15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5323 í B-deild Alþingistíðinda. (4606)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. alþm. sem rætt hafa málefnalega hér um þetta mikilvæga mál, sem vissulega snertir ekki aðeins bændur í landinu heldur þjóðina alla mjög mikið. Hjá þessum þm. hafa komið fram margar spurningar sem ég skal reyna að víkja að eftir því sem kostur er í ekki allt of löngu máli.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. bar fram margar spurningar eins og eðlilegt er í sambandi við svona mál. Ég vil fyrst víkja að því — eins og kom reyndar fram í máli einhvers ræðumanns — að drög að þessu frv. voru send þingflokkum stjórnarandstöðunnar fyrir mánuði síðan. Þeir fengu þau þá í hendur og hafa haft þann tíma til þess að íhuga og athuga meginstefnu frv., en eins og kom fram í máli mínu hafa verið gerðar á því allmargar breytingar, þó meginstefnu hafi ekki verið breytt, eftir viðræður við fulltrúa Stéttarsambands bænda.

Ég sagði í ræðu minni áðan að reynt hefði verið að taka inn í frv. flestar þær ábendingar sem fram komu frá stéttarsambandsfundi. En frv. hefur síðan ekki verið aftur borið undir stjórnarfund hjá Stéttarsambandi, þannig að ég vil ekki gera það ábyrgt fyrir því eins og það er í núverandi mynd. Stéttarsambandsfundurinn afgreiddi málið með því að gefa þessar ábendingar og veita nefnd, sem hann kaus, umboð til að bæta þar við og koma því á framfæri. Ég veit að hv. landbn. mun eiga viðræður við fulltrúa Stéttarsambands bænda og þar mun þá koma betur fram hver afstaða þess er til frv. eins og það er nú og eins og það kynni að verða eftir þær athugasemdir sem fara fram í landbn. — og þá lagfæringar sem ég benti á að landbn. hlyti að gera um það sem hún væri sammála um að betur mætti fara.

Ég vék hér ekki að vanda bænda eins og hann blasir við nú. Þau mál hafa verið rædd hér fyrr á þessu þingi. Þó benti ég á hvernig aðstæður voru þegar þessi endurskoðun hófst, m. a. það að landbúnaðarframleiðslan hafði þá síðustu árin dregist saman en samdráttur hefur ekki orðið mikill síðustu tvö árin. M. a. s. hefur mjólkurframleiðslan vaxið. Sá vandi sem bændur standa frammi fyrir nú og kynni að stafa af samdrætti er því vegna þess samdráttar sem orðinn var áður en núv. ríkisstj. tók við.

Á s. l. ári var lausaskuldum bænda breytt í föst lán. Það voru um 700 bændur sem leituðu eftir því og hægt var að verða að liði á þann hátt. Nokkrir aðilar gátu ekki notið þeirrar breytingar og málefni þeirra eru nú í athugun hjá nefnd sem ég skipaði fyrir skömmu síðan. Hún er að gera tillögur um hvað þar muni vera hægt að gera. Það er ljóst að aðstaðan er nokkuð misjöfn. Sums staðar munu ástæður vera þannig að erfitt er úr að bæta en aðra en vonandi hægt að aðstoða við að komast fram úr erfiðleikunum.

Allir ræðumenn hér hafa talið að þetta mál þyrfti að vera langan tíma í meðferð hér áður en það gæti orðið að lögum. Ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi að ég tel að það séu svo mörg atriði til hagsbóta fyrir bændur í þessu frv. að æskilegt sé að það geti orðið að lögum sem fyrst. Ég vona að sú nefnd sem um frv. fjallar og hv. Alþingi allt muni líka komast að þeirri niðurstöðu. Það er vissulega rétt að fram hafa komið áskoranir frá fundum bænda um að fresta afgreiðslu málsins. Það hefur verið rökstutt með því að ekki hafi gefist nægur tími til að athuga málið. En mestu máli finnst mér þó skipta í hverja átt stefnir með samþykkt þess. Ég vil benda á að þegar lögin um Framleiðsluráð landbúnaðarins voru sett árið 1947 mun það mál ekki hafa verið öllu lengri tíma í meðferð hjá Alþingi heldur en væntanlega er nú fram að þinglokum. Munu þó flestir sammála um það nú að þau lög hafi reynst íslenskum landbúnaði vel þó að breyttar aðstæður knýi nú á um að þau séu endurskoðuð og ákvæðunum breytt.

