20.05.1985
Efri deild: 78. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5380 í B-deild Alþingistíðinda. (4649)

505. mál, sjóðir atvinnuveganna

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Í samræmi við stjórnarsáttmálann skipaði ég strax og þessi ríkisstj. tók við nefnd til að endurskoða lög og reglur um starfsemi fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna. Nefndin náði ekki samstöðu þannig að málið var tekið upp að nýju á fundum stjórnarflokkanna og gerð í september 1984 svohljóðandi samþykkt, með leyfi forseta:

„Fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna, sem starfa skv. sérstökum lögum, verði fækkað í þrjá: Búnaðarsjóð, Sjávarútvegssjóð og Iðnaðarsjóð. Sjóðir þessir sinni hlutverki sínu fyrst og fremst með lánveitingum í gegnum hið almenna bankakerfi.“

Ég skipaði síðan í framhaldi af þessari samþykkt aðra nefnd sem var falið að framkvæma þessa samþykkt og endurskoða lög um stofnlánasjóði atvinnuveganna. Sú nefnd hefur samið það frv. sem hér liggur fyrir og ég mæli nú fyrir hér í hv. deild.

Ég skal ekki hafa um þetta út af fyrir sig mjög langa ræðu. Ég ætla að rekja meginþætti þessa frv., en það er ítarleg grg. með frv. þar sem um einstakar greinar er að sjálfsögðu fjallað. Talið var rétt að setja þessar breytingar fram í einu frv. um sjóði atvinnuveganna og leggja með því áherslu á þá samræmingu sem lögð er til í þessum tillögum.

Meginbreytingarnar eru þessar:

1. Sjóðirnir verði sjálfstæðar stofnanir. Lögbundin framlög úr ríkissjóði eru afnumin, en ákvæði núgildandi laga um tekjuöflun sjóðanna í formi gjalda á viðkomandi atvinnugreinar haldast svo til óbreytt.

Um þetta atriði var töluvert fjallað í nefndinni og hjá öðrum sem að þessu máli komu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að endurskoða þurfi tekjuöflun til sjóðanna. Það er hins vegar mjög erfitt að samræma þessa tekjuöflun því að tekjur koma frá viðkomandi atvinnuvegum og að sjálfsögðu eru aðstæður atvinnuveganna að ýmsu leyti ólíkar frá einum atvinnuvegi til annars.Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að stjórnir sjóðanna og fulltrúaráð, sem gert er ráð fyrir að verði við sjóðina, eigi að taka tekjuöflun til þeirra til meðferðar.

2. Gert er ráð fyrir að sjóðirnir öðlist fullt sjálfstæði til að ákveða til hvaða atvinnugreina og viðfangsefna þeir lána, hverra trygginga skuli krafist og hver vera skuli lánshlutföll, vaxtakjör og önnur lánakjör. Þetta er að sjálfsögðu töluverð breyting. Sjóðirnir verða með þessu ekki bundnir við ákveðinn atvinnuveg, nema stjórn sjóðsins ákveði það, eða m. ö. o. látið í vald stjórnar sjóðsins hvort hún vilji opna fyrir lánveitingar í annað en nafn sjóðsins ber með sér. Búnaðarsjóður getur þá lánað til fiskvinnslu, ef stjórnin ákveður svo, og Sjávarútvegssjóður í það sem kannske kallast strangt til tekið landbúnaðarmál. Gott dæmi um þetta eru fiskeldismálin, sem eru nú mjög á dagskrá, og eiga að sumir segja hvergi heima, en þó helst hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins og Framkvæmdasjóði. Með þessari breytingu væri þá að sjálfsögðu hverjum sjóði heimilt, ef stjórnin ákveður svo, að lána til fiskeldis.

3. Gert er ráð fyrir að stjórn hvers sjóðs ákveði hvort sjóðurinn skuli lána beint eða fyrir milligöngu viðskiptabanka eða annarra lánastofnana. Í þessu felst að sjóðirnir geta valið á milli mismunandi leiða. Þeir geta að sjálfsögðu tekið við og afgreitt lán beint sjálfir eða þeir geta tekið við umsóknum sem koma í gegnum banka og þá e. t. v. með bankatryggingu, þ. e. að bankinn annist útlánin til lántakenda eftir að hafa fengið fé úr viðkomandi sjóði. Þetta er einnig sett á vald stjórnar sjóðsins, en þó er það grundvallaratriði í þessum lögum að opna fyrir milligöngu bankanna um lánveitingar úr þessum þremur sjóðum.

4. Lagt er til að stjórn sjóðanna verði heimilt að ákveða að lánakjör og lánshlutföll verði mismunandi eftir því hvaða tryggingar eru settar. T. d. gæti komið til greina að lánakjör væru betri ef banki annast milligöngu og ábyrgist endurgreiðslu á láninu til sjóðsins.

5. Felld eru úr lögum ákvæði um að tiltekinn viðskiptabanki skuli hafa á hendi daglegan rekstur og stjórn hvers sjóðs. Stjórn viðkomandi sjóðs getur hins vegar ákveðið að semja við banka um að annast fyrir sjóðinn afgreiðslu á lánum og hvað það annað sem hún ákveður.

