20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5392 í B-deild Alþingistíðinda. (4668)

493. mál, sparisjóðir

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í framsöguræðu minni fyrir nokkru um frv. til laga um viðskiptabanka gat ég þess að innan tíðar yrði einnig lagt fram frv. til laga um sparisjóði og er það hér til umr. á þskj. 917.

Frv. það um sparisjóði, sem hér liggur fyrir, á sér langa forsögu. Í stuttu máli má segja að vinna við það hafi hafist fyrir nærfellt 13 árum síðan er þáv. viðskrh. skipaði nefnd til þess að endurskoða allt bankakerfið. Sú nefnd tók saman frumdrög að nýrri löggjöf um sparisjóði en árið 1975 var aftur skipuð nefnd er hafa skyldi það sérstaka verkefni að semja frv. til l. um sparisjóði. Frv. byggt á tillögum nefndar þessarar var síðan lagt fyrir Alþingi árið 1978.

Frá þeim tíma hafa nokkrum sinnum verið lögð fram fyrir Alþingi frv. um sparisjóði sem að mestu leyti voru byggð á því starfi sem hér hefur verið greint frá en frv. þessi urðu ekki útrædd. Þegar enn var skipuð nefnd á árinu 1981 lá fyrir frv. um sparisjóði og þótti því ekki ástæða til að fela nefndinni samningu nýs sparisjóðafrv. Á hinn bóginn hefur við endanlega gerð þessa frv. af hálfu viðskrn. verið höfð veruleg hliðsjón af því frv. til laga um viðskiptabanka sem nú liggur fyrir. Þá hefur frá upphafi verið höfð hliðsjón af löggjöf um sparisjóði á Norðurlöndum og haft samráð við Samband ísl. sparisjóða og tillit tekið til margvíslegra athugasemda sem frá því hafa komið.

Í sögu bankastofnana hér á landi eiga sparisjóðir sér langa sögu. Þeir voru fyrstu innlánsstofnanir sem stofnaðar voru hér á landi og er talið að hinn fyrsti þeirra hafi verið stofnaður 1858. Í kjölfar hans voru fleiri sparisjóðir stofnaðir, sumir lífvænlegir, aðrir ekki. Elstur nú starfandi sparisjóða er Sparisjóður Siglufjarðar, stofnaður 1874, en alls eru starfandi í dag fjórir sparisjóðir sem eru eldri en eitt hundrað ára. Elsti starfandi banki, Landsbanki Íslands, hóf hins vegar

Á næstu árum eftir stofnun fyrstu sparisjóðanna eru síðan stofnaðir sparisjóðir hver af öðrum og alls hafa þeir verið stofnaðir 93, síðasti þeirra árið 1972. Í dag eru starfandi 38 sparisjóðir. 55 sparisjóðir hafa þannig hætt starfsemi sinni, flestir verið yfirteknir af bönkum, þremur breytt í banka en aðeins örfáir yfirteknir af öðrum sparisjóðum. Fróðlegt er að freista þess að leita skýringa á þessari þróun. Sé fljótt farið yfir sögu má segja að í upphafi hafi verið fremur lítill munur á banka og sparisjóði. Bankarnir voru þó stofnanir sem ekki voru bundnar ákveðnum starfssvæðum heldur leituðu viðskipta um land allt. Sparisjóðirnir voru hins vegar fyrst og fremst staðbundnar stofnanir sem ætlað var að þjóna ákveðnum starfssvæðum og löggjöf hefur lengst af sett þeim þrengri skorður. Tilgangur þessara stofnana hefur þó alla tíð verið hinn sami, þ. e. að gefa íbúum landsins kost á að varðveita og ávaxta fjármuni sína með áreiðanlegum hætti og greiða fyrir efnahagslegum framförum í útlánastarfsemi sinni. Telja má víst að einangrun staðbundinna stofnana, minni vaxtarskilyrði vegna lítils starfssvæðis, skortur á möguleikum til beinna lána milli sparisjóða og síðbúinn skilningur á samvinnu og samstarfi þeirra í milli séu meginskýringarnar á þeirri miklu fækkun sparisjóða sem átt hefur sér stað í landinu. Úrelt löggjöf á einnig sinn þátt í þessari þróun.

