15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5349 í B-deild Alþingistíðinda. (4616)

430. mál, bankaráð ríkisbankanna

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það kemur svo sannarlega ekki til af góðu að maður kemur með Alþýðublaðið í pontu Alþingis. Hingað til hefur maður sýnt hinu háa Alþingi nægilega virðingu með því að sleppa því blaði úr ræðustól. En nauðsyn brýtur lög. Það er vegna þess að einhvern tíma í máli mínu neyðist ég til að vitna í Alþýðublaðið því að þar eru ýmsar upplýsingar prentaðar opinberlega sem ég hefði ekki sjálfur viljað hafa eftir beint af bankaráðsfundi, en þar sem það hefur komið út í opinberu blaði, ef blað skyldi kalla, neyðist ég til þess að nota það.

Það eru dálítið einkennilegar áherslur hjá hv. þm. Alþfl. í þessu máli, sérstaklega með tilliti til þess að það var með fulltingi Alþfl. sem þessum hlunnindum bankastjóra var komið á á sínum tíma og síðan eru 15 ár. Ég sem bankaráðsmaður í Útvegsbankanum greiddi atkv. á móti launaaukanum svokallaða. (SV: Má ekki reka þig fyrir það?) Mér er nú rétt sama um það. En hvernig stendur á því að það er aðeins nú á þessum dögum sem Alþfl. kippist við og telur þessi hlunnindi svo slæm og óréttlát að fólki ofbýður, svo að ég vitni orðrétt í mál hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, fólki er misboðið á ýmsa lund sem hann málaði svo litríkt eins og hann er vanur? Hvernig stendur á því að þetta fólk hefur ekki látið heyra í sér fyrr? Hann notaði bara tækifærið þegar þessum hlunnindum var breytt til að reyna að baða sig í sviðsljósinu og jafnframt að gera tilraun til þess að þvo sér upp úr því. En það hefur ekki dugað. Þetta er ómerkilegur tvískinnungur og ómerkilegur málflutningur. Raunar er ég ekki viss um að ég hafi orðið var við merkilegan málflutning hjá hv. formanni Alþfl. hingað til. Ég vona hins vegar að ég eigi það eftir, en býst ekki við því.

Það var bankaráð Landsbankans, að mér er sagt, sem varð fyrst til að breyta þessum margumræddu hlunnindum — og hver skyldi hafa setið þar á bekk nema vel á sig kominn krati sem greiddi þessu umsvifalaust atkv. brosandi og það var í desember? Hvað gerði fulltrúi Alþfl. í Búnaðarbanka? Hann samþykkti þetta þó að hann hafi gert aths. við einhvers konar verðtryggingu. Eftir sem áður gerði hann þetta. Ég skil vel sjónarmið bankaráðsmanna sem gerðu þetta í hinum bönkunum. Ég var hins vegar á annarri skoðun eins og mér er væntanlega leyfilegt.

Í Útvegsbankanum stóð ekki á því að fulltrúi Alþfl. tæki þessu fagnandi þó að hann hafi svo skipt um skoðun þremur vikum síðar vegna þess að þetta var svo óvinsælt. Það er stórmannlegt líka eða hvað?

Herra forseti. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson notaði nú sem fyrr orðið ránskjaravísitölu sem er í tísku nú. (SV: Hver fann hana upp?) Ja, það er það. Hver skyldi hafa fundið hana upp og verðtrygginguna sem er góð í annan endann en vond í hinn vegna þess að atkv. sem hann væntir frá þessu fólki þarf að borga með peningum. Það er allt á eina lund. Það á að leysa vandamál þjóðfélagsins á hverju sviði sem er með peningum; í húsnæðismálum, fella niður tekjuskatt o. s. frv. En það kostar milljarða á milljarða ofan og hver er aðferðin? Lækka skatta og auka útgjöld. Og maðurinn er hagfræðingur! Þessi maður er búinn að finna það út hver á Ísland. Ég er viss um að niðurstaðan er röng þó að ég hafi aldrei heyrt hana. Ég get alls ekki tekið mark á svona löguðum málflutningi, hvorki í einu máli né öðru, enda greiði ég kerfisbundið atkv. á móti öllum till. Alþfl., jafnvel þó að ég hafi ekki lesið þær, vegna þess að ég veit að þær eru vitlausar.