6. Starfsemi sjóðanna verður fyrst og fremst í því fólgin að sjóðirnir veiti lán eða ábyrgðir. En jafnframt er lag til að innan hvers sjóðs starfi sérstök deild er hafi það hlutverk að styðja nýsköpun og umbætur í viðkomandi atvinnuvegum og reyndar í hverju því sem stjórn sjóðsins ákveður. Veitt er heimild til að úr þessari deild megi veita styrki eða áhættulán sem þá afskrifist ef viðkomandi starfsemi mistekst og getur ekki endurgreitt.

7. Stjórnum sjóðanna verði heimilt að ákveða að þeir taki þátt í fjárfestingar- og þróunarfélögum að því marki sem slík þátttaka samrýmist hlutverki sjóðanna.

8. Teknar eru upp heimildir fyrir sjóðina til að taka lán erlendis í eigin nafni innan ramma lánsfjárlaga. Á hinn bóginn eru felld á brott ákvæði um að ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar sjóðanna, þótt ríkisábyrgð héldist að sjálfsögðu að því er varðar skuldbindingar sem stofnað hefur verið til til þessa með ríkisábyrgð. Þetta merkir í fyrsta lagi það að sjóðsstjórnin getur ákveðið að taka lán beint, ef hún telur sig fá hagkvæm kjör, en hún getur einnig að sjálfsögðu samið við viðskiptabanka eða Seðlabanka eða Framkvæmdasjóð, eins og fram kemur í frv. um Framkvæmdasjóð sem liggur hér fyrir Alþingi, um að annast slíkar erlendar lántökur fyrir hönd viðkomandi sjóðs. En þetta þýðir jafnframt að ef um ríkisábyrgð á að vera að ræða verður að biðja um hana sérstaklega. Að sjálfsögðu eru slíkar ákvarðanir iðulega teknar og verða vafalaust teknar í sambandi við lánsfjárlög.

Þá eru felld brott ákvæði um það hvenær heimilt er að telja lán eða eftirstöðvar lána úr sjóðunum fallin í gjalddaga án uppsagnar og um heimild sjóðanna til að láta setja veð við opinber uppboð án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms, enda slík lagaákvæði óþörf, þar sem sjóðirnir geta áskilið sér þennan rétt í skuldabréfum þeim sem lántakendur gefa út til viðurkenningar á skuld sinni.

Æðsta vald í málefnum hvers sjóðs verður í höndum fimm manna stjórnar sem er í öllum tilfellum þannig skipuð að ráðherra skipar formann stjórnarinnar. Hins vegar skipar viðkomandi atvinnuvegur aðra fjóra stjórnarmenn, eða samtök innan viðkomandi atvinnuvegar, eins og kemur fram í greinum um viðkomandi sjóð.

Í Búnaðarsjóðinn er gert ráð fyrir að Búnaðarfélag Íslands tilnefni tvo og Stéttarsamband bænda tvo.

Í stjórn Iðnaðarsjóðs er gert ráð fyrir að tveir verði tilnefndir af Félagi ísl. iðnrekenda og tveir skv. tilnefningu Landssambands iðnaðarmanna.

Í stjórn Sjávarútvegssjóðs verði tveir skipaðir skv. sameiginlegri tilnefningu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, sjávarafurðadeildar Sambands ísl. samvinnufélaga og sölusambands ísl. fiskframleiðenda, einn verði tilnefndur af Landssambandi ísl. útvegsmanna og einn sameiginlega af Sjómannasambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands.

Þá er það nýmæli í þessum lögum að sjóðunum er ætlað að halda ársfundi. Rétt til setu á þeim fundum eigi allmikill fjöldi fulltrúa frá viðkomandi atvinnugrein, samtals 20 fulltrúar við hvern sjóð. Þeir verða tilnefndir af sömu aðilum og tilnefna menn í stjórn viðkomandi sjóðs. Á slíkum fundum verða að sjálfsögðu, auk þess sem reikningar eru lagðir fram, ræddar þær reglur sem stjórnin hyggst hafa um útlán úr sjóðunum. Þannig gefst langtum fleiri mönnum tækifæri til að hafa áhrif á þessa mikilvægu starfsemi fyrir viðkomandi atvinnugrein.

Eins og fram kom í því sem stjórnarflokkarnir samþykktu í september 1984 er með þessu frv. gert ráð fyrir því að sameina ýmsa sjóði viðkomandi atvinnugreina. Þannig er gert ráð fyrir því að Stofnlánadeild landbúnaðarins, Framleiðnisjóður landbúnaðarins og Fiskræktarsjóður sameinist í Búnaðarsjóð. Um Iðnaðarsjóð er það að segja að þar er ekki um þetta að ræða. Þar hefur sameining nýlega farið fram. Hins vegar er gert ráð fyrir því að Fiskveiðasjóður Íslands, Fiskimálasjóður og Styrktar- og lánasjóður fiskiskipa verði að Sjávarútvegssjóði.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan sé ég ekki ástæðu til þess að halda um þetta mjög langa ræðu. Ég hef rakið meginþætti þessa máls og legg að lokum áherslu á að með þessu er leitast við að samræma starfsemi sjóðanna, opna þá, sem er kannske eitt af því allra mikilvægasta, og fela stjórnum þar sem atvinnuvegirnir hafa tögl og hagldir að ákveða starfsemi sjóðanna innan þess ramma sem þessi lög setja, en ákveða hins vegar ekki ýmsa þætti, sem nú eru ákveðnir í lögum, þ. e. fella út slíkar takmarkanir.

Ég leyfi mér svo að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.