01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

100. mál, þingnefnd vegna rekstrarvanda í sjávarútvegi

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég er algerlega ósammála hæstv. sjútvrh. um að ónauðsynlegt sé að kanna þau mál sem hér um ræðir, þ.e. vandann í íslenskum sjávarútvegi, á vegum þingsins. Ég held að það sé einmitt hollt og að þessi till. sé að því leytinu nýt. Sannleikurinn er sá, að við eigum mjög mikið undir okkar sjávarútvegi og þarf ekki að fara um það mörgum orðum. Við eigum í rauninni næstum allt undir hversu til tekst í þeim efnum. Ég held að það liggi ljóst fyrir að okkur hafi ekki tekist sérlega vel til á undanförnum árum og í rauninni má segja að sú ræða sem hæstv. sjútvrh. hélt hér áðan sanni betur en nokkuð annað að ekki hafi sérlega vel til tekist því að hans ræða var að langmestu leyti upptalning á hjálparaðgerðum sem hefðu verið gerðar eða ætti að gera. Ef hér hefði mjög vel til tekist þyrfti ekki að hyggja að málinu með þeim hætti, þá þyrfti ekki að ræða hjálparaðgerðir í mörgum greinum og smáatriðum. En hitt er ljóst, að fyrir þá sök hvernig til hefur tekist stöndum við frammi fyrir enn stærri vanda í þessu máli en ella.

Vandinn er í hnotskurn sá, að ekki einasta stendur greinin mjög illa, heldur getur hún ekki staðið undir nægilega góðum launum til þeirra sem í greininni starfa. Og þá erum við komin að kjarna málsins í atvinnulífi Íslendinga. Við verðum að snúa okkur að því eftir fremsta megni að halda þannig á málum að því er atvinnuvegi okkar varðar að þeir geti greitt og greiði lífvænleg laun. Það eru margir sem starfa í sjávarútveginum og ekki síst þar verður að vinna að þessu markmiði. Ég held að skýringin á því hversu illa gengur að greiða lífvænleg laun, laun sem eru sambærileg við það sem gerist í grannlöndum okkar sem hafa svipaðar þjóðartekjur, felist m.a. og ekki síst í mistökum sem við höfum gert í skipulagi greinarinnar. Ég skal ekki tíunda það í smáatriðum, en ég er sannfærður um að við stöndum frammi fyrir mjög veigamiklu skipulagsverkefni í þessari grein. Og ég held að sú till. sem hér er flutt ætti að beinast m.a. að því verkefni hvernig eigi að taka á skipulagi sjávarútvegsins. Ég er ekki að biðja um ofskipulagningu eða miðstýringu sem ég held að eigi mjög illa við í þessari grein, nema að því er viss atriði varðar, eins og í öðrum atvinnugreinum. En það er ljóst að sá vandi sem við eigum við að stríða krefst þess að við tökum á þessu máli.

Vitaskuld vinnur sjútvrn. að málum af þessu tagi, en ég held að það geti engan skaðað og orðið til góðs að þm. og þingið sjálft vinni einnig að þessu máli. Það mundi væntanlega verða til þess að glæða áhugann á þessari undirstöðuatvinnugrein. Hæstv. sjútvrh. kvartaði einmitt undan því að sá áhugi væri ekki nægur svo einnig að því leytinu held ég að þetta gæti orðið til góðs og til þess að gleðja hæstv. ráðh.

Um orðalag í till. geta menn sjálfsagt deilt og greint á og það er ýmislegt þar sem ég mundi kannske hafa kosið að orða öðruvísi, en það gefst tækifæri til að fjalla um það í n. Mér finnst t.d. að það skorti á að þegar menn biðja um samræmi milli veiða og vinnslu minnist menn þess líka að það þarf að vera samræmi milli afrakstursgetu fiskistofnanna og veiðanna og þar með stærðar skipastólsins.

Það hefði verið ástæða til þess að fjalla sérstaklega um ýmis atriði sem koma fyrir og eru upp talin í þessari till. til þál., svo sem eins og viðhalds- og þjónustukostnað, þar sem það hefur undrað mig að svo sterk samtök sem samtök útvegsmanna og fiskverkenda skuli ekki hafa bundist samtökum um að ekki sé yfir þá velt verðlagshækkunum að óþörfu eins og manni virðist að hafi gerst á undanförnum misserum. Ég held að það væri verkefni fyrir ríkisstj. að bindast samtökum með þessum aðilum um að veita eðlilegt verðlagsaðhald í þessum efnum.

