15.05.1985
Efri deild: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5273 í B-deild Alþingistíðinda. (4559)

Umræður utan dagskrár

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Tilefni þessarar umræðu utan dagskrár er að hæstv. forsrh. hefur orðið við þeirri beiðni minni að svara nokkrum spurningum vegna fram kominna frétta og fréttatilkynninga sem bárust okkur í gær frá áhugamönnum um úrbætur í húsnæðismálum. Menn hafa fylgst með því undanfarnar vikur og mánuði að áhugamenn um úrbætur í húsnæðismálum hafa sótt mjög hart málstað fólks sem þeir eru fulltrúar fyrir. Fulltrúar ríkisstj. hafa látið nokkuð drjúglega í það skina að öll hjól ríkisstjórnarvélarinnar væru í gangi að vinna að úrbótum í málefnum þessa fólks. En málefni þessa fólks eru í stuttu máli þau að mjög stór hópur fjölskyldna bíður þess að hús þeirra verði boðin upp eða seld ofan af þeim og enn fleiri sjá fram á það, ef ekki verður eitthvað að gert annaðhvort af þeirra eigin hálfu eða annarra, að þeirra bíða hin sömu örlög.

Í gær barst þm. fréttatilkynning frá áhugamönnum um úrbætur í húsnæðismálum, þar sem skýrt var frá því að þeir hefðu átt fund með hæstv. forsrh. og Þorsteini Pálssyni, formanni Sjálfstfl., og fram hafi komið að stjórnarflokkarnir mundu ekki beita sér fyrir úrlausn á vanda þessa fólks fyrir þinglok. Eins og segir í frétt DV í dag, með leyfi hæstv. forseta, í fyrirsögn:

„Steingrímur og Þorsteinn sögðu „nei.“ Þeir sögðu hreint út að þeir ætluðu ekkert að gera fyrir þinglok. Við spurðum: Eigum við að segja fólki það? Þeir sögðu já, það skuluð þið gera. Og það erum við einmitt að gera núna.“ Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna áttu fund með fulltrúum þessa hóps í morgun og það varð að samkomulagi að þessir aðilar legðust allir á eitt til þess að reyna að koma málefnum hópsins hér til umræðu og afgreiðslu á þingi.

Ég ætlaði að spyrja hæstv. forsrh. hvort fullyrðingar þessara manna og sú frétt sem birtist í Dagblaðinu í dag væri virkilega rétt, hvort þetta væri rétt túlkun á fyrirætlunum ríkisstj., og ef svo er þá að fá skýringar á því hvers vegna það er. Og í framhaldi af því kannske að heyra skoðanir hæstv. forsrh. á því hvað þetta fólk eigi að gera ef ekki á að leysa úr málum þess með nokkrum hætti nú og strax.

Ég hef sjálfur ákveðnar hugmyndir um það hvers vegna ríkisstj. ætlar ekki að gera neitt fyrir þinglok og hæstv. forsrh. getur hugsanlega upplýst mig um það hvort mínar hugmyndir eru réttar eða rangar. Ég hef grun um það, mjög illan grun um það að ástæðurnar fyrir því að ekkert eigi að gera séu þær að húsnæðismálin og lánafyrirgreiðslurnar eigi að verða að verslunarvöru í kjarasamningum í haust. Það er að verða þannig með löggjöf á þessu þingi að öll meiri háttar mál eru að verða að verslunarvöru í kjarasamningum, þ. e. samningum milli ríkisstj., atvinnurekenda og launþega. Það er í raun og veru verið að tala um að vísa þeim málum, sem í öllum öðrum löndum er fjallað um af löggjafanum, í eina allsherjar sáttanefnd sem ekki á sæti á þingi.

Það hefur viljað brenna við að menn hafi ekki talið sér skylti endilega að bjarga högum þess fólks sem hér um ræðir og því daufheyrst við þeim hugmyndum sem það hefur hér sett fram sjálft og tillögur um úrlausn sinna mála. Þessu fólki til varnar verður að minna á það að þær fjárfestingar sem það fór út í og ræður nú ekki við fór það út í á þeim forsendum að því hafði verið lofað og því hafði verið lýst fyrir því að allir þessir kostir væru mögulegir og yrðu auðveldari eftir því sem lengra liði. Í fyrsta lagi væri verið að vinna að þeim úrbótum í húsnæðismálum að lánakerfið mundi geta sinnt fjárfestingarþörf þeirra að fullu og í öðru lagi að það fyrirkomulag sem væri nú á lánum hér á landi, þ. e. verðtrygging, þyngdi ekki greiðslubyrði þessa fólks heldur létti hana. Það má t. d. minna á bæklinga, sem gefnir voru út af hálfu lífeyrissjóðanna, þar sem fram koma mjög villandi upplýsingar fyrir þá sem þetta lásu í góðri trú, eins og það að gera verði ráð fyrir því að laun hækki a. m. k. ámóta og lánin í framtíðinni nema reiknað sé með að lífskjör fari versnandi. Reynsla undanfarandi áratuga sýnir að yfirleitt hækkuðu laun meira en allar vísitölur. Og þegar menn hlustuðu á stjórnmálamenn um þessar mundir gat enginn maður gert ráð fyrir því að lífskjör færu versnandi í landinu því að allir stjórnmálamenn buðu sig fram til að bæta lífskjör.

