15.05.1985
Efri deild: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5269 í B-deild Alþingistíðinda. (4552)

5. mál, útvarpslög

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér um ræðir er búið að vera lengi til umræðu í hv. Nd. eins og fram hefur komið í ræðum manna. Ég get ekki að mér gert að leggja örfá orð í belg við 1. umr. þessa máls hér í deildinni og lýsa afstöðu minni til frv.

Það er nokkuð almenn samstaða um það hér í hv. Alþingi að rýmka um einkarétt Ríkisútvarpsins. Ég er sammála því og minn flokkur. Það er einkum vegna þess að aðstæður hafa breyst, tæknivæðing aukist á þessum sviðum, þannig að þessi mál þurfa að vera í sífelldri endurskoðun. Hins vegar hefur minn flokkur viljað binda þessa rýmkun ýmsum skilyrðum. En ég vil frábiðja mér allt umtal um afturhald í því sambandi. Það sem hefur einkum verið rætt er hver staða Ríkisútvarpsins eigi að vera eftir þá lagabreytingu sem hér um ræðir. Ég held að þjóðin vilji hafa sterkt og öflugt ríkisútvarp. Ég held að það sé rétt, sem hv. 5. landsk. þm. Eiður Guðnason sagði í umræðum hér í gær. að Ríkisútvarpið á að sameina þjóðina. Og Ríkisútvarpið er öryggistæki fyrir alla landsmenn. Og það er vilji manna almennt að Ríkisútvarpið sendi gott innlent dagskrárefni um landið allt.

Ríkisútvarpið á langa hefð hér og það er vilji þjóðarinnar að vegur þess sé sem mestur og Ríkisútvarpið er vinsælt hjá þjóðinni, það hefur komið fram.

Það er grundvallaratriði í afstöðu míns flokks og minni persónulega til frv. hvaða meðferð Ríkisútvarpið fær eftir þessa lagabreytingu, að gengið sé frá málum þess þannig að það geti ræki skyldur sínar.

Hv. 9. þm. Reykv. vék að því í ræðu sinni hér áðan hvaða skyldur einkastöðvum eru lagðar á herðar og hvaða skyldur Ríkisútvarpinu eru lagðar á herðar skv. því frv. sem hér um ræðir eins og það litur út núna. Það er kveðið á um skyldur einkastöðva í 3. gr. og ef ég má grípa niður í þessari gr. með leyfi forseta stendur í 3. lið: „Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu.“ Þetta er gott svo langt sem það nær, en þetta er mjög almennt orðað og framkvæmdina er hægt að spila nokkuð eftir eyranu, eins og þar stendur. Síðan stendur hér: „Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum.“ Þetta er líka til bóta að hafa inni í frv. og þetta atriði þarf ekki að hafa í för með sér mikinn kostnaðarauka fyrir þær stöðvar sem hér um ræðir. Síðan segir hér í 4. lið: „Skylt er útvarpsstöðvum að lesa tilkynningar frá almannavörnum, löggæslu, slysavarnafélögum eða hjálparsveitum.“ Þetta er náttúrlega sjálfsagt atriði og þetta er þessum útvarpsstöðvum algjörlega að kostnaðarlausu.

En í 15. gr. er rætt um þær skyldur sem Ríkisútvarpinu ber að uppfylla. Þær eru miklar og kostnaðarsamar og miklu skýrar afmarkaðar í frv. og ég er ekki að mæla því gegn heldur er nauðsynlegt að svo sé. Hér stendur m. a., með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið skal leggja ræki við íslenska tungu. sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

Ríkisútvarpið skal halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana.

Ríkisútvarpið skal m. a. veita almenna fréttaþjónustu . . . Það skal flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi og sjónvarpi. Ríkisútvarpið skal flytja efni m. a. á sviði lista og bókmennta. vísinda og sögu auk tónlistar. Það skal veita almenna fræðslu og gera sjálfstæða dagskrárþætti er snerta Ísland og Íslendinga sérstaklega.

Útvarpsefni skal miða við fjölbreytni íslensks þjóðlífs. Veita skal alla þá þjónustu sem unnt er með tækni útvarpsins og þjóðinni má að gagni koma.“

Og síðan segir áfram í 16. gr.:

„Ríkisútvarpið skal senda út til alls landsins og næstu miða tvær hljóðvarpsdagskrár og minnst eina sjónvarpsdagskrá árið um kring.

Ríkisútvarpið annast hljóðvarp til annarra landa skv. ákvörðun útvarpsstjóra og útvarpsráðs.

Ríkisútvarpið reisir eftir þörfum sendistöðvar og endurvarpsstöðvar að fenginni heimild Póst- og símamálastofnunarinnar o. s. frv.

