15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5362 í B-deild Alþingistíðinda. (4621)

430. mál, bankaráð ríkisbankanna

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því að hvorki formaður Alþfl. né varaformaður Alþfl. svo mikið sem reyndu að færa fram rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni að þessi setning í grg. væri rétt. með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og fram hefur komið samþykktu bankaráð ríkisbankanna nýlega að greiða bankastjórum árlegan launaauka að upphæð 450 þús. kr. í stað bifreiðahlunninda.“

Það er einfaldlega vegna þess að þessi fullyrðing er ekki rétt. Samþykki bankaráðs Búnaðarbankans er ekki í samræmi við þessa fullyrðingu. Báðir þessir formenn Alþfl. hafa tekið til máls við þessar umr., báðir þessir formenn Alþfl. hafa vitnað í umr. sem hafa farið fram í bankaráði Búnaðarbankans og þóst vita hvað þar færi fram svo að augljóst er að þeir hafa fengið skýrslu um það sem þar á að hafa gerst. Það er út af fyrir sig fróðleg upplýsing fyrir aðra bankaráðsmenn í þeim banka.

Ég vil líka segja að það er rangt að sú bókun sem þessir formenn Alþfl. vitnuðu til hafi verið gerð áður en samþykkt Búnaðarbankans varðandi þessi bifreiðahlunnindi var gerð. Það er rangt. Þvert á móti var þessi bókun gerð eftir að allir bankaráðsmenn höfðu komist að sameiginlegri niðurstöðu eftir ítarlegar umræður. Ég man eftir því að ég vakti athygli á því að það væri óvenjulegt að gera bókun um samþykkt sem aldrei hafði orðið. En það er komið í ljós núna að formenn

Alþfl. sjá sér hag í því að vitna til þessarar bókunar eigi að síður og eru með dylgjur um að þessi bókun hafi verið gerð á öðrum tíma en hún var gerð. Þetta er mjög undarlegur málflutningur, ekki traustvekjandi og er síður en svo fallinn til þess að auka trúnað manna á meðal,þeirra sem fjallað hafa um þetta mál í Búnaðarbanka Íslands.

Ég vil líka segja að það er rangt, eins og fram kemur af bókun Búnaðarbanka Íslands, að þar hafi verið samþykkt breytingartillaga við framkomna tillögu eða eitthvað í þá átt sem lögð var fram af fulltrúa Alþfl. í bankaráði Búnaðarbankans. Það er ekki rétt. Þvert á móti liggur fyrir að fulltrúi Alþfl. í þeim banka stóð að samþykktinni eins og aðrir bankaráðsmenn — og af hverju? Hver var skýringin á því að bankaráð Búnaðarbankans taldi sig knúið til þess að gera samþykki um þessi mál?

Í gömlum lögum um Búnaðarbanka Íslands er kveðið á um það að kjör bankastjóra Búnaðarbankans skuli ekki vera betri en kjör bankastjóra Landsbankans. Frá þeim tíma hefur verið haldið þeirri hefð að bæta kjör bankastjóra Búnaðarbankans ekki umfram það sem tíðkast hefur í öðrum ríkisbönkum. Það liggur líka fyrir að allir bankaráðsmenn Búnaðarbankans voru sammála um að láta reyna á hvort það væri vilji viðskrh. að bankastjórar Búnaðarbankans sætu við annað borð en bankastjórar annarra ríkisbanka. Það var samdóma álit allra manna í bankaráði Búnaðarbankans að eðlilegt væri að fylgja þar eftir þeim kjörum sem annars staðar hefur orðið og það hefði líka orðið svo ef kjör bankastjóra í öðrum bönkum hefðu versnað, það er alveg ljóst. Það er þess vegna í fyrsta lagi afskaplega ómaklegt gagnvart bæði bankastjórum Búnaðarbankans og bankaráðsmönnum öllum, líka fulltrúa Alþfl., að halda því fram að ekki hafi verið svipaðar skoðanir á þessu máli í því bankaráði. Og ég vek athygli á því að eins og orð formanns Alþfl. féllu áðan um það sem átti að hafa gerst í bankaráði Búnaðarbankans verða þau undir engum kringumstæðum skilin öðruvísi en svo að þeir hafi fallist á þá bókun, sem bankaráðsmaður Alþfl. gerði, efnislega. Þeir fóru þeim orðum um þá bókun að ekki var hægt að skilja öðruvísi en svo að þeir væru sammála því sem í henni stæði. Þeir gerðu þessa bókun að sínum orðum og í því felst að sjálfsögðu viðurkenning þeirra á því að á það ætti að reyna að bankastjórar Búnaðarbankans sætu við sömu kjör og aðrir ríkisbankastjórar.

