15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5316 í B-deild Alþingistíðinda. (4605)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur gert grein fyrir ýmsum atriðum varðandi þetta frv. í samræmi við stefnu og skoðanir Alþb. og hefur reyndar lagt á það aðaláherslu að hér sé um að ræða svo stórt og viðamikið mál að eðlilegt sé að bændur eigi kost á því að meta þetta mál sumarlangt og að þingflokkarnir fái aðstöðu til að tilnefna fulltrúa í nefnd til að fara yfir málið núna í sumar.

Hér er að mörgu leyti komið að vissum grundvallarþáttum í okkar stjórnkerfi. Ég er ekki sammála hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni um að það sé eitthvað óeðlilegt að hagsmunaaðilar eins og bændur séu kallaðir til í máli af þessu tagi. Ég tel það þvert á móti sjálfsagt að bændasamtökin fái með eðlilegum hætti að fjalla um þessi mál, þau fái með eðlilegum hætti að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum og að hinir einstöku bændur, sem eiga hér mikið í húfi, fái möguleika til þess að koma á framfæri sínum athugasemdum. Hér er um að ræða grundvallarlöggjöf sem snertir svo að segja öll starfsskilyrði heillar stéttar. bændastéttarinnar í landinu. Ég tel þess vegna að það sé beint virðingarleysi og tillitsleysi ef Alþingi fer að afgreiða þetta frv. á handahlaupum á síðustu dögum þingsins á sama tíma og ríkisstj. er með kröfur um að afgreiddur sé mikill fjöldi stórra lagafrv. án þess að það sé nokkur mynd á því.

Hæstv. forseti Nd. mælti fyrir nokkrum dögum fyrir frv. til laga um breytingu á þingsköpum Alþingis og lagði á það mikla áherslu að það yrði reynt að haga hlutum þannig að vegur Alþingis yrði sem mestur í augum þjóðarinnar sem á að búa við þá löggjöf sem hér er átt við. Ég held að það sé ekki til að auka veg Alþingis að hespa í gegnum þingið löggjöf eins og þessu frv. um framleiðslu landbúnaðarafurða á fáeinum dögum. Ég mótmæli þeim vinnubrögðum og tek undir tillögu hv. 4. þm. Norðurl. e. um að afgreiðslu þessa máls verði frestað, það verði kosin þingnefnd með fulltrúum úr öllum flokkum til að fjalla um þetta mál í sumar og tíminn verði líka notaður til að gefa bændum kost á því að fara yfir málið með eðlilegum hætti.

Í raun og veru má segja að Stéttarsambandi bænda hafi í þessu máli verið stillt upp við vegg á aukafundi þess fyrir nokkrum dögum. Frv. var mjög seint fram komið og í rauninni, án þess að stéttarsambandsfulltrúum hefði gefist kostur á því að lesa málið rækilega, neyddist Stéttarsambandið til þess, eða þessi aukafundur þess að taka afstöðu til frv. eins og það þá lá fyrir. Ég held að þetta séu algerlega óeðlileg vinnubrögð og vil gagnrýna þau mjög harðlega.

Mér hefur borist til eyrna að hæstv. landbrh. hafi tekið um það ákvörðun að senda öllum bændum í landinu þetta frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil spyrja hæstv. landbrh.: Hvaða tíma ætlar hann bændum til þess að koma athugasemdum sínum á framfæri við þennan bálk? Eitt er nú það að ætla þm. að flýta sér við að afgreiða mál, en að ætla bændum að fara yfir þennan lagabálk á nokkrum dögum, gera athugasemdir við einstakar greinar og koma þeim frá sér til löggjafans, það er virðingarleysi og tillitsleysi við bændastéttina í landinu. Á sama tíma og vorannir eru hvað mestar eru þetta algerlega fráleit vinnubrögð. Og ég veit að hæstv. landbrh. þekkir svo vel til starfa í sveitum að hann skilur undir eins hvað það er fráleitt að ætlast til þess að bændur geti skoðað þetta mál núna einmitt á þessum dögum þegar annirnar eru hvað mestar í sveitum landsins.