Nú er komin fram í þinginu niðurstaða ríkisstj. í frv. til l. um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga. Þetta frv. tekur á aðeins örlitlum þætti af vanda þessa fólks og þá kannske einna helst þeim þætti sem það þó gæti ráðið við ef vandinn væri ekki miklu stærri. Vandi fólks liggur ekki sérstaklega í þeim lánum sem það enn þá á ógreidd hjá Húsnæðisstofnun. Vandi þess liggur fyrst og fremst í því að það hefur neyðst til að taka fasteignaveðlán. verðtryggð eða ekki verðtryggð lán í bönkum til mjög skamms tíma. Greiðslubyrði þessara lána er það sem er að koma þessu fólki á vonarvöl í dag. Ég hef skoðað þetta frv. sem lagt hefur verið fram í Nd. og er þar til umfjöllunar í nefnd og hef það eitt um það að segja að ég álít það svona u. þ. b. þremur lagagreinum of langt, það er sjö greinar alls. Það flækir málin mjög mikið án þess að tekið sé á málinu í heild. Þvert á móti er tekið á mjög takmörkuðum þætti þess og getur frv. því alls ekki talist fullnægjandi úrlausn fyrir þetta fólk.

Áhugamenn um úrbætur í húsnæðismálum hafa lagt fram ákveðnar tillögur í fjórum liðum, þar sem þeir benda á ákveðnar leiðir til úrlausnar, leiðir sem ekki miðast við það að þessu fólki séu gefnir peningar, heldur einfaldlega að greitt sé úr þeim lánum, sem þetta fólk þegar ber, með þeim hætti að það geti borið þau, og hins vegar að bætt sé við lánum til fólks, ekki neinum stórum upphæðum, heldur minni upphæðum sem þetta fólk gæti notað til að bjarga þeim lausaskuldum sem það ekki getur bjargað núna. Þessar tillögur eru í fyrsta lagi um viðbótarlán frá húsnæðismálastjórn, þær eru um skattaendurgreiðslur, þær eru um skuldbreytingar lána og þær eru um að kannað verði misgengi launa og lánskjara undanfarinna ára með tilliti til þess að meta hvernig þessum málum verði betur hagað í framtíðinni.

Að ég spyr hæstv. forsrh. hér er fyrst og fremst af þeirri ástæðu að ég tel eftir fram komnum fréttum í gær að þetta sé ekki lengur mál félmrh. eingöngu, heldur sé þarna orðið um að ræða hreina og klára spurningu um stefnu ríkisstj. og hvað ríkisstj. í heild vill gera. Ég tel að þessari ríkisstj. beri siðferðileg skylda til að bregðast við vanda þessa fólks og leysa úr honum, það sé ekki hægt að koma sér undan þessum vanda. Menn geta borið því við að ekki séu til nægir peningar og þar fram eftir götunum. Við vitum að peningar eru til í landinu þó að oft og tíðum sé kannske erfitt að ná í þá. En við vitum líka að Íslendingar hafa ráðið fram úr ýmsum vandamálum í þessu þjóðfélagi. Við erum búnir að koma okkur upp almannatryggingakerfi. Við erum búnir að koma okkur upp lífeyrissjóðakerfi. Við erum búnir að koma okkur upp óburðugu húsnæðislánakerfi. Við erum búnir að koma okkur upp alls kyns fjármögnun í landinu til þess að tryggja það sem við almennt getum kallað lífshamingju fólks. Þetta hefur verið gert þrátt fyrir andmæli manna og sífelldar fullyrðingar um að peningar væru ekki til til þessara hluta. Þetta eru einfaldlega ákveðin atriði sem skylda og almennt siðgæði býður mönnum að leysa.

Það er afskaplega lítils virði fyrir fólk að geta hlustað á frjálst útvarp og drukkið með því bjór ef það verður að gerast einhvers staðar úti á víðavangi vegna þess að þetta fólk á ekki lengur þak yfir höfuðið. Það sem ég á við með þessum töluðum orðum er það einfaldlega að við erum kannske hér inni á þingi oft og tíðum að breiða okkur út yfir málefni sem skipta minna máli en mörg önnur sem við ættum frekar að fjalla um.

Eins og ég sagði áðan hefur stjórnarandstaðan átt fund með fulltrúum áhugamanna um úrbætur í húsnæðismálum. Ég lýsi því hér yfir í nafni stjórnarandstöðunnar að hún er reiðubúin að gera allt sem í hennar valdi stendur til að því fólki sem hér um ræðir verði veitt viðunandi og réttlát úrlausn. Stjórnarandstaðan hefur ekki afl til að afgreiða frv. hér á þingi, það er mönnum kunnugt. En stjórnarandstaðan hefur afl til þess að vinna að framgangi mála með ýmsum leiðum, með ýmsum tiltækum ráðum og leiðum. Stjórnarandstaðan ætlar að leggja fram hreinar og klárar tillögur í þessu máli og við erum reiðubúnir að beita öllum tiltækum ráðum til þess að fá þessar tillögur stjórnarandstöðunnar um vandamál þessa fólks ræddar og afgreiddar hér fyrir þinglok. Það var á fulltrúum stjórnarandstöðunnar á þessum fundi í morgun að heyra að full alvara byggi að baki þegar þeir lýstu því yfir að þeir væru reiðubúnir að beita öllum tiltækum ráðum.

Við þekkjum ýmis hefðbundin ráð til þess að reyna að vinna að framgangi mála sem stjórnarandstaðan vill ná fram. En ég vænti að menn geri sér grein fyrir því að til eru ýmis önnur tiltæk ráð sem hægt er að grípa til, ekki hvað síst þegar um er að ræða samvinnu hóps innan þings og annars hóps sem utan þings er. Og ég ætla að vona að menn átti sig á því að alvara þessa máls er svo mikil að þeir láti ekki til þess koma að menn þurfi að fara að beita hér hver annan þvingunum til þess að ná fram því mikla réttlætismáli sem þetta er.