15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5334 í B-deild Alþingistíðinda. (4610)

430. mál, bankaráð ríkisbankanna

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Frv. það sem ég hér mæli fyrir felur í sér að fella niður umboð núverandi bankaráða ríkisbankanna og að Alþingi kjósi ný bankaráð fyrir ríkisbankana sem gangi inn í kjörtíma þeirra bankaráða sem síðast voru kosin.

Vera má að sumum finnist að með þeirri leið, sem lögð er til í þessu frv., sé harkalega að farið. Víst er það fátítt hér á landi að embættismenn eða stjórnmálamenn, sem taka vafasamar ákvarðanir, bæði út frá fjárhagslegu sjónarmiði eða bruðlað á annan hátt með almannafé, eða taki að öðru leyti ákvarðanir sem brjóta gegn réttlætisvitund fólksins í landinu, þurfi að standa ábyrgir einstakra embættisgjörða, t. a. m. með afsögn úr starfi, fellt sé niður umboð þeirra eða þeir þurfi á annan hátt að svara til saka fyrir einstakar embættisgjörðir. Slíkt þykir þó sjálfsögð krafa víða erlendis þó að hér sé yfirleitt látið nægja að láta gusta svolítið í kringum slík mál í fjölmiðlum og á Alþingi. Síðan fellur allt í dúnalogn eins og ekkert hafi í skorist og enginn þarf að standa frammi fyrir því að vera kallaður til ábyrgðar fyrir misjafnar gjörðir sínar. ljóst er þó að á slíkum málum, t. a. m. því sem hér um ræðir, þarf að taka af fullri festu og alvöru, ekki síst hér á hv. Alþingi.

Alþingi ber skylda til að halda uppi ströngu eftirliti og aðhaldi með framkvæmdavaldinu. Ef slík mál eru látin óátalin af Alþingi dregur það ekki einasta úr virðingu Alþingis heldur og ýtir undir það sem margir vilja vera láta, þ. e. þá skoðun að löggjafarvaldið sé orðið afar veiki gagnvart framkvæmdavaldinu.

Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til þess, herra forseti, að setja á langa framsögu um þetta mál, svo ljóst sem tildrögin að flutningi þessa frv. liggja fyrir, svo mjög sem um þetta mál hefur verið fjallað hér á hv. Alþingi sem og annars staðar í þjóðfélaginu.

Frv. þessu fylgir stutt grg. sem ég vil þess í stað, með leyfi forseta, fá að lesa:

„Eins og fram hefur komið samþykktu bankaráð ríkisbankanna nýlega að greiða bankastjórum árlega launaauka að upphæð 450 þús. kr. í stað bifreiðahlunninda. Þrjú af fjórum bankaráðum ríkisbankanna ákváðu einnig vísitölubindingu launaaukans sem þó er andstæð lögum. Í umr. utan dagskrár kom eftirfarandi fram í máli viðskrh.:

1. „Varðandi skoðun mína á vísitölubindingu umræddra launagreiðslna, þá er hún sú að vísitölubinding sé andstæð lögum.“

2. „Áætlaðar skattgreiðslur munu innifaldar í fjárhæðinni. Þá greiða bankarnir rekstrarkostnað vegna bilreiða bankastjóra.“

Ekki hefur því verið á móti mælt að vísitölubinding launaaukans sé brot á lögum. Þegar upplýst er síðan að í launaaukanum, til viðbótar föstum launum sem ríkið greiðir opinberum embættismönnum, eru reiknaðar áætlaðar skattgreiðslur embættismanna er auðvitað ljóst að sú ákvörðun hefur enga stoð í lögum og er lögleysa.

Margir hafa orðið til að fordæma harðlega og lýsa vanþóknun sinni á þessari ákvörðun, enda er hún algjört siðleysi og ofbýður réttarvitund fólks í landinu sem orðið hefur að sæta stórfelldri kjaraskerðingu og afnámi vísitölubóta á laun í nærfelli tvö ár. Um það þarf vart að fjölyrða að hér er um kalda kveðju og grófa ögrun að ræða við launafólk og lágtekjuhópa í þjóðfélaginu, enda renna bílastyrkir í vasa hæst launuðu embættismanna ríkisins og samsvara nærfellt þreföldum lágmarkslaunum í landinu og fjórföldum framfærslueyri fjölda elli- og örorkulífeyrisþega. Allir þingflokkar og stærstu hagsmunasamtök launafólks í landinu hafa ályktað um þetta mál og lýst vanþóknun sinni á þessari ákvörðun.

Þó að ákvörðun um þessar hlunnindagreiðslur hafi verið tekin af bankaráðum er ábyrgðin ekki síður hjá ríkisstj. sem hefur haft að engu vilja Alþingis frá 22. maí 1984 um afnám bílakaupafríðinda embættismanna.

Þetta mál snýr líka að Alþingi Íslendinga. Bankaráðin eru kosin af Alþingi og fara með vald sitt í umboði þess. Þessir bankaráðsmenn, sem að þessari löglausu ákvörðun stóðu, hafa brugðist skyldu sinni, brugðist trúnaði við Alþingi Íslendinga sem veitir þeim umboð til þessa ábyrgðarstarfs. Þess vegna er það skylda Alþingis að bregðast við með viðeigandi hætti.

Vissulega er það svo að ekki bera allir núverandi bankaráðsmenn ábyrgð á þeirri ákvörðun sem nú hefur verið tekin. En með þeirri leið sem hefur verið lögð til, að fella niður umboð núverandi bankaráða. gefst Alþingi Íslendinga tækifæri til að leysa þá frá störfum og svipta þá umboði sem staðið hafa að lögleysu og brugðist hafa trausti Alþingis. Jafnframt opnast leið til að veita nýtt umboð þeim sem Alþingi svo kýs. Hér er um hreina og afdráttarlausa aðgerð að ræða þar sem eitt er látið yfir alla ganga. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því að Alþingi geti endurkosið þá sem ekki hafa brugðist trausti þess.

Kjarni þessa máls er sá að Alþingi getur ekki látið það óátalið eða setið hlutlaust hjá þegar þeir sem starfa í umboði Alþingis bregðast trúnaði þess og brjóta gegn öllu velsæmi og réttlætisvitund fólks í landinu með ákvörðun sem bæði er siðlaus og andstæð lögum sem Alþingi Íslendinga krefur aðra um að fara eftir.“

Herra forseti. Við Alþfl.-menn leggjum ríka áherslu á það að mál þetta fái skjóta afgreiðslu í nefnd þannig að hv. þm. geti tekið afstöðu til þessa frv. nú fyrir þinglok. En þetta mál hefur nú verið í þrjár vikur á dagskrá funda þessarar hv. deildar án þess að það hafi verið tekið til umræðu.

Fallist Alþingi á þá leið sem hér er lögð til þarf að kjósa ný bankaráð fyrir þinglok og skammur tími er nú til stefnu. Þess vegna leggjum við áherslu á að þetta mál fái skjóta umfjöllun í nefnd. Ég sé heldur ekki að mál þetta þurfi langan tíma í nefnd, svo ljóst sem það liggur fyrir.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.