Sum þeirra atriða sem um var spurt hér komu reyndar fram í mínu máli upphaflega. Eitt þeirra var um fjármögnun fyrir afurðastöðvarnar til að geta greitt út afurðaverð. Slíkt hlýtur vitanlega að þurfa gerast með lánsfé. Eins og nú er eru afurðirnar vaxtareiknaðar frá því skömmu eftir að þær eru lagðar inn, þannig að það kostar ekkert meira að greiða bændum afurðaverðið út þó að það sé fengið að láni hjá einhverjum öðrum en bændum. En varðandi það hvort gerlegt sé að útvega það fjármagn vil ég benda á að svo mikill samdráttur varð í kindakjötsframleiðslunni á nokkru árabili að miðað við það sem hún er í dag mun ekki þurfa meira heildarfjármagn til þess að gera kleift að greiða út fulli afurðaverð nú heldur en þurfti til þess að greiða þann hluta sem gert var árið 1979 þegar framleiðslan var í hámarki. Af þeim sökum ætti það því ekki að vera óframkvæmanlegt.

Það kom fram hjá sumum ræðumönnum að þetta frv. stefndi í mikla frelsisátt og í fjölmiðlum hefur m. a. komið fram að það geri það í sambandi við verslun með kartöflur og grænmeti. Ég vil aðeins benda hv. þm. Alþb. á að í Ed. var í fyrra mál sem hneig í þá átt sem þarna er farin og þá hlaut það stuðning Alþb.manna þar. Ef þarna er um mikla breytingu að ræða er það m. a. af þrýstingi sem Alþb.-menn stóðu að.

Það er rétt að í frv. eru ekki mjög nákvæm ákvæði um hver verður niðurstaðan í samningum milli fulltrúa bænda og ríkisins í sambandi við framleiðslustjórnunina. En það er hvort tveggja að talið var æskilegt að hafa þarna nokkurt svigrúm fyrir aðila að semja um og einnig hitt. að ekki er víst að menn hitti strax á þá lausn sem vænlegust þykir til frambúðar og þess vegna ekki æskilegt að binda þetta allt of fast í lögum, a. m. k. í fyrstu.

Ég vék að þeim ummælum sem fram hafa komið um valdaflutning til ráðherra og hvaða atriði það einkum eru sem þar er um að ræða. Ég skal ítreka það. Það eru í fyrsta lagi samningarnir við landbrh. um afurðamagnið. Í öðru lagi: þar sem kveðið er á um svo veigamiklar stjórnvaldsaðgerðir eins og þarna er gert ráð fyrir þykir ekki fært annað en að það sé ríkisvaldið sem ákveður það, enda hefur það verið gagnrýnt af mörgum og m. a. kostað málaferli að þær stjórnunaraðgerðir sem átt hafa sér stað eftir núgildandi lögum hafi ekki stuðst við nægilega skýr lagaákvæði. Þessi er ástæðan fyrir breytingunni en ekki sú að ég sækist eitthvað sérstaklega eftir því valdi sem hér er um að ræða. Ég held nefnilega að það sé ekki út af fyrir sig eftirsóknarvert fyrir neinn landbrh. að fá slíkt vald. Og vissulega væri æskilegast að þurfa ekki að grípa til þessara stjórnunaraðgerða. En eins og aðstæðurnar eru eru þær því miður nauðsynlegar og ég geri ekki ráð fyrir að þeir séu margir sem í alvöru vilja fylgja tillögu hv. 5. þm. Reykv. að leysa offramleiðsluna eftir skynsamlegum og hagkvæmum leiðum með því að afnema allar reglur, m. a. að mér skildist ákvæðin um heilbrigðis- og hollustumeðferð, sem eru nú þau ákvæði sem leggja mestar kvaðir á vinnslu og verslun með þessa vöru.