Ríkisútvarpið skal stefna að því að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar og hljóðvarps í öllum kjördæmum landsins.“

Og síðan kemur hér í 17. gr.:

„Ríkisútvarpinu ber að stuðla að því að frumflutt dagskrárefni stofnunarinnar verði varðveitt til frambúðar.“

Hér er einungis drepið á fá atriði en hér er um mjög miklar og víðtækar skyldur að ræða, enda er það alveg sjálfsagt og í samræmi við þann vilja þjóðarinnar að efla Ríkisútvarpið og gera það sterkt. Og hér er um mjög kostnaðarsama þætti að ræða og þá erum við komin að því hvaða tekjumöguleika Ríkisútvarpið hefur til að gegna þessum miklu skyldum. Það hefur vissulega mikla tekjumöguleika, ég er ekkert að draga fjöður yfir það. Það hefur afnotagjald og það hefur einnig verulegar auglýsingatekjur. Auglýsingatekjur hljóðvarps og sjónvarps eru mjög verulegur hluti af tekjum þessara stofnana. Í aths. frv. eins og það var upphaflega er þess getið að auglýsingatekjur hljóðvarps séu 48.2% af tekjum stofnunarinnar árið 1980 og sjónvarps 23.5% það ár. En hv. 5. landsk. þm. upplýsti hér í gær — og er málinu áreiðanlegur kunnugur — að þetta hlutfall hefði farið vaxandi á síðustu árum og væri núna um 60% í hljóðvarpi og um 30% í sjónvarpi. Það er af þessum sökum sem þingflokkur Framsfl. hefur lýst andstöðu sinni við það ákvæði frv. að rýra tekjumöguleika Ríkisútvarpsins af auglýsingum. Við höfum ekki viljað fallast á það að kapalstöðvar, sem senda út sjónvarpsefni, hafi aðstöðu til að selja auglýsingar eða leyfi til þess. Þær hafa góða tæknilega aðstöðu til innheimtu áskriftargjalda og við erum þeirrar skoðunar að þær verði að nýta slíkt fyrst í stað vegna þess að það eru ekki gerðar ýkja miklar eða kostnaðarsamar kröfur til þessara miðla. Ég hef satt að segja allan fyrirvara um það og hef ekki mjög háar hugmyndir um það efni sem þessar stöðvar muni bjóða upp á. Þó að ég vilji ekki gerast neinn allsherjar spámaður í því efni er ég hræddur um að þar verði menn í vinnu sem hafi það að aðalverkefni að skipta um kassettur. Ég hugsa að aðstaða þessara stöðva miðað við Ríkisútvarpið verði svipuð því fyrirbrigði, sem er vel þekkt í blaðalieiminum, að gefin eru út blöð með margvíslegu efni sem eru bæði dagblöð og landshlutablöð og veita mikla þjónustu sínum lesendum. Síðan er kannske í hverju einasta byggðarlagi gefin út sjónvarpsdagskrá sem er e. t. v. með sjónvarpsdagskrá ríkisfjölmiðlanna og nokkrum skrýtlum og er rekin á auglýsingum sem útgefendur gjarnan undirbjóða blöðin með. Ég er hræddur um að það geti eitthvað hliðstætt komið upp að þessu leyti.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu ýkjamikið meira. En ég vil að lokum koma inn á það að mikið hefur verið talað um frelsishugsjónir í sambandi við þetta frv., að það sé frelsishugsjón sem rekur menn til að samþykkja það eins og það er gert hér úr garði. En það verður að gá að því að það frelsi á ekki að ná til allrar þjóðarinnar. Frelsið sem í þessu frv. felst verður frelsi einhverra byggðarlaga til að velja um dagskrár og þá gjarnan fjölmennustu byggðarlaganna. Og það er alveg rétt, sem hefur komið hér fram í umr., að það frelsi sem felst í því að velja á milli margra einhæfra dagskráa í hljóðvarps- og sjónvarpsstöðvum er e. t. v. ekki mikið frelsi þegar grannt er skoðað.

Ég vil taka undir hugmynd sem hv. 5. landsk. þm. Eiður Guðnason hreyfði í ræðu sinni í gær. Mér finnst hún allrar athugunar verð. Að ríkisfjölmiðlarnir geti e. t. v. leigt afnot af dreifikerfi sínu, þegar þeir senda ekki út, ýmsum félagasamtökum eða einhverjum slíkum aðilum sem viðurkenndir eru. Það efni mundi ná til alls landsins. Mér finnst að þessa hugmynd ætti að skoða hjá þeirri nefnd sem fær málið til afgreiðslu.

Boðaðar hafa verið brtt. af hálfu okkar framsóknarmanna við greinina um auglýsingaþáttinn og ég mun að sjálfsögðu fylgja þeim. En ég hef allan fyrirvara um fylgi við frv. sem heild að þeim brtt. föllnum. Ég mun að þeim brtt. föllnum skoða rækilega hug minn um það hvort ég fylgi þessu frv. Hins vegar er nauðsynlegt að frv. fái afgreiðslu, fái skoðun í nefnd hér í þessari hv. deild og reynt verði að sníða af því þá vankanta sem á því eru vissulega.