20.05.1985
Efri deild: 78. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5384 í B-deild Alþingistíðinda. (4651)

505. mál, sjóðir atvinnuveganna

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki miklu við að bæta það sem hv. 2. þm. Austurl. sagði hér. Ég tek undir allt það sem hann sagði um vinnubrögð í sambandi við framlagningu þessa frv. Það kom mér dálítið einkennilega fyrir sjónir þegar ég sá það hér þegar við komum til fundar.

Á haustdögum gerði ríkisstj. ýmsar samþykktir, m. a. þá samþykkt sem tíunduð er í þessu frv. En hún mun hafa gert samþykkt á þann máta líka að sameina skyldi alla sjóði sjávarútvegsins og til þess var skipuð nefnd. Í þeirri nefnd eigum við sæti, ég og hv. 3. þm. Vesturl. Við gerðum ráð fyrir því á haustdögum að sú nefnd mundi starfa í vetur og undirbúa með hagsmunaaðilum frv. um breytingu á þessum sjóðum. Nefndin hefur einu sinni verið kölluð til fundar og mennirnir í nefndinni lauslega kynntir.

Það sem hér kemur síðan fram er að þrír þættir þess starfs, sem þeirri nefnd sem ég á sæti í var falið að vinna að og undirbúa frv. um hvernig breyta skyldi, þrír þættir þess máls eru inni í þessu frv. Ég vildi því spyrja hæstv. forsrh., þó að sú nefnd sem ég hef hér gert að umræðuefni sé ekki skipuð af honum, hvað eigi að verða um framhaldsstarf þeirrar nefndar, hvort horfið sé frá því að sameina sjóði sjávarútvegsins undir einn hatt og þetta sé svar við því.

Um leið og ég tek undir óskir hv. 2. þm. Austurl. um að þetta mál verði ekki afgreitt á þessum fundi heldur fáum við frekari tíma til að skoða það vil ég einnig benda á það að mér finnst óeðlilegt að um þetta frv. verði ekki fjallað í fleiri nefndum deildarinnar en hv. fjh.- og viðskn. Það er kannske óvenjuleg vinna á þingi að svo sé gert, en það að sjóðir sjávarútvegsins séu teknir og þeim stillt upp á þann máta sem hér er lagt til, án þess að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og sjútvn. deildarinnar fái að fjalla um það, finnst mér óeðlileg vinnubrögð.

Ég get þó ekki stillt mig um að nefna einn þátt í þessu frv. sem maður rekur augun undir eins í. Það er hvernig skuli skipa stjórn t. d. Sjávarútvegssjóðs. Þar er lagt til að ákveðnir aðilar tilnefni fulltrúa í stjórnina og eru taldir upp LÍÚ, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og sjávarafurðadeild Sambandsins, sem skuli í sameiningu skipa þrjá fulltrúa, en einn fulltrúi frá sjómönnum og Farmanna- og fiskimannasambandi. Ég hefði talið að ef á annað borð er verið að taka hagsmunaaðila ættu í þessum hópi að vera fulltrúar frá starfsfólki við fiskvinnslustöðvarnar. Og á sama máta skuli á ársfund fyrirtækisins, þar sem 20 fulltrúar skulu fjalla um málefni aðalsjóðs sjávarútvegsins, einnig verða til kallaðir fulltrúar frá starfsfólki fiskvinnslunnar.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um efnisinnihald þessa frv. en mælist eindregið til að umræðu um það verði frestað til þess að þm. gefist kostur á að lesa frv. og kynna sér innihald þess.