Ég hef áður látið það koma fram að ég vænti þess að við gætum haldið Færeyjamarkaðnum fyrir dilkakjöt. Það er gert ráð fyrir því að einhver útflutningur verði áfram, eins og segir í frv. til þess að tryggja nægilegt framboð á vörum hér innanlands. Því hlýtur tvímælalaust að vera eðlilegast að við reynum að halda í hagkvæmasta markaðinn. Ég tel tvímælalaust að bæði þess vegna og af fleiri ástæðum ættum við að reyna að halda í hann.

Því miður hefur ekki verið ýkja mikil eftirspurn eftir íslensku ullinni til iðnaðarframleiðslu hér á landi. Á s. l. ári var nokkrum erfiðleikum bundið að losna við sumt af 1. flokks ullinni þar sem ullariðnaðurinn taldi sig ekki þurfa á henni að halda. Þar við bætist því miður að það verður að greiða niður verðið á íslensku ullinni, þó að bændum finnist það allt of lágt, til þess að ullin sé samkeppnisfær við innflutta ull. En ullarverð erlendis er svo ótrúlega lágt eins og verð á öðrum landbúnaðarvörum að þar er vonlaust við að keppa enda birgðir geysimiklar til þar af ull.

Það er rétt að ákvæði um niðurgreiðslur er ekki í þessu frv. enda er það ekki í lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. Því miður hafa útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur notið takmarkaðs stuðnings innan Alþingis og utan. Ég vil minna á að fyrir ári síðan voru það aðilar vinnumarkaðarins sem báru fram þá ósk við ríkisstj. að úr þeim yrði dregið. Í staðinn yrðu fjárframlög hækkuð til einstæðra foreldra og barnmargra fjölskyldna. Það var af þeim sökum sem úr niðurgreiðslum var dregið á s. l. ári.

Eins og ég sagði áðan er það rétt að bændur eru nú í vanda staddir núna. ljóst er að sú breyting sem gerð var á lausaskuldum í fyrra hefur ekki nægt öllum. Þegar það lá ljóst fyrir í vetur óskaði ég eftir því við Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands að reynt yrði að koma á leiðbeiningar- og ráðgjafarþjónustu fyrir bændur, hagfræðilegum leiðbeiningum, sem ég hef áður látið í ljós að væru mjög mikilvægar fyrir bændur. Öllum bændum sem ættu í erfiðleikum væri gefinn kostur á að leita til ráðunauta og leggja fyrir þá fjárhagsstöðu sína og fá hjá þeim leiðbeiningar um það sem betur mætti fara og jafnframt að athuga hvort með hagræðingu í búrekstrinum sjálfum mætti finna leiðir út úr þeim vanda sem við er að glíma. Og ef það nægði ekki, þá að reyna að koma fram með hugmyndir um hvar frekar þyrfti við að bæta.

Það er vissulega rétt að vaxtakostnaður er bændum dýr. En verðtryggingarstefnan var ekki tekin upp af núverandi ríkisstj. Hún er eldri. Og ég vil benda á að vextir t. d. frá Stofnlánadeild landbúnaðarins eru ekki háir, vextir umfram verðtryggingu. Vextir þar eru 12%. En vissulega er það rétt að eftir að verðtryggingarstefnan var tekin upp hætti verðbólgan að greiða fjárfestingar niður. Og í atvinnurekstri þar sem veltan er jafnhæg og í landbúnaði hlýtur vitanlega fjármagnskostnaðurinn að hafa mikil áhrif. En vextir eru ekki háir í stofnlánadeildinni.

