15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5347 í B-deild Alþingistíðinda. (4615)

430. mál, bankaráð ríkisbankanna

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Ég vil bara vekja athygli þeirra fáu hv. alþm. sem hér eru á þeim málflutningi sem hv. 5. þm. Reykv. hafði hér í frammi. Það bendir flest til þess að þannig sé komið fyrir honum að hann geri sér ekki grein fyrir hvað er rangt og hvað er rétt.

Ég vil spyrja að því, vegna fullyrðingar hans um það að komið hefði einhver krafa frá einhverjum endurskoðanda og hann hefði neitað að skrifa undir reikninga, í hvaða banka það hefði verið. Ég hef ekki heyrt þetta fyrr. Ef menn eru í einhverjum vafa um það var það a. m. k. ekki í Búnaðarbankanum.

Menn eru að tala um það að bankaráðin hafi óvirt vilja Alþingis. Er þannig komið fyrir hv. 5. þm. Reykv. að hann sé hættur að skilja mælt mál líka? Voru það ekki fyrirmæli frá ríkisstj. sem er búið að þríendurtaka, ríkisstj. sem sat að völdum 1970, hvernig ætti að fara með bifreiðamál bankastjóra ríkisbankanna? Skilur hann það ekki enn? Það væri gaman að spyrja að því, hv. alþm., þar sem upplýst hefur verið í blaði Alþfl. að það líði nú senn að 100. fundinum sem formaður Alþfl. ætlar að halda hér á næstunni, hvernig hann muni hafa í leiðinni sinnt sinni þingskyldu hér á Alþingi. Ætli hann hafi ekki hirt laun sín eins og þeir sem hafa nokkurn veginn sinnt sinni þingskyldu? Það væri gaman að fá það upplýst af því að heiðarleikinn er orðinn eins og hann heldur sjálfur. Ég sé nú ekki þennan geislabaug hjá Alþfl. Það getur vel verið að ég sé farinn að tapa sjón en ég get þó lesið gleraugnalaust enn þá. En ég sé ekki þennan geislabaug.

Ég vil taka það fram í sambandi við bankaráð Búnaðarbankans að við ræðum öll mál og það sem rætt var um var það sem sagt var að hinir bankarnir hefðu gert. En það er auðheyrt að formaður Alþfl., hv. 5. þm. Reykv., þykist hafa fengið glöggar upplýsingar um það sem gerðist á fundum bankaráðs Búnaðarbankans. Af því að hann þykist hafa þessar heimildir var honum skylt, vegna þess að hann er alltaf að tala um að menn eigi að sýna heiðarleika, að segja frá hvernig tillagan var og um hvað var rætt á þessum fundi sem hann vitnar til. Það var nefnilega fleira í þessari tillögu sem samþykki var. Það var fyrst og fremst lögð áhersla á að horfið yrði aftur til þess sem var fyrir 1. júlí 1970, þ. e. að bankastjórarnir fengju bifreiðar til umráða eins og þá var.

Hv. 5. þm. Reykv. er sýnilega ekki þingvanur. Hann er að rugla um það að þáltill. séu einhver lög frá Alþingi. Það er aðeins viljayfirlýsing en alls ekki nein lagafyrirmæli og hefur aldrei verið. En það er náttúrlega ekki meira að hann rugli um þetta en annað. Ef einhver hefur brotið af sér í þessu á annað borð eða hefði átt að framfylgja henni, þá eru það ekki bankaráðin. Það er þá ríkisstj. sem átti að gera það ef einhver átti að gera það. En þetta er kannske dæmi um það að hér eru samþykktar tillögur oft og tíðum án þess að athuga málið nauið.

Ég hef reynt að kynna mér dálítið hvernig þessi mál eru hjá hinu opinbera og hjá einkaaðilum og ég er ákaflega hræddur um að ef sú saga væri öll sögð væri þetta hégómi hjá ýmsu öðru. M. a. s. stofnanir, sem eru á vegum hins opinbera, hafa bíla til umráða og geta skipt að mér er tjáð annað hvert ár, ekki bara forstöðumaður slíkra stofnana heldur næsti maður við hann.

En það sem er alvarlegast í þessu máli og mun ekki hafa gerst síðan galdrabrennurnar voru tíðkaðar hér á Íslandi er að þess sé krafist að þeim sem eru í þessu starfi verði hegnt fyrir það sem fyrirrennarar þeirra gerðu. En mér heyrðist á máli hv. 5. þm. Reykv. áðan að það væri sjálfsagt mál. Það er von að það sé gorgeir í þeim hv. þm. sem standa þannig að málum. Ég vil endurtaka það sem hv. 1. þm. Vesturl. Friðjón Þórðarson sagði, að fulltrúi Alþfl. í bankaráði Búnaðarbankans er hinn mætasti maður. Í þessu máli sem í flestum öðrum stóð bankaráðið allt að afgreiðslu málsins. Ég verð að segja að hafi Haukur Helgason fengið bréf frá formanni Alþfl. um að segja af sér, eins og mér skildist á máli hans áðan, þá er það meiri háttar ósvífni af hv. 5. þm. Reykv., því að hann hefur ekkert gert af sér, hann hefur engin lög brotið. Og allar vífilengjur, ásakanir og dylgjur, sem þessi hv. þm. hefur hér uppi eins og á fundum úti um land, eru engum til minnkunar nema hv. þm. Alþfl. sjálfum.

Ég ætla að láta þetta duga í bili. En ef þetta á að verða það siðferði sem á að koma upp, ef hv. 5. þm. Reykv. kemst til meiri áhrifa, þá er illa komið fyrir þessari þjóð.