Ég vil taka það fram, herra forseti, varðandi efnisatriði þessa frv. að ég læt mér ekki nægja að gera almennar pólitískar athugasemdir við þetta, með svipuðum hætti og hv. 5. þm. Reykv. gerði. Það er mjög auðvelt að tæta niður mál eins og þetta, t. d. með því að gagnrýna þær miklu upphæðir sem fara í útflutningsbætur, gagnrýna þær upphæðir sem fara í niðurgreiðslur og gagnrýna þann kostnað sem fylgir framleiðslu landbúnaðarafurða í þessu þjóðfélagi, en það er útilokað fyrir alþm., sem ætlar að taka á þessu máli af einhverri alvöru, að tala með þeim hætti einum að rífa slíkt mál niður með almennum hætti. Hann verður fyrst og fremst að benda á efnisatriði í málinu sjálfu sem hér liggur fyrir. Ég verð hins vegar að segja að þær almennu pólitísku athugasemdir sem hv. 5. þm. Reykv. gerði við þetta frv. voru mér margar hverjar ekki að skapi, t. d. þær að vísa landbúnaðarvörunum á algerlega óheftan markað, gersamlega tillitslausan óheftan markað. Það er stefna sem ég get ekki tekið undir. Ég held að það væri fráleitt miðað við núverandi aðstæður og mundi stefna byggð í landinu í enn þá meiri hættu en þegar er gert.

Það er margt sem vantar í þetta frv. Í því eru engin ákvæði varðandi niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum. Niðurgreiðslur hafa ekki um mjög langt árabil verið eins lágt hlutfall af landbúnaðarafurðum og þær eru núna. Niðurgreiðslur eru með vissum hætti nátengdar landbúnaðarmálum, hafa áhrif á sölu landbúnaðarafurða þó að niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum séu vissulega hagsmunamál neytenda, hagsmunamál launamanna og þar með kjaramál að mínu mati. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að eðlilegt væri að halda ákveðnum niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum og ég mótmæli mjög harðlega þeirri markaðshyggju, sem birtist m. a. í stefnu núv. ríkisstj. og landbrh. í þessum efnum, þar sem verið er að keyra niðurgreiðslurnar niður eins mikið og gert hefur verið. Ég er andvígur því að draga þannig úr niðurgreiðslum á landbúnaðarafurðum vegna þess að niðurgreiðslur eru kjaramál líka og skipta afkomu fólksins í bæjunum mjög miklu. Þetta er ekki síst alvarlegt á sama tíma og fyrir Ed. Alþingis liggur frv. til l. um 20% hækkun landbúnaðarafurða. Það liggur fyrir Ed. Alþingis frv. um að hækka landbúnaðarafurðir á almennum markaði um 1/5. Þetta er frv. um virðisaukaskatt. Ég verð að segja að á sama tíma og slíkt frv. liggur hér fyrir og ríkisstj. virðist ætla að keyra það frv. í gegnum þingið er algerlega fráleitt að taka á málum varðandi framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum öðruvísi en að niðurgreiðslumálin séu rædd sérstaklega líka.

En það er fleira sem vantar inn í þessa umræðu af hálfu hæstv. ríkisstj. Það alvarlegasta sem snýr að landbúnaðinum í dag er rekstrarvandi landbúnaðarins, rekstrarvandi búanna. Það er með engum hætti gerð tilraun til að taka á rekstrarvanda einstakra búa í þessu frv. Engar tilraunir eru gerðar til að meta hvaða hættu það getur haft í för með sér fyrir þjóðina ef það verður saumað að landbúnaðinum áfram eins og gert hefur verið undanfarið.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, herra forseti, að það hefur þegar átt sér stað stórfelldur samdráttur í framleiðslu á landbúnaðarafurðum. Bændur hafa tekið á sig mjög verulega kjaraskerðingu.