Þegar fyrstu sparisjóðirnir tóku til starfa voru engin lög sem tóku til starfsemi þeirra. Á árinu 1874 var þó gefin út tilskipun „um hlunnindi nokkur fyrir sparisjóði á Íslandi“. Árið 1915 eru síðan sett fyrstu lögin um sparisjóði en þau síðan endurskoðuð nokkrum áratugum síðar og samþykkt sem lög nr. 69/1941 og eru þau lög enn í gildi.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Því er nú, u. þ. b. 44 árum síðar, löngu orðið tímabært að breyta þessum lögum enda eru þau um margt úrelt og farin að há starfsemi sparisjóðanna með margvíslegum hætti. Úr því verður að bæta.

Til grundvallar frv. þessu liggur mikið starf, eins og ég sagði áðan, sem má rekja allt aftur til ársins 1972. Með frv. því, er nú er lagt fyrir Alþingi, er að því stefnt að löggjöfin um sparisjóði verði færð í nútímalegt horf. Þá er að því stefnt að staða sparisjóðanna verði treyst og þeim veittar hliðstæðar starfsheimildir og viðskiptabönkum og aðhald og öryggi í rekstri aukið í samræmi við kröfur tímans. Samhliða er ætlunin að skapa skilyrði til aukinnar hagkvæmni í rekstri sparisjóðanna.

Í grg. með frv. eru töflur er sýna fjölda sparisjóða með nokkurra ára millibili frá árinu 1870 til 1984, skiptingu sparisjóða eftir kjördæmum og hlutdeild þeirra í innlánsfé banka og sparisjóða á mismunandi tímum. Þar má sjá að innlánshlutdeild sparisjóðanna er nokkuð stöðug s. l. 40–50 ár ef undan er skilið tímabilið upp úr 1960 og 1970 þegar þremur stórum sparisjóðum er með lögum breytt í banka. Það vekur athygli að þetta skeður þrátt fyrir verulega fækkun sparisjóða á þessu tímabili og er skýringin sú að þeir sparisjóðir, sem áfram hafa starfað, hafa unnið upp í aukinni markaðshlutdeild þá minnkun sem orðið hefur við fækkun sparisjóðanna. Þannig er hlutdeild sparisjóðanna af heildarinnlánum banka og sparisjóða 15.3% í árslok 1984, en til samanburðar er fróðlegt að nefna að hliðstæð hlutdeild allra einkabankanna var á sama tíma 19.9%.

Á þessu tímabili hefur orðið veruleg breyting á starfsháttum sparisjóðanna. Starfshættir hafa færst mjög í sama horf og bankanna og er þetta hliðstæð þróun og orðið hefur í öllum nágrannalöndum okkar. Þá hefur fylgt þessari þróun að sparisjóðirnir hafa fært útlán sín í mjög auknum mæli til atvinnuveganna frá því sem áður var, enda þótt almenningur, þ. e. einstaklingar, séu enn stærstu lánþegar sparisjóðanna og hafi þar aðeins vinninginn fram yfir atvinnuvegina og opinbera aðila.

Í umræðum manna á meðal er oft spurt hver sé munurinn á banka og sparisjóði og hvers vegna þessi tvö kerfi innlánsstofnana séu við lýði. Því er til að svara að sparisjóðirnir eiga sér langa hefð í íslensku þjóðlífi sem elstu peningastofnanir landsins eins og á hefur verið bent. Þá felst mikill munur á milli þessara tveggja flokka innlánsstofnana í rekstrarformi þeirra þar sem sparisjóðirnir eru í eðli sínu sjálfseignarstofnanir. Enn fremur eru þeir í flestum tilvikum staðbundnar stofnanir undir stjórn heimamanna andstætt því að bankaútibúin lúta almennt yfirstjórn frá höfuðstöðvum viðkomandi banka í Reykjavík.

Fjöldi og sjálfstæði einstakra sparisjóða vítt og breitt um land, oft í samkeppni við bankana, hefur í för með sér valddreifingu sem er æskileg, einkum þar sem fjármagnsskortur er viðvarandi. Sparisjóðirnir eiga þannig að tryggja meira valfrelsi viðskiptamanna og um leið nauðsynlega samkeppni sem hlýtur að vera æskilegt takmark. Þá má ekki gleyma því að fjölmargir sparisjóðir hafa í fámennum byggðarlögum gegnt mikilvægu hlutverki sem aðrar stofnanir væru tæpast tilbúnar að gegna, m. a. vegna lítils markaðar, og veitt íbúum þessara staða þjónustu sem þeim er ekki síður nauðsynleg en íbúum fjölmennari byggðarlaga.

