01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

100. mál, þingnefnd vegna rekstrarvanda í sjávarútvegi

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var ekki nokkur vafi á því í hugum okkar Alþb.-manna að nauðsynlegt væri og rétt að Alþingi tæki á sjávarútvegsmálunum, rekstrarvandanum í íslenskum sjávarútvegi. Það var þess vegna sem við fórum að flytja þessa þáltill. sem allur okkar þingflokkur stendur að. Ef eitthvað hefur nýtt komið fram til sannindamerkis um nauðsyn þessarar till. hér á hv. Alþingi í dag eru það orð hæstv. sjútvrh. Afstaða hans í þessum málum er með þeim hætti að það hlýtur að vekja mikla undrun.

Það er eins og kunnugt er mjög algengt að hv. Alþingi kjósi þingmannanefndir til að fjalla um einstök mál eða ráðh. skipi nefndir þm. til verka. Ég vil í þessu sambandi nefna það að í gær skilaði nefnd sem samgrh. skipaði, nefnd um öryggismál sjómanna, sínu áliti. Í þeirri nefnd voru eingöngu þm. Það hefur aftur og aftur gerst að settar eru á laggirnar nefndir til að fjalla um mál hér á vegum þm., en þegar hæstv. sjútvrh. kemur svo hér upp og heldur hér ræðu lýsir hann því yfir að þetta sé óþarfi. Hann kærir sig sem sagt ekki um að Alþingi taki á þessu alvarlega efnahags- og atvinnuvandamáli íslensku þjóðarinnar.

Ég held að það hafi aldrei gerst — a.m.k. ekki þann tíma sem ég hef verið hér — að menn hafi með þessum hætti afþakkað stuðning alþm. við að taka á vandamálum eins og þessu. Sérstaklega er þetta auðvitað furðuleg afstaða hjá sjútvrh. þegar þess er gætt að allt í kringum landið horfir fólk fram á að það getur misst vinnuna hundruðum saman, heilu byggðarlögin, nú þegar eða á næstunni. Þegar þannig er komið og þessi byggðarlög mæna á það sem hugsanlega kæmi frá Alþingi, sem ætti auðvitað að fjalla rækilega um þetta grundvallarmál íslenska þjóðarbúsins, þá ákveður hæstv. sjútvrh. að mæta þessu með því að berja frá sér og segja: Þessi till. er þarflaus og við höfum ekkert með hana að gera.

Það er köld kveðja til þeirra sem eru að missa atvinnu í landinu núna þegar sjútvrh. landsins kemur fram með þeim hætti sem hann gerði áðan. Það er köld kveðja til þess fólks. Það er köld kveðja til þeirra sem eru að missa atvinnu eða hafa misst atvinnu að landið skuli búa við sjútvrh. sem neitar að taka á þessum málum með eðlilegri samvinnu við Alþingi sjálft. Auðvitað er þessi afstaða sjútvrh. ekkert annað en dæmigerð um afstöðu núv. ríkisstj. í atvinnu- og efnahagsmálum. Þar er í rauninni ekkert gert annað en að hlaða undir verslunina og íþyngja grundvallaratvinnuvegunum. Þar er stefna ríkisstj. sögð í einni setningu, eins og hv. þm. Skúli Alexandersson rakti hér rækilega áðan. Verslunin ræður hér þessu landi. Verslunarráð Íslands samdi í raun og veru verkefnalista þessarar ríkisstj. og Verslunarráðið hefur mótað þær áherslur sem uppi hafa verið. Sjávarútvegurinn hefur ekki í tíð núv. ríkisstj. fengið þá aðhlynningu sem eðlilegt væri sem grundvöllur alls lífs sem lifað er í þessu landi. Það er alveg sama hvort unnið er í heilbrigðisþjónustu, í skólum, hér á Alþingi, á fjölmiðlum eða hvar það er, það er sjávarútvegurinn sem skapar þau verðmæti sem við lifum á hér. Ríkisstj. sem vill ekki að Alþingi aðstoði við að taka á þeim málum er á hálum ís. Sú ríkisstj. veit ekki hvað er brýnasta vandamálið fyrir okkar þjóð að glíma við í dag.

