01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

54. mál, endurmat á störfum kennara

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. sem hafa tekið þátt í þessari umr. og lagt till. okkar lið. Ég vil sérstaklega þakka hæstv. menntmrh. fyrir hennar orð og eindreginn stuðning við þessa till. Ég kvíði því ekki meðferð tillögunnar í nefnd og hér á þingi og í rn. þegar þar að kemur.

Hv. 2. þm. Austurl. Helgi Seljan talaði um að það væri spurning hversu langan tíma þyrfti til þessa starfs. Við veltum mikið fyrir okkur hvaða tímamörk ætti að setja, og þetta varð nú niðurstaðan, eins og segir hér í till., með leyfi forseta: „Sem allra fyrst og eigi síðar en sex mánuðum eftir samþykkt þessarar till.“ Hugsunin á bak við það er sú að ef þessi till. verður samþykkt og afgreidd frá Alþingi fyrir næstu áramót, eins og við vonumst auðvitað til, geti niðurstöður nefndarinnar legið fyrir alls ekki síðar en um mitt næsta ár og orðið til þess að bæta kjör kennara fyrir næsta kennsluár og firra stórvandræðum á næsta ári.

Hv. 4. þm. Reykn. Salome Þorkelsdóttir minnti á starfshóp þann um skólamál sem hún veitir forstöðu og einn flm, þessarar till., hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, er einnig í. Af þessu tilefni vil ég láta þess getið að úr þeim hópi er till. ekki sprottin, heldur úr öðrum hópi sem starfar innan Kvennalistans og fjallar um skólamál.

Hv. 5. þm. Reykv. Jón Baldvin Hannibalsson sagði í hálfgerðum Austra-stíl eitthvað á þá leið að áreiðanlega værum við Kvennalistakonur ekki á atkvæðaveiðum með þessari till., svoleiðis gerðu Kvennalistakonur ekki. Vonandi hefur hann, „tiltölulega hleypidómalaus“ eins og hann segir sjálfur, ekki ætlast til að þau orð yrðu skilin sem háð. En í tilefni af þessu verð ég að segja að fáar till. sæju dagsins ljós hér á hv. Alþingi ef menn þyrðu ekki að leggja málefnum lið af ótta við að verða sakaðir um atkvæðaveiðar.

Á síðasta þingi var hér fjallað um till. til þál. um stóraukna rækt við íslenskt mál í skólum landsins. Af því tilefni ritaði sá annálaði gáfumaður Helgi Hálfdanarson grein í Morgunblaðið sem fékk þar heiðursrými sem endranær þegar hann tjáir sig þar um einhver efni. Þar sem ég veit að orð slíks manns vega þyngra en orð margra annarra, þ. á m. óbreyttra alþingismanna, langar mig að vitna í þessa grein þar sem rætt er um hlutverk kennara. Þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Uppeldishlutverk og ábyrgð kennarastéttarinnar fer svo mjög vaxandi að þar þyrftu til verks að ráðast vel menntaðir og dugmiklir hæfileikamenn fremur en í nokkurt annað starf í þjóðfélaginu. Hins vegar eru kjör þessarar stéttar slík að því er líkast að þangað eigi að hrekjast út úr vandræðum þeir einir sem ekki er viðlit að nota til neins annars.“

Og á öðrum stað segir Helgi, með leyfi forseta: „Með hverju ári verður brýnna að gera allt sem verða má til að laða að kennarastéttinni úrvalsfólk, minna dugir ekki þar. En það verður ekki gert nema kjör kennara verði bætt, og ekki aðeins bætt, heldur stórbætt. Án þess verða allar ályktanir Alþingis um rækt við móðurmálið sýndarmennskan tóm. Einhver er að ljúga því upp að við höfum ekki efni á að gera vel við svo fjölmenna stétt sem kennarastéttina. Þar er því einu til að svara að hafi ein af ríkustu þjóðum heims ekki efni á að ala upp sín eigin börn, þá eru einhvers staðar ranglátir ráðsmenn að verki.“

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á að samþykki þessarar till. væri Alþingi til vegsauka og hæstv. menntmrh. stuðningur eftir allt sem á undan er gengið.