15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5354 í B-deild Alþingistíðinda. (4619)

430. mál, bankaráð ríkisbankanna

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég bjóst raunar við að hv. 2. landsk. þm. hefði aðra siðferðistilfinningu en hv. 5. þm. Reykv., en það virðist ekki vera, miðað við hennar ræðu áðan a. m. k.

Það bréf sem hv. 2. landsk. þm. var að vitna í, sem viðskrh. sagði frá, var svar við bréfi frá ráðh., en það hefur aldrei verið skrifað enn þann dag í dag bréf til ráðh. um staðfestingu vegna þess að hann óskaði eftir því að það yrði ekki gert öðruvísi en að við fengjum tækifæri til að ræða þessi mál.

Hv. 2. landsk. þm. sagði að sér léki forvitni á að vita hvort það hefði verið tilskilið í samþykktinni hvort við ættum að skrifa viðskrh. Við förum eftir lögum. Það þarf ekki að taka það fram sem sjálfsagt er. En það sem við lögðum áherslu á var fyrst og fremst það að við vildum taka upp allt annað en var í hinum bönkunum. Það var verið að ræða um 2. lið tillögunnar, þ. e. að bankaráð Búnaðarbankans léti sína bankastjóra fá bíla til umráða sem bankinn átti, eins og var og hefur verið í s. l. 50 ár.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir virtist vera hneyksluð yfir þessu máli og sagði að ég hefði verið að reyna að verja bílafríðindin. Það gerði ég ekki. Það er rangt. Ég sagði að það mætti deila um þau. En ætlast hv. þm. til þess að við í Búnaðarbankanum bjóðum okkar bankastjórum önnur kjör og lakari en er búið að ákveða í öllum hinum bönkunum? Hvar er hennar réttlætistilfinning? (Gripið fram í.) Það getur vel verið.

Ég ætla ekki, þar sem ég er búinn að tala tvisvar, að fara að halda langa ræðu. Ég ætla ekki að níðast þannig á hæstv. forseta. En ég vil segja að endingu: ef einhverjir eru sekir í þessu máli, ef hv. þm. Alþfl. eru að reyna að koma höggi á einhverja, þá lendir það á þeirra eigin flokksmönnum því að bankamálaráðh. þegar þessi ákvörðun var tekin var fyrrv. formaður Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason. Og formaður bankaráðs Landsbankans, sem hefur alltaf haft forustu fyrir öllum launabreytingum, hver var hann? Hver skyldi nú hann hafa verið? Hann heitir Baldvin Jónsson. Ef er verið að reyna að koma höggi á einhverja, þá eru það fyrst og fremst þessir menn.

Ég endurtek það aftur að síðustu að það er siðlaust með öllu að ætla að hegna mönnum fyrir það sem aðrir hafa gert sem gegndu störfunum áður en þeir menn sem nú eru tóku við bankaráðsstörfum. Þar á ég við Seðlabankann og Landsbankann.

Ég ætla ekki að níðast á forseta meira.