Í fyrsta lagi er landbúnaðarframleiðsla takmörkuð með kvótakerfi.

Í öðru lagi er landbúnaðarframleiðsla takmörkuð með kjarnfóðurskatti. Ég tel að það hafi að mörgu leyti verið ein skynsamlegasta ákvörðunin sem tekin hefur verið til að takmarka landbúnaðarframleiðslu, en það verður auðvitað að gera.

Í þriðja lagi hefur landbúnaðurinn eins og aðrir, og kannske meira en aðrir, fengið á sig þá hroðalegu vaxtaholskeflu sem hefur gengið yfir að undanförnu. Ég hefði gaman af því að fá það metið af hæstv. landbrh. hvaða áhrif vaxtapólitík núv. ríkisstj. hefur haft á landbúnaðinn og bændastéttina og kjör hennar. Ég er viss um að það eru fáir hópar í landinu fyrir utan húsbyggjendur eins illa settir vegna þessarar vaxtastefnu og bændur eru. Það væri gaman að spyrja og ég spyr hæstv. landbrh.: Veit hann hve mikið raunveruleg vaxtaútgjöld bændabýlanna í landinu hafa aukist við þær vaxtahækkanir sem hafa verið að ganga yfir að undanförnu? Ég er sannfærður um að þar er um að ræða stórkostlega fjármuni — fjármuni sem auðvitað eru teknir af því sem afgangs er í búinu, þ. e. af því sem bóndinn og fjölskylda hans hefur til að lifa af.

Í fjórða lagi er ljóst að á undanförnum árum hefur verið þannig tíðarfar að það hefur þrengt að landbúnaðinum frá því sem var fyrr.

Í fimmta lagi hefur svo komið hin almenna kjaraskerðing og að mörgu leyti er hún fullt eins tilfinnanleg þarna og annars staðar vegna þess að bændur verða að borga rekstrarvörur búa sinna að fullu og vexti áður en kemur til þess að þeir taka til sín það sem heitir laun eða launaliður bóndans.

Ég harma það þess vegna að hæstv. landbrh. skuli leggja þetta frv. fyrir með þeim hætti að hann gerir ekki sérstaka grein fyrir hinum rekstrarlega vanda landbúnaðarins og þá er ég fyrst og fremst að tala um rekstrarvandann hjá framleiðendunum sjálfum, þ. e. bændastéttinni í landinu.

Í þessu frv. eru vissulega ýmis tæknileg atriði sem vafalaust eru til nokkurra bóta.

Ég vil nefna tvennt sem lengi hefur verið á stefnuskrá okkar Alþb.-manna og við höfum lagt áherslu á við myndun þeirra ríkisstjórna sem við höfum tekið þátt í, bæði 1978 og 1980.

Annars vegar er hugmyndin um beina samninga við bændur. Það er viss tilraun gerð til þess að nálgast þá hugsun í frv. eins og það hér liggur fyrir og ég tel það jákvætt.

Hins vegar er hér opnað fyrir framleiðslukvóta eftir svæðum. Ég tel einnig að það sé jákvætt í löggjöf að opna fyrir þá hugmynd.

Aftur á móti eru hér nokkur atriði sem við hljótum að ræða sérstaklega og ítarlegar. Það er spurningin um það: Er hér verið að einfalda verðlagningarkerfi landbúnaðarafurða? Er víst að þetta kerfi, sem hér er gerð tillaga um, leiði til verðlækkunar á landbúnaðarafurðum frá því sem er núna? Mitt svar við seinni spurningunni er nei. Ég held að færa megi nokkur rök að því að þessar tillögur eins og þær eru hér muni leiða af sér verðhækkun á landbúnaðarafurðum frá því sem nú er og ég vil færa nokkur rök fyrir máli mínu.

