20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5391 í B-deild Alþingistíðinda. (4666)

342. mál, verslunaratvinna

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég flutti í hv. Ed. frv. til l. um breytingu á lögum nr. 41 frá 2. maí 1968, um verslunaratvinnu, þar sem gert var ráð fyrir því að leiga á lausafjármunum yrði bókhaldsskyld og gengið yrði til undirbúnings að öðru því sem þeim hlutum væri skylt.

Hér er um að ræða breytingu til þess að lögin um verslunaratvinnu geti náð yfir þá starfsemi sem mjög hefur aukist að undanförnu, þ. e. leigu á myndböndum.

Hv. Ed. taldi hins vegar ekki rétt að breyta lögunum með þeim hætti sem lagt var til, um væri að ræða of víðtæki ákvæði og gat ég mjög vel fallist á það. Á frv. var því gerð sú breyting að lögin um verslunaratvinnu tækju til leigu myndbanda.

Með ákvæði til bráðabirgða er um að ræða tímafrest fyrir þá sem þegar hafa hafið þennan atvinnurekstur, með hvaða hætti að því skuli staðið af þeirra hálfu. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um málið. Ég vísa til þess sem ég sagði í hv. Ed. og leyfi mér að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.