Nú á dögunum, fyrir einum og hálfum sólarhring eða svo, var gengið frá tillögu að kjarasamningi opinberra starfsmanna. Og Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands eru að fjalla um kjarasamning þessa dagana. Það var ekki fyrr búið að skrifa undir þessa kjarasamninga í Karphúsinu en fram komu hugmyndir um það frá einstökum ráðh. að þessum kjarasamningum yrði að mæta með gengisfellingu og þessir kjarasamningar mundu hafa það í för með sér að verðbólgan margfaldaðist frá því sem nú er. Það er m.ö.o. ætlun ríkisstj. að gera launafólk í landinu að blóraböggli fyrir þá verðbólgu sem hún ætlar sér vísvitandi að magna á næstunni. Það hefur komið fram bæði hjá forsrh. og fjmrh. að þeir ætla sér að svara samningum launafólks með því að magna verðbólguna á næstunni og fella gengið. Og það á að kenna verkalýðshreyfingunni um.

En staðreyndin er auðvitað sú að meginvandinn og meginástæðan fyrir þessu liggur í sjávarútveginum. Ríkisstj. hefur ekki fengist til að taka á vanda sjávarútvegsins. Hún hefur ekki fengist til að skera niður milliliðakostnaðinn í sjávarútveginum. Hún hefur ekki tekið á því. Hún hefur ekki lækkað vexti í sjávarútveginum, heldur hækkað. Hún hefur ekki lækkað fragtir, heldur hafa þær hækkað. Það hefur ekki lækkað umbúðakostnaður hjá frystingunni, heldur hækkað. Þannig mætti lengi telja. Og ríkisstj. ætlar að nota sér kjarasamningana til að koma fram gengislækkunaraðgerðum sem eiga fyrst og fremst rætur að rekja til þess vanda sem ríkisstj. hefur skilið eftir sig í sjávarútveginum. Hún ættar að kenna launafólki og verkalýðshreyfingunni um þann slóðaskap sem hún ber sjálf ábyrgð á í sjávarútveginum. Það er kjarni málsins.

Hæstv. sjútvrh. flutti hér þá tölu sem gjarnan er flutt af BJ og ég vissi nú ekki að væri orðin sérstakt stefnumál varaformanns Framsfl. Þetta stefnumál gengur út á það að ekki megi rugla saman á neinn hátt eða starfa saman framkvæmdavald og löggjafarvald, en það hefur sem kunnugt er verið eitt meginstefnumál BJ að aðskilja framkvæmdavald og löggjafarvald. Hæstv. sjútvrh. sagði með þjósti miklum hér áðan að það ætti nú ekki að vera að blanda saman löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi með því að þm. væru að grauta í framkvæmdaratriðum eins og þessi till. gerði ráð fyrir. Þetta er í rauninni mjög sérkennileg afstaða, eins og ég hef hér rakið. Og ég kannast ekki við það að þeir framsóknarmenn hafi áður brugðið fyrir sig stefnumálum BJ til þess að reyna að bjarga sér á hundasundi út úr þeim vanda sem þeir eru í í þessu máli og öðrum.

Herra forseti. Það er alvarlegur hlutur að horfa fram á það og heyra það að sjútvrh. landsins skuli ekki fást til að taka vel á móti þeirri tillögugerð sem hér er á dagskrá. Í till. Alþb. er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að skipuð verði nefnd sjö þm. til að skilgreina rekstrarvanda íslensks sjávarútvegs, safna saman upplýsingum og benda á leiðir til úrbóta. Nefndin á að fá ákveðin verkefni sem tiltekin eru í þessari þáltill. Í öðru lagi er það meginverkeini nefndarinnar að taka á þeim sérstaka vanda sem nú er um að ræða við útgerð togara í þessu landi. Og það er gert ráð fyrir því að nefndin skili áliti að því er þetta atriði varðar alveg á næstunni. Gögn liggja fyrir. Upplýsingar liggja fyrir. Það sem vantar er tillögur og ákvörðun um m.a. fjármögnun á þeim kostnaði sem af því kann að hljótast að létta einhverjum fjármagnskostnaði af togaraútgerðinni og af því kann að hljótast að leggja skipum sem óhagkvæm þykja í þeim byggðarlögum sem þola að missa skip. Hér er þess vegna gerð tillaga um að taka á því vandamáli sem stærst er núna í okkar efnahagskerfi, og þó að það væri ekki annað'en þessi þáttur sem snýr að togurunum væri það auðvitað fullkomlega réttlætanlegt að Alþingi tæki á þeim málum.

