20.05.1985
Efri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5371 í B-deild Alþingistíðinda. (4628)

99. mál, kirkjusóknir

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að lýsa stuðningi mínum við þá till. sem hér er fram komin. Þetta hefur verið gamansöm umr. Þó að fjallað sé um málefni kirkjunnar er ekkert ljótt við það að menn brosi. Þvert á móti. Menn eiga vel að geta haft sæmilegt skopskyn þó þeir séu kristnir, og fer vel á því raunar.

En þessi grein er mjög sérkennileg, vil ég segja. Það er kannske ekki það versta við hana að sóknarmenn sem eru 600 skuli eiga rétt á guðsþjónustu hvern helgan dag. Prestarnir mundu sjálfsagt leggja þetta á sig. Það sem mér finnst einna verst er að mönnum skuli vera mismunað svo, að þeir sem eru í litlum sóknum, með hundrað sóknarmönnum, skuli ekki fá almenna guðsþjónustu nema áttunda hvern helgan dag. Við erum að leggja á það áherslu t. d. að börn í dreifbýli eigi kost á sömu menntun og í fjölbýlinu og viljum jöfnuð í okkar þjóðfélagi sem mestan. Ég veit ekki til þess að það sé annað að þeir sem eru í litlum sóknum séu mikið kristnari en aðrir þannig að þeim nægi þjónusta áttunda hvern sunnudag, en við þurfum að fá svona guðsþjónustu á hverjum helgum degi.

En þetta er nú kannske ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að kirkjan er að afsala sér þeim rétti sem hún á að hafa. Þetta ákvæði, ef það þarf að vera til leiðbeiningar prestum, á auðvitað að vera í biskupsbréfi eða einhverjum tilmælum eða ákvörðun kirkjuþings sjálfs. Það er mjög illa farið að leitað skuli vera til Alþingis um alla setningu reglna fyrir kirkjuna, kirkjan verður þar með ósjálfstæðari, og svona fyrirmæli til presta eiga ekkert erindi inn á Alþingi Íslendinga. Raunar er þessi löggjöf í mörgum fleiri atriðum með þessu markinu brennd. Ég held að það sé óheillavænleg þróun að kirkjan marki sér ekki sínar starfsreglur sjálf, það sé ætíð leitað til pólitíska valdsins í því efni. Ég greiði atkvæði með þessari breytingu til að undirstrika þessa skoðun mína, en ekki sérstaklega vegna þess að greinin er grín og athugasemdin við hana líka, en kannske skemmtilegt grín, og ég legg til að það verði nafnakall um þessa till.