Samkeppnisstaða sparisjóðanna hefur um margt breyst hin síðari ár og ekki síst nú síðustu mánuðina. Þeim hefur því orðið æ mikilvægara í tæknibyltingu síðustu ára að leita innbyrðis aukinnar samvinnu. Sameining sparisjóða á vissum landssvæðum er einnig valkostur sem æ oftar hefur komið til umræðu á síðari árum. Frv. þetta byggist á þeirri meginstefnu að sameining skuli ákveðin af sparisjóðunum sjálfum. Valdboð í þeim efnum ber að forðast. Því hafa í frv. þessu með margvíslegum hætti verið sköpuð skilyrði til sameiningar sparisjóðanna standi vilji forráðamanna þeirra til slíkrar þróunar. Jafnframt hafa verið sköpuð skilyrði til aukinnar samvinnu sparisjóðanna og eru ákvæði frv. um lánastofnun sparisjóðanna merkust slíkra mála enda telja forráðamenn sparisjóðanna þau forsendu fyrir samkeppnishæfni þeirra á næstu árum. Því hafa þeir lagt á það þunga áherslu að með lögum verði sköpuð skilyrði til samvinnu sem sparisjóðirnir hyggja á innan hennar. Sjálfur hef ég þá bjargföstu trú að verði sparisjóðunum sköpuð eðlileg starfsskilyrði muni þeir treysta stöðu sína meðal innlánsstofnana hér á landi.

Í löggjöf fyrri ára var sparisjóðunum sniðinn nokkuð þröngur stakkur. Fjöldi viðskiptamanna þeirra í dag sýnir hins vegar að leitað er eftir þjónustu sparisjóðanna. Því er það alveg ljóst, þegar litið er á þjónustuhlutverk það er sparisjóðirnir gegna víðs vegar um landið, að þeim er nauðsyn að geta, ef aðstæður leyfa, innt af hendi alla venjulega þjónustu sem nú er ætlast til að innlánsstofnanir veiti. Á því eiga viðskiptamenn þeirra kröfu. Þeir verða því að geta þjónað íbúum hinna ýmsu byggðarlaga og verið raunhæfur valkostur borið saman við viðskiptabanka.

Með þetta sjónarmið að leiðarljósi markar frv. þetta þá stefnu að fella niður öll þau ákvæði er takmarka starfsemi sparisjóða borið saman við starfsemi viðskiptabanka og er það hliðstætt því sem gert hefur verið í öllum nálægum löndum. Eftir sem áður og þrátt fyrir hliðstæðar starfsheimildir banka og sparisjóða verður áfram skýr munur milli sparisjóða og annarra innlánsstofnana.

Sparisjóðirnir eru í eðli sínu, eins og áður var sagt, sjálfseignarstofnanir. Stjórn þeirra er tengd sveitarfélögum og starfsemi þeirra er almennt staðbundin andstætt starfsemi viðskiptabanka. Þar við bætist að einstakir sparisjóðir munu eflaust eftir sem áður hafa takmarkaðri starfsemi en viðskiptabankar. en á hinn bóginn verða möguleikar þeirra til að taka tillit til sérstakra staðbundinna aðstæðna meiri. Þannig ættu þeir líka að geta stuðlað að heilbrigðri samkeppni.

Frv. þetta skiptist í 17 kafla og telur 72 greinar auk ákvæða til bráðabirgða. Mörgum ákvæðum gildandi laga hefur verið breytt eða þau felld brott. Jafnframt er mörgum nýjum ákvæðum bætt við sem ætlað er að færa löggjöfina í nútímalegra horf. Með frv. er m. a. reynt að tryggja betur hagsmuni eigenda innlánsfjár og viðskiptaaðilum sparisjóða betri þjónustu. Samhliða er ætlunin að stuðla að aukinni hagkvæmni í rekstri sparisjóðanna. Í almennum athugasemdum við frv. er gerð grein fyrir veigamestu nýmælum og breytingum frá gildandi lögum. Hér mun ég leitast við að gera nokkuð ítarlegri grein fyrir þessum atriðum án þess að um tæmandi upptalningu sé að ræða. Má að öðru leyti vísa til þess sem fram kemur í athugasemdum við einstakar greinar frv.

Í 1. kafla frv. er kveðið svo á að frv. gildi um sparisjóði. Skv. frv. er hlutverk sparisjóðanna að hafa á hendi hvers konar sparisjóðsstarfsemi sem síðar er nánar skilgreind í VII. kafla frv., einkum 30. gr. þess, en í þeirri grein er sparisjóðunum ásamt öðrum þeim er til þess hafa lagaheimild einum heimil móttaka innlána frá almenningi. Þá er í kaflanum einnig tekið fram að önnur starfsemi en sú sem sérstaklega er tilgreind í VII. kafla frv. sé sparisjóðum óheimil.