Hér er í hv. Ed. Alþingis til meðferðar till. til þál. um rannsóknarnefnd samkv. stjórnarskránni vegna vinnubragða ákveðinna ráðh. í sambandi við útvarpsmál. Það væri full ástæða til þess að setja á laggirnar rannsóknarnefnd til að fara yfir vandamál togaraútgerðarinnar og það hvernig að þeim málum hefur verið staðið nú að undanförnu. Ég skora í framhaldi af þessu á hæstv. sjútvrh. að taka vel þeirri aðstoð sem Alþb. vill fyrir sitt leyti leggja fram við að taka á þeim vanda sem hér er uppi. Ég held að það sé skynsamlegast fyrir ráðh. að gera það vegna þess að það vandamál er stórt sem hér um ræðir.

Ég hef, herra forseti, oft í umr. hér á Alþingi og einnig annars staðar bent á þann mikla vanda sem sjávarútvegurinn á við að glíma vegna óhóflegs milliliðakostnaðar. Hv. þm. Steingrímur Sigfússon rakti mjög glöggt dæmi um það áðan hvernig lán hafa hækkað í krónum vegna þess að þau voru tekin í dollurum langt umfram það sem verið hefði ef sömu lán hefðu verið tekin t.d. í sterlingspundum. Það munaði á fáeinum árum hjá því skipi sem hann nefndi 57 millj. kr. Ég held að þetta dæmi ætti að sýna okkur að við erum með hér í landinu mörg vel rekin skip, góðar útgerðir, sem hafa fengið á sig aukapinkla vegna hinnar sérstöku hækkunar dollarans á undanförnum árum. Og þegar það gellur við að hér sé um að ræða skussa og annað þvíumlíkt sem eru að reka þessi skip er það auðvitað hrein fjarstæða í langflestum tilvikum því að hér er um að ræða skuldahækkanir sem eru til orðnar af ytri ástæðum sem útgerðarmenn þessara skipa geta í engum tilvikum ráðið við.

Við höfum bent á það, Alþb.-menn, að það séu t.d. tveir þættir sem sérstaklega íþyngja frystingu, vinnslu og veiðum um þessar mundir. Það er annars vegar hinir háu vextir sem útgerðin og vinnslan verður nú að taka á sig. Það eru vextir sem eru langt umfram raunvaxtastig. Það er ekki verið að gefa þessum aðilum neina peninga. Það er ekki verið að borga með þeim af öðrum, eins og stundum var áður sagt í þessum efnum. Sjávarútvegurinn borgar fulla raunvexti og langt yfir það í sumum tilvikum. Ég tel að með því einu að setja þá reglu að venjulegt sjávarútvegsfyrirtæki borgi aldrei meira en sem samsvarar u.þ.b. verðlagsþróun, þ.e. nokkurn veginn raunvexti og ekkert þar umfram, mætti létta afkomu þessarar grundvallaratvinnugreinar mjög verulega frá því sem nú er, þannig að það muni nokkrum prósentum í afkomu t.d. fiskvinnslunnar. Ég er einnig sannfærður um að með því að fyrirskipa lækkun á frögtum útflutningsins megi styrkja stöðu hans mjög verulega frá því sem nú er.