Það er líka merkilegt að flutningskostnaður útflutningsafurða skuli vera ég leyfi mér að segja upp úr öllu valdi hér á Íslandi. Það birtist einmitt um þessar mundir í blöðunum niðurstaða úr könnun sem Sjómannasambandið hefur látið gera sem gefur m.a. til kynna að það sé þrisvar sinnum dýrara að flytja kíló af rækju frá Íslandi til Englands en frá Grænlandi og Norður-Noregi. Þetta getur ekki verið eðlilegt. Og það hefur komið í ljós að þegar aðrir aðilar hafa fengist í litlum mæli við flutninga til landsins, t.d. til Seyðisfjarðar, færeyskir aðilar, þá hafa þeir boðið langtum lægri fragtir en þau skipafélög sem hér eru rekin og þar á meðal það skipafélag sem hefur verið nefnt „óskabarn þjóðarinnar“. Þetta er virkilega íhugunar- og umhugsunarefni og óviðunandi með öllu að fragtirnar til landsins skuli vera jafnháar og raun ber vitni og alveg sérstaklega að fragtirnar á útflutningsvörunum skuli vera eins háar og vitað er að þær eru og hefur verið vitað og eins og kemur berlega fram í þeirri könnun sem hefur verið birt um þessar mundir og Sjómannasambandið hefur látið gera. Hérna er verkefni sem verulega þyrfti að að vinna og ástæða er til þess að beita sér í sérstaklega og það þegar í stað. Ég skora á hæstv. sjútvrh. og aðra ráðh. í ríkisstj., ef einhverjir eru hér staddir, að beita sér einkanlega og sér í lagi í þessu máli.

Hæstv. sjútvrh. minntist svolítið á olíuverðið líka sem hér er gert að umtalsefni í þessari till. til þál. Olíuverð til fiskiskipa er væntanlega á bilinu 40–50% hærra hér en í grannlöndum okkar. Þetta hefur verið mjög gagnrýnt að undanförnu. Ég hef aldrei getað skilið hverjar orsakir liggi til þess að olíuverð til fiskiskipa þurfi að vera eða eigi að vera svona miklu hærra hér en erlendis. Vitanlega getur verið að vegna legu landsins, stærðar og þar fram eftir götunum þurfi einhver munur að vera. En fyrr má nú rota en dauðrota.

Hinn 31. júlí s.l. gaf ríkisstj. út brbl. Þá voru gerðar merkar ráðstafanir, tímamótaráðstafanir eins og það heitir nú venjulegast, af hálfu ríkisstj. þar sem var hugmyndin að draga úr þenslu og stuðla að lausn á vanda sjávarútvegsins. Einn sá þátturinn sem þar var heitið að á yrði tekið var endurskoðun á verðlagningu á olíu og er undir liðnum II. 2. svo menn geti fundið það. Þar er sagt að þessari endurskoðun á verðlagningu olíu verði lokið fyrir lok októbermánaðar. Októbermánuði lauk í gær. Hvar er verðlækkun á olíu? Það var gripið til sérstakra ákvæða í lögum til að greiða 3% til útgerðar fiskiskipa tímabundið til 31. okt. s.l., en þann dag átti verðlækkun á olíuvörum að koma til framkvæmda samkv. fyrirheiti ríkisstj. Það segir að þessi tímabundna viðbót, þessi 3% sem séu greidd úr Aflatryggingasjóði, verði endurgreidd úr ríkissjóði, en falli niður 31. okt., eins og segir í lögunum, vegna þess að þá muni endurskoðun á verð- og skattlagningu olíu koma til framkvæmda og það muni létta kostnaði af útgerðinni. Hvernig stendur á því að þetta fyrirheit ríkisstj. hefur ekki komið til framkvæmda? Tíminn er liðinn. Greiðslan, sem greidd er til þess að mæta háum olíukostnaði, féll niður í gær. Hún féll niður í gær vegna þess að ríkisstj. lofaði því að í dag væri komið lægra olíuverð. Hvernig stendur á því að við höfum ekki séð neitt eða heyrt um þessa lækkun á olíuverðinu? Ég vil geta þess í leiðinni að þegar þessar efnahagsráðstafanir ríkisstj. voru kynntar á sínum tíma, hinn 31. júlí, lét formaður LÍÚ, Kristján Ragnarsson, þess getið að það merkasta í þessum ráðstöfunum væri sú lækkun á olíuverði sem gefin væru fyrirheit og loforð um að kæmu til framkvæmda fyrir 1. nóv., þ.e. fyrir daginn í dag. Þetta merkasta nýmæli, þetta merkasta fyrirheit hefur ekki séð dagsins ljós á réttum tíma. Og ég spyr hæstv. sjútvrh.: Hvað tefur? Hvers vegna er ekki staðið við þetta fyrirheit? Er ekki hugmyndin að standa við þetta fyrirheit og hvenær megum við vænta þess að þetta fyrirheit verði efnt? Og verður það þá afturvirkt að því er varðar olíuverð til fiskiskipa frá og með deginum í dag? Og hversu há prósenta má gera ráð fyrir að hér verði á ferðinni? Verður þetta 40% til að jafna metin við útlönd? Verður það meira eða verður það hugsanlega eitthvað minna? Mér finnst nauðsynlegt að á þessum degi og í þessari umr. svari hæstv. sjútvrh. þessu undandráttarlaust vegna þess að tími fyrirheitsins er liðinn.