15.05.1985
Efri deild: 75. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5288 í B-deild Alþingistíðinda. (4570)

99. mál, kirkjusóknir

Frsm. (Haraldur Ólafsson):

Virðulegi forseti. Þetta mál hlaut allítarlega meðferð í höndum hv. menntmn. Nd. Voru þar gerðar á því nokkrar breytingar sem að mati nefndarmanna menntmn. Ed. voru til bóta. Þetta frv. hefur verið nokkuð lengi í smíðum. Það var fyrst samið af kirkjulaganefnd sem skilaði frv. um þetta efni til kirkjuþings í október 1982. Geta má þess að það frv. var byggt á hugmyndum og tillögum nefndar á vegum kirkjunnar sem átti að fjalla um starfshætti kirkjunnar.

Þetta frv. var svo fyrst lagt fram á hinu háa Alþingi vorið 1983 en hlaut þá ekki afgreiðslu, var reyndar ekki rætt, en síðan kom það aftur fyrir á þessu þingi og er nú komið að lokaafgreiðslu þess.

Eins og fram kemur í nál. eru nm. óbundnir að flytja brtt. eða fylgja þeim. Skrifa a. m.k. tveir þeirra undir með fyrirvara. Þó má lýsa því sem skoðun nefndarinnar að athugandi væri fyrir kirkjuna og kirkjuþing hvort nokkur atriði þessa frv. ættu ekki heima með öllu í höndum kirkjunnar sjálfrar. Ég tel, og það er skoðun fleiri nefndarmanna. að um starfshætti og ýmis framkvæmdaatriði ætti að taka ákvörðun á kirkjuþingi.

Það er hins vegar rétt að fjölmörg atriði verður að festa í lögum. En það eru fyrst og fremst rammalög. Kirkjan ætti síðan að hafa alimikið frelsi til þess að ákveða sjálf hvernig hún ynni að ýmsum innri málum sínum innan þeirra rammalaga.

Þetta er nú aðeins hugleiðing og ábending um samskipti löggjafarvalds og kirkjuvalds, ég tel kirkjuna eiga að vera sjálfstæðari um sín innri mál en fram kemur t. d. í nokkrum greinum þessa frv.

En að þessu sögðu vil ég lýsa þeirri skoðun að þótt menn skrifi upp á með fyrirvara er það þó skoðun nefndarinnar að mæla með samþykki frv. í megindráttum.