Það er athyglisverð frétt hér í Þjóðviljanum í dag, sem vitnað hefur verið í áður, um að farmgjöld frá Íslandi séu þau hæstu í heimi. Í könnun sem Sjómannasamband Íslands lét gera kom fram að það kostar þrjár krónur íslenskar að flytja eitt kíló af rækju frá Kirkenes í Norður-Noregi á markað í Danmörku og Englandi og liðlega þrjár krónur íslenskar á kíló að flytja rækju frá Holsteinsborg á Grænlandi á sömu markaði. Það kostar hins vegar níu krónur á kíló af rækju að flytja hana frá Íslandi á þessa sömu markaði. Hér er eitthvað meira en lítið að. Og áður en sjútvrh. slær því föstu að hér sé ekkert hægt að gera annað en að láta þetta drabbast svona niður eins og gerst hefur að undanförnu og jafnvel að fyrirtæki fari á hausinn, þá væri það algjört lágmark að gert væri átak til að lækka þennan fragtkostnað. Það komu hér fram upplýsingar um það áðan að menn væru að tala um að ýta undir samkeppni í þessum efnum á milli skipafélaganna. Ég held að það sé ágætt að það verði gert. En ég held að þarna verði að ganga miklum mun lengra.

Í þessu sambandi er rétt að hafa það í huga, herra forseti, að heildarhagnaður skipafélaganna þriggja á s.l. ári nam 300 millj. kr. Og hver ætli hafi borgað þennan hagnað nema útflytjendur fyrst og fremst og neytendur í landinu. Auðvitað hefði ríkisstj. átt, þegar hún fór að líta á þessi dæmi í sumar, að byrja á því að skera þennan kostnað niður, lækka fragtirnar um 1/3 eða 1/4 og setja sér það mark að keyra vextina og fjármagnskostnaðinn niður. En það var nú eitthvað annað sem gert var eins og kunnugt er. Ríkisstj. tók ekki ákvörðun um það að lækka vextina, heldur að hækka þá. Það var nú afrekið sem þeir ákváðu í sumar þarna rétt fyrir verslunarmannahelgina.

Stærsta skref í peningamálum í 25 ár, hét þessi vaxtahækkun hjá helsta talsmanni ríkisstj., Þorsteini Pálssyni, og á eftir kemur þessi undirfyrirsögn í Morgunblaðinu 31. júlí s.l., það er rétt að skrá hana í þingtíðindin: „Bjargföst ákvörðun að hefja ekki gengisfellingarleikinn.“ — Bjargföst ákvörðun. Mönnum verður hugsað til þeirra útvarða Íslands sem heita Látrabjarg og annarra slíkra hornsteina þessa lands. (Gripið fram í: Hornbjarg.) — Og Hornbjarg. Bjargföst ákvörðun að hefja ekki gengislækkunarleikinn. Þetta mælti hv. 1. þm. Suðurl. í framhaldi af ákvörðuninni um að hækka vextina. Hann taldi sem sagt að hækkun vaxta og fjármagnskostnaðar hjá fiskvinnslunni í landinu væri sérstakt innlegg í að tryggja stöðugt gengi og undirstaða þess bjargs sem yfirlýsing hans var — bjargföst ákvörðun um að hefja ekki gengislækkunarleikinn. Staðreyndin er sú að með þessum vaxtahækkunum, sem ríkisstj. leyfði í sumar, var verið að íþyngja stórkostlega sjávarútveginum frá því sem áður var. Og ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. í framhaldi af spurningu hv. 3. þm. Reykn. hér fyrr í dag: Er það ætlun ríkisstj. að gera einhverjar ráðstafanir til að létta aftur vaxtaokrinu af sjávarútveginum? Hvað hefur ríkisstj. á prjónunum í þeim efnum?