En málflutningur þessara manna er ómerkilegur og ég ætta ekki að slá því fram án þess að rökstyðja það, jafnvel þó að Alþfl. eigi það ekki skilið að fá rökstuðning því að hann beitir honum aldrei sjálfur.

Í Alþýðublaðinu laugardaginn 13. apríl s. l. birtist grein um þetta svokallaða launaaukamál og var það bundið við það sem skeð hefði í Útvegsbankanum. Og þar kennir nú ýmissa grasa. Einkenni greinarinnar, eins og kemur í ljós ef ég fæ leyfi hæstv. forseta til þess að lesa greinina, eru að þar er öllu snúið á haus eins og fyrri daginn. Fyrirsögnin á þessari grein var þrjú orð: „Felldu afnám kaupaukans!“ Það vísar til tillögu sem hv. bankaráðsmaður í Útvegsbanka af kratakyni flutti þremur vikum eftir að hann hafði samþykkt launaaukann um að hann skyldi nú dreginn til baka. Og út af þessu leggur blaðið. Ég vil leyfa mér að lesa þessa stuttu grein, með leyfi hæstv. forseta. Undirfyrirsögn er svohljóðandi:

„Fulltrúar Sjálfstfl., Framsfl. og Alþb. í bankaráði Útvegsbankans felldu tillögu fulltrúa Alþfl. og vildu bara „fresta“.

„Á fundi bankaráðs Útvegsbanka Íslands s. l. miðvikudag bar Arnbjörn Kristinsson, fulltrúi Alþfl. í ráðinu, fram tillögu um að fella niður bílakaupafríðindi bankastjóra bankans. Tillagan var felld af öðrum ráðsmönnum.

Tillagan var svohljóðandi: „Hinn 1. mars s. l. samþykkti bankaráð Útvegsbanka Íslands nýja skipan á greiðslum vegna bílastyrks bankastjóra Útvegsbankans. Bankaráð telur samþykktina byggða á ófullnægjandi upplýsingum og því ótímabæra. Þess vegna samþykkir bankaráð Útvegsbanka Íslands að nema úr gildi áðurnefnda samþykkt.““

Herra forseti. Greinin heldur svo áfram, með leyfi: „Tillaga Arnbjörns olli ólgu innan bankaráðsins og vildu aðrir ráðsmenn ekki standa að því að afnema fríðindin. Tillagan var felld með fjórum atkv. þeirra Valdimars Indriðasonar frá Sjálfstfl., Garðars Sigurðssonar frá Alþb., Jóhanns Einvarðssonar frá Framsfl. og Kristins Karlssonar frá Sjálfstfl. Þessum mönnum fannst sem sé ekki rétta leiðin að hreinlega afnema fríðindin og taka þannig skrefið til fulls. Þeir samþykktu hins vegar í kjölfarið að fresta málinu.

Þrátt fyrir stóryrtar yfirlýsingar Alþb., Framsfl. og Sjálfstfl. um bankastjórabónusinn og heitstrengingar um afnám hans, þá eru fulltrúar þessara flokka í bankaráði Útvegsbankans augljóslega ekki þeirrar skoðunar. Þeir vilja halda í ósómann og sukkið.“

Herra forseti. Svo mörg voru þau orð. „Þeir vilja halda í ósómann og sukkið.“ Alþfl.-maðurinn vill hins vegar engan launaauka þó að hann hafi verið búinn að samþykkja hann.