Ég vil líka segja nokkur orð út af öðrum ummælum formanns Alþfl. þegar hann talar um það almennt að tiltekinn hópur manna hafi gerst brotlegur við skattalög. Nú vitum við öll sem á þingi sitjum að þessi formaður Alþfl. hefur ekki minnstu hugmynd um það hvernig skattaframtöl bankastjóra eru í fyrsta lagi. Hann hefur engar forsendur til að dæma hvernig bankastjórar ríkisbanka hafa á s. l. 15 árum talið fram sínar tekjur til skatts. Það er algerlega ljóst. ( Gripið fram í: Og við vitum það ekki heldur.) Við vitum það ekki. Það veit ekki einn einasti maður sem á sæti á Alþingi í dag. Allar dylgjur formanns Alþfl. um að þessir menn hafi ástundað skattsvik eru þess vegna algerlega dauð, lágkúrulegur málflutningur, og það vekur þeim mun meiri furðu sem þessi hv. þm. hefur mjög nýlega í þessum sama ræðustól haft uppi stór orð um það að aðrir menn hafi vaðið uppi með dylgjur. Af hverju var hann svo sár nema vegna þess að þær dylgjur voru uppi hafðar um hann sjálfan? Þetta held ég að sé mikil staðreynd í þessu máli.

Ég get út af fyrir sig á það fallist að það er auðvitað umdeilanlegt hvernig launakjörum bankastjóra skuli háttað. Ég held þó að það hafi löngum verið viðurkennd skoðun að rétt sé að vissar stéttir manna séu vel launaðar borið saman við aðra þegna þjóðfélagsins, rausnarlega launaðar. Þar vil ég fyrst nefna hæstaréttardómara af þeirri einföldu ástæðu að menn vilja ekki að þeir þurfi að búa við fjárhagslega örðugleika til þess að þeir geti verið sem sjálfstæðastir í sínu einkalífi gagnvart þeim dómum sem þeir þurfa að kveða upp. Við vitum líka að það ríður á miklu að þeir menn sem eru bankastjórar stærstu viðskiptabanka landsins séu fjárhagslega sjálfstæðir. Það liggur alveg ljóst fyrir að hver einasti alþm. hlýtur að taka undir þá skoðun. Við vitum líka að þessir menn hafa ekki heimild til að sitja í stjórn fyrirtækja eða til þess að reka önnur störf með sínu bankastjórastarfi. Við vitum enn fremur að þessir menn fá ekki sérstakar greiðslur fyrir yfirvinnu eða annað þvíumlíkt. Þau laun sem þeim eru ákveðin eru þess vegna endanleg. Í ljósi þess er afskaplega einfalt að halda því fram að þeir dragi til sín of miklar tekjur. Þeir menn sem slíku halda fram eru ekki að velta því fyrir sér hvert vinnuálagið sé og þeir taka ekki samanburð af ýmsum öðrum stéttum, af ýmsum öðrum þeim mönnum sem fá sérstaka þóknun fyrir eftirvinnu, næturvinnu eða annað þvílíkt.

Þegar Kjaradómur ákveður laun hæstaréttardómara tekur hann að sjálfsögðu tillit til þeirra almennu launakjara sem þessi stétt manna hefur. Hið sama gildir að sjálfsögðu þegar mánaðarlaun bankastjóra eru ákveðin. Þau eru lægri en ella vegna þeirra hlunninda sem bankastjórar hafa haft, m. a. vegna þessara bifreiðahlunninda. Með þessum orðum mínum er ég ekki að halda því fram að ég vilji hafa þennan hátt á, síður en svo. En ég minni aftur á að það er svo í lögum um Búnaðarbanka Íslands að kjörum bankastjóra verður ekki breytt án atbeina viðskrh., án atbeina landbrh. áður, og ég get ekki séð að bankaráð Búnaðarbankans hafi aðhafst neitt það í þessu máli sem getur talist ámælisvert, hefur ekki haft frumkvæði að neinu því sem hægt er að segja að séu bætt kjör bankastjóra Búnaðarbankans umfram það sem tíðkast hjá öðrum bönkum.