Hér er gert ráð fyrir því að verðlag á landbúnaðarafurðum sé ákveðið af þremur aðilum. Það er í fyrsta lagi verðlag til bænda sem er ákveðið af svokallaðri sexmannanefnd skv. 7. gr. frv. Þegar sexmannanefnd fjallar um verðlag til bænda á hún að leggja til grundvallar þetta, eins og segir í 8. gr.:

„Til ákvörðunar á verði búvöru til framleiðenda skal verðlagsnefnd semja um verðlagsgrundvöll er sýni áætlaða vinnuþörf, fjármagnskostnað, rekstrargjöld. launakostnað og afurðir bús sem næst meðalbúi að stærð“ í þeim greinum sem þetta á við. Þá segir í 9. gr.:

„Verð búvöru til framleiðenda skal miðast við það að tekjur þeirra er landbúnað stunda verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra stétta.“

Hvað þýðir þetta og hvaða breyting er þetta frá núgildandi lögum? Ég skil það svo: Í núverandi lögum stendur að það eigi að taka mið af tekjuþróun iðnaðarmanna og verkamanna í ákveðnum hlutföllum. Nú er talað um „aðrar stéttir“. Þá vil ég spyrja hæstv. landbrh.: Hvernig er meiningin að skilgreina þetta? Hvað eru „aðrar stéttir“ í þessu efni? Eru það verkamenn og iðnaðarmenn eins og nú er eða eru það fleiri sem þarna koma inn? Eins og þetta litur út er ómögulegt að átta sig á því hvað þetta þýðir fyrir launin hjá bændum. Þýðir þetta þrengingu á viðmiðuninni. þýðir þetta lækkun á launum bóndans frá því sem verið hefur á undanförnum árum eða þýðir þetta e. t. v. einhverja hækkun?

Þetta er fyrsta stigið, þ. e. verðið til bóndans. Það er sexmannanefnd sem á að ákveða það. Síðan kemur önnur nefnd og hún á að ákveða heildsöluverð búvara. Fimmmannanefnd heitir hún, sú skepna. Fimmmannanefnd skal leitast við að ná samkomulagi um heildsöluverð búvara. Þessi nefnd á að starfa eftir alveg ákveðnum reglum og hún á að taka tillit til rökstuddra upplýsinga um kostnað við vinnslu og dreifingu búvara.

Hvaða breytingar hefur þetta í för með sér frá núverandi kerfi, hæstv. landbrh.? Mér er tjáð að talsmenn vinnslustöðva landbúnaðarins séu mjög á móti þessari aðferð. Hver eru þeirra rök og hver er þeirra gagnrýni í þessum efnum? Telja þeir sig missa spón úr aski sínum? Er verið að þrengja að vinnslustöðvum landbúnaðarins? Það getur verið nauðsynlegt og rétt að gera það. Ég er alveg sammála þeim mönnum sem halda því fram að þær hafi tekið til sín allt of mikla peninga. En er í rauninni verið að þrengja möguleika vinnslustöðva landbúnaðarins frá því sem verið hefur? Ég vil spyrja hæstv. ráðh. um það og biðja hann að útskýra hvernig því háttar.

Þegar sexmannanefnd er búin að ákveða verðið til bóndans og fimmmannanefnd er búin að ákveða vinnsluverðið og heildsöluverðið kemur ein nefnd í viðbót. Það er verðlagsráð. Það á að ákveða smásöluverðið. Í staðinn fyrir það kerfi sem verið hefur eru það þrjár nefndir sem eiga að ákveða verðið á búvörunni. Ekki er þetta nú til einföldunar. Hér kemur fram sú þríburaárátta sem virðist vera hjá ríkisstj. þegar hún er að einfalda einhverja hluti. Þá verða minnst þrjú höfuð þar sem áður var eitt fyrir.