En sá sem greiddi atkvæði á móti launaaukanum, hann vill halda í ósómann og sukkið. Gaman þætti mér að vita hvað þetta heitir í rökfræðinni. Ég kann hana nefnilega ekki og hef ekki lesið hana, enda ekki með háskólapróf frá Skotlandi. Það litla sem ég hef lært í rökfræði það er í „diskúsjón“ um borð í skipum. Hún er auðvitað ekki eins merkileg og hjá hinum háskólalærðu, en vond er hún samt. (JBH: Er þm. viss um að blaðamaðurinn sé háskólalærður eða hafi aldrei verið til sjós?) Ég er alveg viss um það, hv. þm., að svo vitlaus er þessi grein og vond að það vantar ekkert annað undir þessa grein en nafnið Jón Baldvin Hannibalsson. Ég er hins vegar ekkert að halda því fram að hann sé höfundurinn, en það er smitandi að umgangast svona menn alla daga. Það dregur dilk á eftir sér.

Ég vil aðeins fara um þetta örfáum orðum. Í till. segir að bankaráðið telji samþykktina byggða á ófullnægjandi upplýsingum og því ótímabæra. Þremur vikum síðar er tímabær tillaga ótímabær. Hvað skeði í millitíðinni? Ég er búinn að segja það, en ég veit að hv. 5. þm. Reykv. hefur ekki skilið það. En hverjar voru þessar fullnægjandi upplýsingar sem hv. bankaráðsmann vantaði? Engar. Það lágu allar upplýsingar þrautræddar fyrir og á prenti. Bankaráð Útvegsbankans hafði fengið samþykktir Seðlabankans í hendur, allar upplýsingar lágu fyrir. Það er auðvitað ómögulegt að samþykkja tillögu sem byggir á röngum forsendum. Ég þurfti auðvitað ekkert að greiða þessari till. atkv. með eða á móti hvort sem var vegna þess að mín afstaða hafði legið fyrir allan tímann og ég hafði lagt fram bókun í bankaráði Útvegsbankans. Og auðvitað var atkvæðagreiðslan í okkar bankaráði bókuð, 4:1, og liggur skjalfest fyrir og lá. Mér er alls ekki kunnugt um að það hafi orðið nein ólga í þessum banka. Það eina sem skeði var að það ókyrrðist einn maður sem hafði skipt um skoðun skyndilega. Þar er hann á eftir hv. 5. þm. Reykv. því að hann skiptir um skoðun án þess að blikna á miklu styttri tíma en þremur vikum.

Menn sjá þá hvernig farið er með staðreyndir í þessari grein. En það segir einnig í þessari grein að við hefðum aðeins viljað fresta málinu. Þetta er afar frjálsleg túlkun. Hvernig skyldi hafa staðið á því að bankaráðið samþykkti að fresta málinu? Ég var auðvitað á móti því frá upphafi, á fyrsta, öðrum og þriðja fundi. Það er ekki kjarni málsins. Okkur hafði nefnilega borist bréf frá viðskrh. þar sem hann fór fram á tvennt: í fyrsta lagi að bankaráðið gerði grein fyrir svokölluðum launaauka bankastjóranna — þetta hafa sennilega allir bankaráðsmenn fengið — og í öðru lagi að framkvæmd launaaukans yrði frestað. Gátum við sagt nei við því? Ég hefði ekki sagt nei við því jafnvel þó að hv. 5. þm. Reykv. væri bankamálaráðherra. Maður getur ekki neitað ósk ráðh. um þetta efni. Það er ómögulegt. (JBH: Gildir frestunin enn?)

Það var svo sjálfsagður hlutur að gera grein fyrir þessu og vafðist ekki fyrir neinum og olli ekki óróa. En það er sama hvar gripið er ofan í þessa grein og málflutning hv. þm., ekki aðeins í þessu máli heldur flestum öðrum. Hann líkist mest litskrúðugri blöðru, blásinni upp af barni þar til það missir tökin og hún byrjar að flauta og puðra og þjóta út í loftið, jafnvel hátt um stundarsakir, en fellur svo niður innihaldslaus.