20.05.1985
Efri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5376 í B-deild Alþingistíðinda. (4641)

499. mál, ríkisbókhald

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, sbr. lög nr. 31/1982 um breytingu á þeim, eins og það birtist á þskj. 927.

Frv. það sem ég mæli hér fyrir fjallar um breytingu á lögum nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Breytingar þær sem hér er lagt til að gerðar verði eru nauðsynlegar með tilliti til þess frv. sem ég hef lagt hér fram samhliða þessu frv., þ. e. breyting á lögum nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o. fl. Þetta frv. fjallar um breytta skilgreiningu á A-hluta fjárlaga.

Það er á valdi fjmrh. eftir till. frá ríkisreikningsnefnd að ákveða þær stofnanir sem teljast skulu til A-hluta og B-hluta fjárlaga. Undantekning er þó að í lögum segir að almannatryggingar og endurlánareikning ríkissjóðs skuli færa í B-hluta. Hér er lagt til að þessu ákvæði verði breytt til samræmis við meðferð annarra stofnana A-hluta fjárlaga, þ. e. að framvegis verði Almannatryggingar ríkisins og endurlánareikningur ríkissjóðs talin í A-hluta fjárlaga í stað B-hluta eins og verið hefur.

Ég tel óþarfa að hafa langt mál um þetta frv. þar sem ég fjallaði um efnisatriði þegar ég mælti fyrir frv. um breytingu á lögum nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o. fl. Vísa ég í því sambandi til ræðu minnar er ég hafði framsögu um það nú fyrir skömmu.

Ein breyting er þó lögð til í þessu frv. sem ég vil sérstaklega nefna, þ. e. að framvegis skulu skil tekna af fjáröflunareinkasölu ríkisins til ríkissjóðs, eins og þær eru áætlaðar í fjárlögum, undantekningarlaust teljast með sköttum en ekki arðgreiðslum annarra fyrirtækja og sjóða eins og gert hefur verið í sumum tilfellum.

Að svo mæltu, herra forseti, leyfi ég mér að leggja til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.