Vissulega má deila um hvort sú breyting á verðlagningunni sem hér er lögð til sé einföldun. En ég benti á að ég teldi eðlilegt að það væru vinnslustöðvarnar sem kæmu beint að verðákvörðun vinnslu- og heildsölukostnaðar en ekki fulltrúar bænda. Fulltrúar vinnslustöðvanna geti best borið fram þau rök sem þeir hafa fyrir sínu máli. Tekið er fram að þarna eigi að reyna að leita réttra upplýsinga. Verðlagningin á að byggjast sem mest á raunverulegum staðreyndum. Ef vinnslustöðvarnar eru mjög á móti þessu, þá virðist ekki líklegt að þarna sé um hagsbætur fyrir þær að ræða.

Þróunin hefur orðið sú á undanförnum árum að þeim vörutegundum hefur fækkað sem hafa verið verðlagðar af sexmannanefnd. Þarna er kannske um að ræða lokaskrefið í þá átt að það sé verðlagsráð sem fjalli um smásöluverð á búvörum eins og öllum öðrum vörum.

Ég lét það koma fram að ég teldi eðlilegt að hámarksverð yrði áfram á niðurgreiddum búvörum, enda hefur verðlagsráð það í hendi sér og geri ég ráð fyrir að þar séu aðilar inni sem hafi hug á að gæta þess.

Ég get tekið undir það með hv. 3. þm. Reykv. að með þessu frv. er ætlast til að bændur hætti að bera uppi byggðastefnuna. Það verði þá þjóðfélagið í heild sem beri hana uppi. Ég sé heldur ekkert réttlæti í því að bændur geri það einir. Hitt er annað mál að landbúnaðurinn hlýtur að vera traustasti hornsteinn byggðarlaga í landinu. En hann verður það því aðeins að afkoma þeirra sem landbúnaðinn stunda sé viðunandi. Það er áreiðanlega ekki til framdráttar byggðastefnu að reyna að hafa bændur sem flesta til að framleiða sömu vöru, og afkomuna þá þeim mun verri, heldur verðum við að leitast við að finna þá bústærð sem tryggir viðunandi afkomu. Ég get tekið undir það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði. Að mínu mati er fjölskyldubúið heppilegasta búeiningin. Það hefur verið stefna Stéttarsambands bænda og það er stefna Framsfl. og ef nokkuð er, þá eru það ákvæðin um framleiðslustjórnina sem ættu að koma því til vegar. Í 30. gr. eru ákvæði um framleiðslustjórnun fyrir allar búvörur með kjarnfóðurgjaldi. Þar er öllum búgreinum gert jafnt undir höfði. En varðandi það fjármagn sem kemur til uppbyggingar og á að fara í Framleiðslusjóð, þá er það ekki landbrh. einn sem stýrir Framleiðslusjóðnum. Það er sérstök stjórn sem fyrir honum stendur og það er sú stjórn sem gerir tillögur um ráðstöfun fjárins en landbrh. samþykkir. Ég hef farið eftir þeim tillögum sem stjórn sjóðsins hefur gert og hef ekki beitt því neitunarvaldi sem ráðh. kannske hefur eftir núgildandi lögum. En til umræðu eru breytingar á lögum um sjóði atvinnuveganna og verið getur að þá verði einnig breyting á þessu.

Ég hef drepið hér á nokkur atriði sem ég hef í huga af þeim sem hér koma fram, a. m. k. frá þeim hv. þm. sem enn eru viðstaddir af þeim sem töluðu. Ég endurtek svo þakkir mínar til hv. þm. fyrir áhuga þeirra á þessu máli og vænti þess að þeir sjái kosti þessa frv. og ávinning af því að það verði sem fyrst að lögum. [Fundarhlé. ]