Það kom líka fram í máli formanna Alþfl. að þeir voru á allt öðrum skóm í sínum seinni ræðum og voru miklu mýkri í tóninum gagnvart þessum banka en áður, en ég vek líka athygli á hinu, að þeir voru hvorugur maður til þess að taka aftur þau ummæli að vísitölutenging launaaukans hefði verið í þrem bönkum sem eftir því sem ég veit best er ekki rétt. (JBH: Rangt hjá þér.) (SV: Það er ekki rétt.) Það er ekki rétt. (JBH: Það er rétt.) Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþfl., vitnaði áðan í ræðu sinni í samþykkt Seðlabankans, en sagði um leið í ræðustólnum að hann hefði aldrei lesið hana. Það er nóg um það. En ég ítreka það sem ég sagði áðan: Bókun fulltrúa Alþfl. í bankaráði Búnaðarbankans var gerð eftir að samþykkt allra bankaráðsmanna lá fyrir. Það var enginn ágreiningur í bankaráði Búnaðarbankans um þetta mál og einhverjar skoðanir formanns Alþfl. á því hvernig umræður féllu í bankaráði Búnaðarbankans um þetta mál eru auðvitað léttvægar, óviðkomandi og að engu hafandi.

Ég fullyrði að fulltrúi Alþfl. í bankaráði Búnaðarbankans fór ekki að segja neitt það við formenn Alþfl. sem gerst hafi þar innan dyra sem ekki hefur við rök að styðjast. Ég fullyrði það. En það er billegt að koma hér upp og flytja langar ræður um atburði sem hvergi eru skráðir og gerðust þar sem þetta fólk var ekki viðstatt. Það er billegt. Það eru dylgjur af versta tagi.

En það voru fleiri en bankastjórar sem höfðu bifreiðahlunnindi skv. þeirri reglugerð sem margsinnis hefur verið vitnað til. Ég skal ekki fara nánar út í það að þessu sinni, en auðvitað má halda þeirri umræðu áfram.

Ég skal ekki í löngu máli blanda mér inn í þá miklu drauma sem formaður Alþfl. hefur um betra Ísland, annað Ísland og hvernig hann ætlar að koma við réttlátari skattalöggjöf hér á landi. Hann talar mikið um sínar miklu tillögur t. d. um eignarskatt. Og ég spyr þá á móti: Hann segir að eins og hann hugsar eignarskattinn muni hann bitna á mjög fáum mönnum, en hins vegar muni hann gefa í aðra hönd — var það 1 eða 2 milljarðar? (JBH: Einn á ári.) Einn milljarður á ári. Þá spyr ég formann Alþfl., úr því að hann býr yfir þessu patenti: Hvað dvelur þá orminn langa? Af hverju leggur þá ekki formaður Alþfl. fram frv. til l. um breytingu á eignarskatti í þessa veru? Af hverju kemur hann ekki með frv.? Það hefur aldrei verið svo á hinu háa Alþingi að skattalögum hafi verið breytt með almennri þáltill. Hins vegar vitum við að þáltill. hafa oft verið fluttar til þess að slá ryki í augu fólks. Ég skora á formann Alþfl., úr því að hann hefur fundið lausnina, lykilorðið í skattamálunum, að leggja fram frv. til þess að við hinir getum séð að þessar fullyrðingar hans hafi við rök að styðjast, til þess að við getum tekið mark á honum og til þess að hann eigi skilið allan þann mikla trúnað sem hans flokkur hefur sýnt honum. Hvar er frv.? Af hverju er það ekki flutt? Af hverju flytur ekki þessi hv. þm. frv. um allar þessar miklu breytingar á skattalögum? Hvar er frv. um það að leggja söluskattinn á matvörur? Af hverju er það ekki flutt? Af hverju er ekki flutt frv. um það að leggja söluskatt á þjónustu barnaheimila? Af hverju er ekki flutt frv. um að leggja söluskatt á útflutningsatvinnuvegina? Hvernig eru þessi mál hugsuð af formanni Alþfl.? Ætli það komi ekki í ljós þegar grannt er skoðað að ekkert er hugsað til botns, að um leið og hann horfir á frv. fyrir framan sig, sem hann hefur reynt að rissa upp, sjái hann að þetta er froða, þetta er reykur, þetta hefur ekki við rök að styðjast. Ég skal með mikilli ánægju aðstoða formann Alþfl. við að fá afnot af tölvu Háskólans til þess að hann geti náð 1 eða 2 milljörðum kr. af landslýðnum án þess að neinn finni fyrir því nema fáir. Það hlýtur að vera þess virði. Það hlýtur að borga sig úr því að þetta ríka fólk er til sem getur borgað þetta eins og ekkert, nokkrir einstaklingar, einn milljarð á ári. Það hlýtur að mega kosta einhverju til, einhverri fyrirhöfn. En ætli staðreyndin sé ekki sú að þarna er talað án þess að menn gái að sér og hugsi það sem viti gegnir. Ég hef einhvern veginn þá hugsun í bakþankanum.