Og hvað gerir nú verðlagsráð eða verðlagsstjórn sem ákveður smásöluverðið á landbúnaðarafurðunum? Skv. lögum um verðlagsmál verður að ákveða álagningu hverrar vörutegundar þannig að hún standi undir sér sem slík. Það er ekki heimilt skv. verðlagslögunum að ákveða álagningu, t. d. á búvöru, mikið lægri og segja um leið: Aðrar vörur og álagning á aðrar vörur eiga að bera uppi hina lágu álagningu á búvörunni. Eins og þetta hefur verið í verslunum hafa búvörur haft lága álagningu sem hefur verið borin uppi af öðrum vörum. Niðurstaða mín er þess vegna sú, herra forseti, að þetta ákvæði muni þýða hækkun á smásöluverði í landbúnaði, hækkun á álagningu kaupmanna á búvörunni. Ég spyr hæstv. landbrh. hvort þetta sé ekki rétt ótvírætt, að þessi ákvæði hljóti eins og þau eru að hafa í för með sér hækkun.

Þetta var varðandi verðákvörðunina. Því næst vil ég koma að kaflanum um greiðslu afurðaverðs. Í VI kafla frv. eru ákvæði um greiðslu afurðaverðs og þar er um það fjallað hvernig á að greiða afurðaverð til bænda. Nú hefur þetta oft dregist langtímum, misserum saman eins og menn þekkja og það hefur haft mikinn vanda í för með sér og m. a. orðið tilefni til langra umræðna hér á Alþingi. En sá vandi hefur alltaf verið sá: Hver á að borga? Hver á að borga flýtinguna á greiðslu afurðaverðsins? Hér er gerð tillaga um að fullnaðargreiðslu haustgrundvallarverðs fyrir sauðfjárafurðir verði lokið eigi síðar en 15. des. Það á að vera búið að greiða að fullu sauðfjárafurðir 15. des. Það er gott ef það tekst. En þá vil ég spyrja: Hvaðan eiga peningarnir að koma? Hvernig hugsa menn sér að brúa bilið frá núverandi kerfi þar sem uppgjör á sauðfjárafurðum dregst oft von úr viti og mjög langt fram á næsta ár? Hver á að borga þessa peninga? Hvar á að taka þá? Hver á að bera fjármagnskostnaðinn ef þetta er tekið að láni? Það er nauðsynlegt að hæstv. landbrh. geri grein fyrir því og svari um leið: Hvað kostar þetta? Hvað kostar þessi flýting á greiðslu verðs fyrir sauðfjárafurðir miðað við núverandi kerfi? Hvað mundi hún kosta á árinu 1985? Hæstv. ráðh. hlýtur að hafa upplýsingar um þetta úr því að hann er að flytja slíkt frv. á Alþingi. Annað væri óábyrgt. Annars væri verið að veifa framan í menn hlutum sem ekkert er á bak við. Það er auðvitað óhæfa að standa þannig að málum. Ég væni hæstv. landbrh. ekki um slíkt.

Í VII kafla þessa frv. er fjallað um stjórn búvöruframleiðslunnar og varðandi það hef ég eina spurningu til hæstv. landbrh. Það er varðandi 30. gr. c-lið þessa frv., en þar segir að ákveða megi framleiðslu búvara eftir svæðum. Síðan segir:

„Skal sú skipting miðuð við félagssvæði búnaðarsambandanna, en ráðh. er þó heimilt að ákveða aðra svæðaskiptingu, að fengnu samþykki Framleiðsluráðs landbúnaðarins og viðkomandi búnaðarsambanda.“

Ég spyr hæstv. landbrh. að því hvort ekki sé alveg ljóst að það getur verið mjög erfitt að ákveða þetta eingöngu eftir búnaðarsamböndunum og svæðum þeirra. Og ég spyr hæstv. ráðh. að því: Hvaða aðra skiptingu er hann með í huga en búnaðarsamböndin sem slík? Ég held að það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar við þessa umr.

