15.05.1985
Efri deild: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5275 í B-deild Alþingistíðinda. (4560)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það er ekki að ófyrirsynju að hv. þm. Stefán Benediktsson hefur borið hér upp nokkrar spurningar til hæstv. forsrh. Ég tek mjög undir það sem hann sagði og geri þessar spurningar að mínum um leið og ég bæti þar nokkrum spurningum við.

Það er enginn vafi á því að það sem við blasir í húsnæðismálunum eru einhver hrikalegustu fjöldavandræði sem sögur fara af á Íslandi fyrr og síðar. Ástæðurnar fyrir þessu eru kunnar. Í fyrsta lagi langhæsta vaxtastig sem þekkst hefur hér, líklega fyrr og síðar. Í öðru lagi mjög sérkennilegt misgengi vísitalna, annars vegar lánskjaravísitölu og hins vegar kaupgjalds, sem hefur valdið því að lán hafa hækkað miklu, miklu meira en nemur hækkun á kaupgetu almennings. Þriðja meginástæðan er svo hin almenna kjaraskerðing sem gengið hefur yfir og hefur að sjálfsögðu gert mönnum almennt miklu erfiðara fyrir að eiga eitthvað afgangs til þess að greiða af skuldum sínum en áður var. Þessi vandi hefur blasað við um langt skeið, hann hefur verið öllum ljós og það er mikið búið að ræða um það meðal manna í öllum flokkum að bregða þurfi hart við og ráða bót á þessum vanda til að komast hjá stórkostlegum vandræðum mikils fjölda manna og heimila. En það hefur sannarlega dregist úr hömlu hjá ríkisstj. að koma með sín úrræði og gera a. m. k. einhverja tilraun til að leysa þennan vanda.

Við höfum hlýtt á miklar yfirlýsingar í vetur frá æðstu ráðamönnum þjóðarinnar um að tekið verði á þessum vanda. Það þarf ekki að endurtaka þær hér. Og hvað gerist svo nú á vordögum? Fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús. Það verður ekki annað sagt um það frv. sem hér hefur verið lagt fram, um greiðslujöfnun á lánum sem tekin hafa verið hjá húsnæðismálastjórn, frv. sem auðvitað er algerlega ófullnægjandi lausn á vanda húsbyggjenda. Þessi tillaga gengur allt of skammt að öllu leyti. Hún nær einungis til lána hjá húsnæðismálastjórn. En auðvitað er vandinn miklu, miklu stærri en hvað varðar lánin sem þar hafa verið tekin. Auk þess eru alvarlegir ókostir við þessa lausn vegna þess að ekki er miðað við launataxta eins og þeir hafa breyst, heldur eitthvert mjög svo dularfullt sambland af fleiri vísitölum, sem kemur auðvitað miklu óhagstæðar út fyrir þá sem hér eiga hlut að máli og var þó ekki á bætandi. Þessi fyrirgreiðsla ætti auðvitað að koma öllum til góða sem eru í vandræðum og menn ættu ekki að þurfa að koma knékrjúpandi til húsnæðismálastjórnar og sanna að um verulega greiðsluerfiðleika sína sé að ræða. Þarna ætti auðvitað að koma með lausn sem kæmi öllum til góða. En það sem þó vantar hvað mest inn í þessa mynd er auðvitað aðalatriði málsins, þ. e. að dregið sé úr vaxtastiginu, vaxtastigið sé lækkað, tryggt sé að sú hávaxtastefna sem hér er að keyra allt á kaf sé látin víkja fyrir skynsamlegri efnahagsstefnu. Ég vil vekja á því athygli að ef litið er á vanda húsbyggjenda í dag þá er vissulega stór þáttur vegna misgengis kaupmáttar annars vegar og lánskjaravísitölu hins vegar. Það er vissulega stór þáttur vandans. En hinn þátturinn er ekkert minni sem stafar einfaldlega af því hve vaxtastigið er hátt. Og það er vandi sem heldur áfram og fer vaxandi meðan hinn vandinn horfir meira til fortíðarinnar en ekki beinlínis líkindi á að sá þáttur fari vaxandi. Eða það skyldum við svo sannarlega vona a. m. k.

Ég ætla ekki að fara mörgum frekari orðum um þann vanda sem hér blasir við, en minni bara að lokum á að svo er fjármögnunarþáttur málsins gersamlega í lausu lofti. Það liggur ekkert fyrir um það hvernig ríkisstj. ætlar að standa að fjármögnun þeirra aðgerða sem við blasa. Og ég minni á í þessu sambandi að við þm. Alþb. höfum flutt hér í þinginu ítarlegar tillögur um hvernig afla mætti fjár til að leysa þennan vanda. Þar geta auðvitað komið fjöldamörg úrræði til greina og aldeilis ótrúlegt að ríkisstj. skuli skila auðu í þeim mikilvæga þætti.

Ég vil að lokum segja það um afstöðu okkar Alþb.manna að við leggjum meiri áherslu á það nú í þinglok en nokkuð annað að tekið verði á vanda húsbyggjenda. Og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur nú á þessum seinustu dögum þingsins til að reyna að knýja á um það að ríkisstj. fáist til að taka á þessum vanda.

Áhugamenn um húsnæðismál, sem myndað hafa samtök sín á milli og héldu blaðamannafund í gær, leggja á það áherslu í orðsendingu til þm. að þeir eigi að rísa undir ábyrgð sinni, þeir eigi ekki að slíta þingi fyrr en þessi mál hafa verið leyst á viðunandi hátt. Undir þetta tek ég svo sannarlega.

Ég vil að lokum spyrja hæstv. ráðh. hvort ríkisstj. geri sér ekki grein fyrir því að þessi vandi er að magnast og á eftir að aukast og margfaldast á næstu mánuðum, þeim mun lengri tími sem liður án þess að á vandanum sé tekið.

Ég spyr í öðru lagi: Dettur hæstv. ríkisstj. í hug að það verði eitthvað auðveldara að ráða bót á vandanum ef honum er nú frestað og látið líða hálft ár eða jafnvel lengri tími án þess að tekið sé á kjarna hans? Menn verða að gera sér grein fyrir því að ef ekki er gripið til þess sjálfsagða úrræðis að lækka vextina og ef ekki er tekið föstum tökum á öðrum þáttum þessa máls, þá er vandinn sem við stöndum núna frammi fyrir bara brot af því sem við eigum eftir að sjá eftir hálft ár eða eitt ár. Við sjáum nú aðeins örlitið brot af þeim ísjaka sem á eftir að lyfta sér úr hafinu og því lengur sem ríkisstj. situr aðgerðarlaus, því meiri og verri verður vandinn. Því ítreka ég spurningu mína: Gerir ríkisstj. sér ekki grein fyrir þessari meginstaðreynd málsins?