Þá er í I. kafla skilgreind ábyrgð sparisjóðsaðila og tekið fram að hún takmarkist við upphæð stofnfjárhluta, skráðar ábyrgðir og inneignir í séreignarsjóði, en um séreignarsjóði eru síðan nánari ákvæði í V. kafla frv.

Skv. I. kafla hafa sparisjóðsaðilar ekki rétt til ágóða af rekstrarafgangi umfram það sem mælt er fyrir í frv., en í IX. kafla þess er lagt til að innan vissra takmarka verði heimilt að verja hluta tekjuafgangs til greiðslu vaxta af stofnfé og séreignarsjóði stofnfjáreigenda. Við slit sparisjóðs fá stofnfjáreigendur hlut sinn greiddan en þeim eignum, sem þá verða eftir, ráðstafað í samræmi við ákvæði samþykkta, en þó má ekki ráðstafa þeim til sparisjóðsaðila.

Um þetta er nánar fjallað í XIII. kafla frv. Þessi ákvæði um ráðstöfun eigna við slit minna einkum á skyldleika sparisjóða við sjálfseignarstofnanir. Er sparisjóðunum þannig í frv. valið það form sem telja verður að henti þeim best með tilliti til fortíðar og framtíðar.

Í II. kafla frv. er fjallað um stofnun sparisjóða. Ítarlegri reglur eru settar um meðferð umsókna en er í gildandi lögum. Stofnun sparisjóðs verður áfram háð leyfi viðskrh. en gert er ráð fyrir því í frv. að áður en ráðh. afgreiði umsókn um stofnun sparisjóðs skuli hann leita umsagnar Seðlabanka Íslands og Tryggingarsjóðs sparisjóða.

Þá er í II. kafla frv. ákvæði um hverjir geta verið stofnendur sparisjóðs og eru þeir tæmandi taldir. Einnig er kveðið á um að þessir aðilar geti aldrei verið færri en 30 talsins, en þeir skulu allir vera íslenskir aðilar úr hópi fjárráða einstaklinga, sýslufélaga, sveitarfélaga eða starfandi sparisjóða. Ástæðan fyrir því að þessir aðilar eru sérstaklega nefndir er að sýslu- og sveitarfélög hafa sérstök tengsl við sparisjóði sem gert er ráð fyrir að haldist í frv. þessu og starfandi sparisjóðir hafa mikilla hagsmuna að gæta varðandi viðgang sparisjóðsstarfseminnar.

Þá er nauðsynlegt að gerð sé krafa um það að fyrir stofnun sparisjóðs sé nokkuð víðtækur stuðningur. Þá verður það meginregla að ekki sé unnt að stofna sparisjóð með minna stofnfé en 3 millj. kr. Ráðherra er þó heimilt að víkja frá þessari reglu til hækkunar eða lækkunar. Ástæðan er sú að aðstæður og staðhættir eru ákaflega mismunandi víðs vegar um land. Þannig getur fjárhæðin verið orðin of lág í fjölmennari byggðarlögum en of há í fámennu byggðarlagi. Kveðið er á um að ráðh. leiti umsagnar Seðlabankans og Tryggingarsjóðs sparisjóða áður en undanþága er veitt. Skv. ákvæðum þessa kafla frv. verður hér eftir óheimilt að stofna sparisjóði með ábyrgðarfyrirkomulagi. Eingöngu verður heimilt að stofna sparisjóð með innborguðu stofnfé. Starfandi sparisjóðum verður þó ekki skylt að taka upp stofnfé í stað ábyrgða. Hins vegar verður það heimilt skv. frv. að aðalfundur ákveði að í stað ábyrgða komi innborgað stofnfé.

Í III. kafla frv. er fjallað um stofnfjárhluti og verða eigendaskipti að stofnfjárhlutum heimil innan þröngra takmarka. Þá er fjallað um skyldu og heimildir sparisjóðs til inniausnar en innlausn takmarkast af þeirri meginreglu að sparisjóður megi ekki eiga meira en 10% af eigin stofnfé.

Í IV. kafla er fjallað um aukningu stofnfjár. Ákvörðun um aukningu stofnfjár verður aðeins tekin á aðalfundi og þarf mjög aukinn meiri hluta til að slík samþykkt nái fram að ganga.