Í VIII kafla þessa frv. er fjallað um aðlögun búvöruframleiðslunnar. Hér er átt við aðlögun búvöruframleiðslunnar að hinum innlenda markaði. Eins og þetta er núna á landbúnaðurinn 10% útflutningsbótarétt og hefur átt það síðan í ríkisstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. þegar Ingólfur Jónsson fór með landbúnaðarmál. Hér er gert ráð fyrir að lækka þennan rétt samtals — þegar maður tekur framleiðnisjóðinn með — í 9%. Það er að vísu 7% , 6% , 5% og 4% í útflutningsuppbæturnar, en síðan kemur framleiðnisjóðurinn á móti með 2%, 3%, 4% og 5%, þannig að heildarlækkunin á rétti landbúnaðarins í þessum efnum, ef þetta er lagt saman, er úr 10% í 9%, ef ég skil þetta rétt. Það er eðlilegt og sjálfsagt að setja sér einhver mörk í þessum efnum. En ég bendi á að þessi framleiðnisjóður landbúnaðarins kemur til með að fá alveg gífurlega fjármuni og skv. frv. er gert ráð fyrir því að hæstv. landbrh. eigi að úthluta þeim peningum einn. Þetta eru engar smáupphæðir sem verið er að tala um að láta landbrh. hafa.

Það er ekki nýtt að þeir sjálfstæðismenn treysti framsóknarráðherrunum. Það er það venjulega í þessu, a. m. k. þegar kemur að frv. á borð við þetta og frv. um þróunarfélag þar sem er verið að skella í þá mörg hundruð milljónum króna og enginn veit hvað á að gera við peningana. En hérna eiga litlar 250 millj. kr. úr ríkissjóði að ganga í þennan framleiðnisjóð landbúnaðarins og landbrh. á að ráðstafa þessum peningum aleinn. Ég segi, herra forseti: Ekki nokkur einasti ráðh. hefur aðra eins fjármuni handa á milli án þess að fjárveitingavaldið og Alþingi þurfi að koma þar nokkurs staðar nærri. Ég tel þetta fullkomna fjarstæðu að setja málið þannig upp. Ef þessi framleiðnisjóður landbúnaðarins verður til og ef við erum á annað borð að setja lagaramma um að marka þarna einhverja stefnu í landbúnaðarmálum teldi ég langeðlilegast að Alþingi kysi stjórn fyrir þennan sjóð og honum yrði beitt með markvissum hætti til að fullnægja hinni almennu stefnu sem reynt er að móta m. a. í þessu frv. Ég vil spyrja hæstv. landbrh. að því hvort hann telji ekki óeðlilegt að einn ráðh. fái slíkt vald, jafnvel þó að það sé hæstv. ráðh. sjálfur.

Ég hef, herra forseti, farið hér yfir örfá efnisatriði og ég ætlaði mér ekki að fara að halda hér mjög langa ræðu um þessi mál, enda hef ég ekki miklu við það að bæta sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði um þetta. Ég vil aðeins segja þetta að lokum sem almennt sjónarmið mitt í sambandi við landbúnaðinn: Ég held að við þurfum að reyna að nálgast landbúnaðarvandann dálitið öðruvísi en yfirleitt hefur verið gert hérna. Við eigum að nálgast hann út frá auðlindinni, landinu sjálfu. Hvað getur það borið af framleiðslu? Ég held að við eigum að byrja á auðlindinni sjálfri og velta þessu fyrir okkur: Hvað getur hún gefið þjóðinni? Ekki að byrja á því að skoða markaðinn og framleiðsluna eins og hún er, heldur að reyna að nálgast þetta með alveg nýrri hugsun út frá auðlindinni, sem við höfum þarna, sem er landið sjálft sem við viljum skila betra til komandi kynslóða en ekki verra.