Hæstv. sjútvrh, vill taka á afstöðu og till. okkar Alþb.-manna í sjávarútvegsmálum líkt og hann brást við útgerðarmönnum á Austurlandi í sumar þegar hann var spurður að því í sjónvarpinu: Hvernig er það, ráðh., dugir þetta til þess að leysa vandann? Hann sagði: Ja, ég veit ekkert um það, og þar með punktur. Hæstv. sjútvrh. núv. ríkisstj. virðist vera þeirrar skoðunar að það sé ekki hans mál að taka á vandamálum einstakra útgerðarsvæða og byggðarlaga í þessu efni þó að atvinnuleysi blasi við. Hann vill ekki koma nálægt málum, eins og hér er lagt til í þessari till. Alþb., og lýsir því yfir að till. sé í rauninni óþörf vegna þess að hlutirnir séu í svo góðu lagi hjá honum í sjútvrn. Ég er alveg sannfærður um að hann er eini maðurinn í landinu sem er þessarar skoðunar. Ég er alveg sannfærður um að hann er eini Íslendingurinn sem er þeirrar skoðunar að allt sé í besta lagi í sjávarútvegsmálum og ekkert þurfi að gera af hálfu Alþingis í þeim efnum. Ég hef enga trú á því að nokkur maður hér á Íslandi taki undir þetta — ekki sjómannasamtökin, ekki samtök útgerðarmanna, ekki samtök fiskvinnslunnar. Þessa dagana birtast fréttir í blöðunum um að það er verið að loka hverju frystihúsinu á fætur öðru. Á Akranesi og víðar eru frystihús að loka. Það er köld kveðja til þessa fólks sem ræða hæstv. sjútvrh. var hér í dag.

Í grg. með till. okkar Alþb.-manna er bent á þá hættu að útgerð í landinu verði framvegis ákveðin á forsendum fjármagnsins og hæstv. ráðh. gerði nokkrar aths. við þessi ummæli. Hvað er það sem við eigum við með þessum orðum? Við eigum við það að skip falli úr útgerð, útgerðin leggist niður á einstökum stöðum einvörðungu eftir því hversu hár fjármagnskostnaður er á viðkomandi skipum. Það verði sem sagt hagsmunir fjármagnsins, fjármagnseigendanna og kröfuhafanna, sem verði látnir ráða en ekki þess fólks sem lifir og hrærist af þeim verðmætum sem þessi skip draga að landi. Við teljum að eina leiðin í þessum efnum sé hins vegar félagsleg leið þar sem reynt verði að afla með samfélagslegum aðgerðum fjármuna til að skera niður fjármagnskostnað af þeim skipum sem eru með þyngstar fjármagnsbyrðar og bersýnilegt er að ekki verða gerð út með þeim fjármagnskostnaði sem á þeim hvílir nú. Þetta verður ekki gert öðruvísi en í gegnum einhverja opinbera sjóði, t.d. Fiskveiðasjóð eða einhvern aðila sem er nátengdur honum. Í þessu skyni á að afla fjármagns og þess fjármagns á auðvitað að afla með skattlagningu á þá aðila sem hafa verið að hirða stórfé af sjávarútveginum á síðustu misserum, m.a. af skipafélögunum og bönkunum svo að dæmi séu nefnd. Hér er um alveg sérstaki ástand að ræða og ríkisstj. á auðvitað að taka á málinu með þeim hætti, afla fjármuna til að tryggja að útgerð í landinu geti verið með eðlilegum hætti og til þess að tryggja að atvinna haldist á þeim stöðum sem viðkvæmastir eru og háðastir útgerð og fiskvinnslu. Ég skora þess vegna, herra forseti, á sjútvrh. að endurskoða hina neikvæðu afstöðu sína til þessarar till.

Hitt er svo ljóst, og það ætla ég að segja hér að lokum, að það er ætlun ríkisstj. þessa daga að nota kjarasamningana, nota verkalýðshreyfinguna, kenna henni um þá verðbólgu og þær gengishækkanir sem ríkisstj. ætlar sér að setja af stað. Það er alvarlegt mál þegar menn standa þannig að málum, ætla sér á kostnað launafólks að leysa þann vanda sem slóðaskapur ríkisstj. í sjávarútvegsmálum á síðustu mánuðum hefur skilið eftir sig í hinum ýmsu byggðarlögum í landinu.