Hv. þm. afbað sér mín ráð um það hvernig ætti að stjórna innri málum Alþfl. Ekki ætla ég að reyna að leggja honum til ráðin. Það sem ég spurði um var þessi siðfræðilega spurning. Ef fulltrúi Alþfl. í bankaráði hefur unnið sér það til óhelgi með afstöðu sinni að dugi til þess að þingflokkur Alþfl. skorar á hann að segja sig úr bankaráðinu og hann hlífist við, hann hefur það að engu, hver er þá virðing Alþfl. fyrir sjálfum sér ef hann lætur við það eitt sitja? Það er þessi móralska spurning sem við erum að velta fyrir okkur. Okkur er alveg hjartanlega sama þó að þessi maður sé áfram í Alþfl., nákvæmlega sama þó að allir þessir bankaráðsmenn séu áfram í Alþfl., það skiptir okkur engu máli. Það er þessi móralska spurning sem leitar á menn af því að sá sem gerði kröfuna þykist vera samviska þjóðarinnar. Það er málið.

Ég vil að síðustu, herra forseti, vekja athygli á því að í þeirri ríkisstjórn, sem setti þá reglugerð sem hér hefur mest verið fjallað um, ríkti mikil samheldni. Og ég er ekki í minnsta vafa um að þeir tveir fyrrv. formenn Alþfl. sem sátu í þeirri ríkisstjórn. Gylfi Þ. Gíslason og Emil Jónsson, hafi verið fullkomlega sammála og sáttir við þá reglugerð sem fjmrh. gaf út á þeim tíma. Ég er líka sannfærður um það, herra forseti, að fjmrh. Alþfl. sem síðar sat. Sighvatur Björgvinsson, hafi verið fullkomlega sáttur við þessa sömu reglugerð og þeir aðrir þm. Alþfl. sem þá sátu í ríkisstjórn og er kannske auðvelt að fletta því upp. Síðast en ekki síst er ég þess fullviss að sá landbrh. Alþfl. sem á sínum tíma var yfirmaður Búnaðarbankans hafði ekkert við það að athuga að Búnaðarbankinn á þeim tíma fylgdi landsins lögum. Þetta allt vil ég og tel nauðsynlegt að fram komi. En ég hlýt að síðustu að víta þetta:

Í fyrsta lagi að hv. þm. skuli vitna til ummæla bankaráðsmanns sem ekki á kost á því að skýra sín sjónarmið hér á Alþingi og verður að láta duga ónákvæma og ranga frásögn af ræðu hans.

Í öðru lagi hlýt ég að víta það að þessi formaður Alþfl. skuli hafa uppi margs konar dylgjur um ætluð lagabrot manna. ætluð lagabrot af ýmsum toga án þess að vera maður til þess í eitt einasta skipti að færa rök fyrir sínu máli.

Í þriðja lagi hlýt ég að víta það að tveir formenn Alþfl. skuli með frumvarpsflutningi sínum hér láta fylgja grg. sem er efnislega röng og á ekki við rök að styðjast.

Og í fjórða lagi víti ég að formaðurinn skuli lýsa því yfir í ræðustól að lögbrot felist í samþykkt sem hann sjálfur segist aldrei hafa lesið.