Í V. kafla eru ákvæði er gera ráð fyrir séreignarsjóði stofnfjáreigenda. Sjóður þessi verður aðallega myndaður með hluta vaxta af stofnfé sem aðalfundur ákveður að greiða stofnfjáreigendum. Ákvæði þessi eiga rót að rekja til þeirra vandamála sem upp hafa komið hjá sparisjóðum þar eð ekki hefur verið heimilt að uppfæra stofnfjárframlög til samræmis við verðlagsþróun. Því hafa stofnfjárhlutir rýrnað gífurlega á undanförnum árum. Í ákvæði I til bráðabirgða er í frv. gert ráð fyrir heimild til að endurmeta stofnfé sparisjóðs. Hámark stofnfjárhluta eftir endurmat má þó ekki vera hærra en 8000 kr. Með ákvæðum um séreignarsjóð er reynt að tryggja að stofnfjárhlutir haldi verðgildi sínu eftir uppfærslu þannig að ekki verði sama misgengi milli skráðs nafnverðs stofnfjárhluta og þess verðmætis sem upphaflega var lagt fram og orðið hefur á undangengnum árum Ekki verður heimilt að skilja sundur rétt yfir stofnfjárhlut og rétt yfir hlut í séreignarsjóði. Þær skorður, sem hér eru settar á ávöxtun stofnfjárhlutar, verður að skoða með hliðsjón af sérstöku eðli sparisjóða sem ekki er hægt að jafna við venjuleg fyrirtæki sem rekin eru í ágóðaskyni fyrir eigendur.

Í VI. kafla er fjallað um stjórn sparisjóðs. Í gildandi lögum eru engin ákvæði um sparisjóðsstjóra, hlutverk hans og skyldur og verkaskiptingu milli hans og sparisjóðsstjórnar. Með ákvæðum þessa frv. er leitast við að treysta stjórnkerfi sparisjóða og setja skýrari reglur um verkaskiptingu milli sparisjóðsstjórna og sparisjóðsstjóra en verið hafa í reynd innan sparisjóðanna. Um leið eru stjórnunarákvæði sett í nútímalegra horf. Um kjör stjórna sparisjóða er vert að benda á ný ákvæði sem sett eru til að leysa vandamál sem upp kunna að koma varðandi kjör stjórna þegar sparisjóðir sameinast, bæði þegar um er að ræða sparisjóði innan sama sveitarfélags og ekki síður þegar sparisjóðir, sem starfað hafa í fleiri en einu sveitarfélagi, sameinast.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir því að í samþykktum sparisjóðs sé heimilt að setja ákvæði um staðbundnar stjórnir sparisjóða sem taka til þess starfssvæðis sem viðkomandi sparisjóður starfaði á fyrir sameiningu. Staðbundnar stjórnir munu að sjálfsögðu starfa eftir þeim heimildum sem aðalstjórn sparisjóðsins mælti fyrir um. Þessi ákvæði má rekja til þeirrar meginstefnu frv. að auðvelda sem mest frjálsa sameiningu sparisjóða.

Í kaflanum er að finna mikilvægt nýmæli þess efnis að stjórn sparisjóðs skuli móta almenna stefnu sparisjóðs í vaxtamálum en að öðru leyti verði ákvörðun vaxta af einstökum tegundum inn- og útlána stofnana í höndum sparisjóðsstjóra. Með þessu nýmæli er reynt að stuðla að sem minnstum vaxtamun milli inn- og útlána hjá sparisjóðum og þar með sem hagstæðustum rekstri þeirra. Þegar til lengdar lætur mun þetta fyrirkomulag þjóna hagsmunum sparifjáreigenda, lántakenda og samfélagsins betur en sú skipan þessara mála sem var við lýði um langt árabil. Til að tryggja heilbrigða og virka samkeppni er jafnframt bannað að sparisjóðir hafi samráð við viðskiptabanka þegar ákvörðun er tekin um vexti og önnur þjónustugjöld. Á hinn bóginn er heimilað samráð milli sparisjóða um þessi efni. Varðandi rökstuðning fyrir þessari tilhögun vísa ég til ítarlegra athugasemda við 25. gr. frv. Eftirlit með að þessum ákvæðum verði fylgt verður í höndum bankaeftirlits.

Þá vil ég vekja athygli á því ákvæði kaflans sem gerir ráð fyrir því að sparisjóðir skuli að jafnaði leita fullnægjandi trygginga vegna skuldbindinga sem stofnað er til gagnvart sparisjóðunum. Að endingu má vekja athygli á ákvæði sem er að finna í lok kaflans um stjórn sparisjóða og fjallar um þagnarskyldu starfsmanna um allt það er varðar hagi viðskiptamanna sparisjóðs og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara skv. lögum og fyrirmælum yfirboðara eða eðli máls.