Ég tel að með þessu frv. og samþykktun Stéttarsambandsins í haust séu að mörgu leyti að eiga sér stað mjög afgerandi kaflaskipti í afstöðu Stéttarsambandsins sjálfs til landbúnaðarins og byggðastefnunnar. Ég tel að með þessu frv. sé mörkuð sú stefna að bændur segi sig frá byggðastefnunni. Bændur hafa tiltekna framleiðslu og semja um hana. Bændur munu auðvitað reyna að tryggja að ekki komist margir fleiri í þá framleiðslu til að tryggja að þeir hafi sem hæstar tekjur hver um sig. Ímyndum okkur svæði eins og Vestfirði, þar sem byggðir eru að fara í eyði, og það er ákveðinn framleiðslukvóti kominn fyrir tiltekið svæði, segjum Barðastrandarsýslu: Býli fer í eyði. Þá verður tilhneiging til að deila kvóta þess býlis niður á þá sem eftir eru og koma í veg fyrir að ný býli verði stofnuð. Þetta kalla ég hættuna á því að bændur segi sig frá því að bera kostnaðinn af byggðastefnunni sjálfir og einir og vísi honum þar með yfir á þjóðfélagið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn viðurkenni þessa grundvallarbreytingu. Ég óttast að svona kerfi geti haft það í för með sér að það verði sterk tilhneiging til þess í sumum sveitum að koma fólki burtu til að geta aukið við framleiðslu hjá þeim sem eftir eru. Ég held að sú tilhneiging geti haft mjög slæm félagsleg áhrif í þessum byggðarlögum og það er satt að segja ekki á það bætandi eins og það er víða.

Ég tel, herra forseti, að sú vaxtastefna sem hefur verið rekin af núverandi ríkisstj. stofni í hættu framleiðsluatvinnuvegum landsins, fjárhag húsbyggjenda og einstaklinga í stórum stíl. Ég er hins vegar alveg sannfærður um það varðandi landbúnaðinn að þessi vaxtastefna er stórkostlega hættuleg byggðaeyðingarstefna. Ég bið hv. þm. að svipast um í huga sér vestur á landi og vestur á fjörðum, virða fyrir sér byggðarlögin í Vestur-Barðastrandarsýslu, Barðaströnd, Rauðasand, Ketildalahrepp, Suðurfjarðahrepp, svo ég nefni dæmi, en sú byggð hangir á hálmstrái eins og er. Hér á hv. Alþingi hefur oft verið rætt mikið um byggðastefnu og sagt þar að byggðastefna eigi að felast í því að halda uppi lífvænlegri byggð og menn horfa þá gjarnan til þéttbýlisins. Ég held að það sé út af fyrir sig rétt að leggja áherslu á þéttbýlið. En ég óttast að byggðakeðjan sem gerir Ísland að því Íslandi sem það er og við viljum hafa það sé að slitna. Ég óttast að hún sé að slitna. Ég horfi á Vesturland, ég horfi á Vestfirði og það má nefna önnur svæði á landinu þar sem ég þekki síður til í þessu efni. Ég óttast að byggðakeðjan sé að slitna. Ég held þess vegna að það sé engin leið að taka á þessu frv. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum öðruvísi en að gera sér grein fyrir þeirri byggðaeyðingarhættu sem þarna blasir við.

Við erum með frv. til l. um Byggðastofnun til meðferðar í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Þar nálgast menn byggðamálin með mjög hefðbundnum hætti, miðað við það sem gerst hefur á liðnum árum, en þar er þó dregið úr áherslu á byggðastefnu. En þar er hvergi komið inn á þá hættu fyrir þjóðfélagið og þjóðina alla að þessar byggðir séu í stórum stíl að fara í eyði. Ég tel að það sé ábyrgðarleysi að ræða um þetta mál og að afgreiða þetta mál án þess að það komi fram skilningur á þessum vanda þessara byggða og helst tillögur um úrbætur.

Markaðsstefnan þyrmir ekki þessum byggðum. Markaðsstefnan sýnir þessum byggðum tillitsleysi vegna þess að á þessum byggðum er ekki hægt að græða á mælikvarða markaðarins. Það breytir ekki því að þeir sem telja sig vilja verja félagslega ásýnd þessa samfélags hljóta að leggja áherslu á að það er hættulegt fyrir Ísland og Íslendinga í framtíðinni ef þessar byggðir eyðast enn þá frekar en nú er orðið.