20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5388 í B-deild Alþingistíðinda. (4661)

503. mál, getraunir Öryrkjabandalags Íslands

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um getraunir Öryrkjabandalags Íslands, felur í sér heimild til að veita Öryrkjabandalaginu leyfi til að starfrækja getraunir sem fram fara með þeim hætti að þátttakendur skrá eða velja röð bókstafa. Fulltrúar Öryrkjabandalagsins komu fyrir nokkru á minn fund og leituðu eftir heimild til reksturs happdrættis þar sem tölvur og tölvuskermar verða tengiliðir fyrir kaupendur. Tilgangur þess yrði að afla fjár fyrir starfsemi bandalagsins. Er frv. þetta samið og flutt í þeim tilgangi að afla lagaheimildar fyrir slíka starfsemi.

Skv. lögum um happdrætti frá árinu 1926 má ekki setja á stofn peningahappdrætti eða önnur þvílík happdrætti án lagaheimildar.

Happdrætti það, sem Öryrkjabandalagið hyggst starfrækja, er fólgið í því að þátttakendur velja tiltekinn fjölda bókstafa skv. nánari reglum. Munu þeir geta verið allt frá þremur upp í tólf. Dráttur fer síðan fram og vinning hljóta þeir sem giska á alla bókstafi rétta eða hluta þeirra eftir nánari reglum. Ræðst fjárhæð vinninga eftir þátttöku í getraunum en gert er ráð fyrir því að vinningar verði greiddir í peningum.

Eins og áður sagði er ekki heimilt án lagaheimildar að setja á stofn peningahappdrætti. Getraunastarfsemi þessi telst happdrætti í lagaskilningi en þátttaka í getraunum byggist á gjaldi og vinningsvon ræðst af tilviljun.

Um efni frv. tel ég eigi ástæðu til að hafa fleiri orð en vek athygli á því að um þessa starfsemi þarf að setja nánari reglur þannig að öryggis þátttakenda verði gætt.

Öryrkjabandalag Íslands var stofnað árið 1961 og eru aðildarfélög þess nú 13 öryrkjafélög og styrktarfélög öryrkja, þ. e. Blindrafélagið, Blindravinafélagið, Félag heyrnarlausra, Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra, Geðhjálp, Geðverndarfélag Íslands, Gigtarfélag Íslands, Heyrnarhjálp, SÍBS, Sjálfsbjörg, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Styrktarfélag vangefinna og MS-félagið. Markmið bandalagsins er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum öryrkja, svo sem húsnæðismálum, atvinnumálum og almennum félagsmálum, enn fremur að koma fram fyrir hönd öryrkjahópanna gagnvart stjórnvöldum.

Eitt af meginviðfangsefnum bandalagsins hefur verið húsnæðismál. Á árinu 1965 var stofnuð sérstök sjálfseignarstofnun, Hússjóður Öryrkjabandalagsins, er skyldi byggja og reka leiguíbúðir fyrir öryrkja. Hafa þannig verið byggðar 250 leiguíbúðir á lóðinni Hátún 10 hér í Reykjavík. Enn er þó biðlisti eftir slíku húsnæði og stefnir bandalagið að því að útvega 40–45 íbúðir á ári um allt land. Til þess þarf, að því er forráðamenn bandalagsins telja, 40–50 millj. kr. á ári. Er fjáröflun þeirri, sem frv. þetta fjallar um, ætlað að taka þátt í þessari uppbyggingu. Öryrkjabandalagið gerir auk þess ráð fyrir framlagi úr opinberum sjóðum.

Nánari greinargerð um starfsemi Öryrkjabandalagsins er fyrir hendi en ég tel eigi ástæðu til að rekja þá starfsemi frekar hér. Þm. og þingnefnd geta að sjálfsögðu fengið þau gögn auk þess sem fulltrúar bandalagsins eru reiðubúnir að gera nánari grein fyrir þessu máli öllu.

Herra forseti. Ég hef lokið að gera grein fyrir frv. þessu um getraunastarfsemi Öryrkjabandalags Íslands. Ég legg til að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.