mörg önnur vandamál sem við ættum að vera að glíma hér við, sé ég ekki ástæðu til að fara hér í hártoganir við samþingmenn mína og andstæðinga um smáatriði í þessu máli. Ég ætla að geyma það til betri tíma en vona að með hraðri afgreiðslu þessa máls í þessari þd. skapist svigrúm til að fást við þau vandamál sem virkilega brenna á fólki nú.