Í VII. kafla frv. er fjallað um starfsemi sparisjóða. Meginákvæði þessa kafla er í 30. gr. Þar er lýst hvað felst í hugtakinu sparisjóðsstarfsemi og farin önnur leið við skilgreiningu hugtaksins en í gildandi lögum. Þykir sú skilgreining, sem lagt er til að fylgt verði í frv., hæfa betur nútímaaðstæðum og gera sparisjóðunum betur kleift að laga starfsemi sína að breyttum kröfum. Eftir sem áður verður þó starfsemi sparisjóðs fyrst og fremst fólgin í geymslu og ávöxtun fjár og miðlun á peningum. Þessi skilgreining frv. á sparisjóðsstarfsemi felur í sér alla þá þætti sem falla nú almennt undir hugtakið, þ. á m. verðbréfaviðskipti.

Ákvæðinu er ekki ætlað að þrengja almennt starfsvettvang sparisjóða frá því sem verið hefur. Engu að síður er ætlast til að þetta hugtak verði skýrt þröngt. Framangreind skilgreining er hliðstæð og á hugtakinu viðskiptabankastarfsemi í frv. til laga um viðskiptabanka sem hér hefur verið lagt fram, enda er það, eins og áður hefur verið vikið að, eitt af markmiðum frv. þessa að jafna samkeppnisaðstöðu banka og sparisjóða og þá um leið aðstöðu viðskiptamanna þessara stofnana til aðgangs að margvíslegri þjónustu sem bankar og sparisjóðir veita, allt eftir aðstæðum á hverjum stað.

Í 2. mgr. 30. gr. er að finna þá grundvallarreglu frv. að sparisjóðir og aðrir aðilar, er til þess hafa lagaheimild, eigi einkarétt á að auglýsa eða bjóðast til með öðrum hætti að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. En skv. 10. gr. laga um Seðlabankann eru það þessar stofnanir sem eru háðar eftirliti bankaeftirlitsins. Tilgangur eftirlitsins er fyrst og fremst að gæta hagsmuna þeirra sem eiga innlánsfé í þessum stofnunum eða aðrar kröfur á hendur þeim. Af því leiðir að rétt þykir að kveða skýrt á um einkarétt stofnunar til að auglýsa eða bjóðast til með öðrum hætti að taka við innlánum frá almenningi til „geymslu og ávöxtunar.

Grundvallarbreyting er einnig gerð á ákvæðum gildandi laga um rétt sparisjóða til gjaldeyrisverslunar jafnframt því að sambærilegar heimildir eru veittar lánastofnunum sparisjóðanna. Skv. frv. er rétturinn til gjaldeyrisverslunar ótvíræður en Seðlabanka einungis heimilt að fengnu samþykki ráðh. að binda þann rétt tilteknum takmörkunum. Í dag hafa tólf sparisjóðum verið veittar gjaldeyrisheimildir og þykir sú tilhögun hafa tekist vel.

Þá er í þessum kafla frv. einnig fjallað um heimild sparisjóða til að eiga aðild að öðrum félögum eða stofnunum. Þær heimildir eru tvenns konar. bundnar við félög eða stofnanir með takmarkaðri ábyrgð. Það felur í sér að sparisjóður ber einungis ábyrgð á skuldbindingum þessara félaga og stofnana með framlagi sínu til þeirra en ekki með öllum eignum sínum eins og um væri að ræða ef sparisjóður gæti verið aðili að félagi með ótakmarkaðri ábyrgð. Í báðum þessum tilvikum er reynt að draga sem mest úr áhættu sparisjóðsins af rekstri þessara fyrirtækja með því að binda eignaraðild sparisjóðsins að fyrirtækinu við tiltekið hlutfall af eigin fé hlutaðeigandi sparisjóðs. Mun strangari kröfur eru þó gerðar að því er varðar aðild sparisjóðs að félögum sem reka aðra starfsemi en sparisjóðsstarfsemi. Miðað við núverandi aðstæður er ákvæðið til þess fallið að auka öryggi í rekstri sparisjóða.

Skv. íkvæðum VII. kafla er sparisjóði óheimilt að eiga aðrar fasteignir en þær sem nauðsynlegar eru vegna starfsemi sparisjóðs. Þó er einnig gert ráð fyrir því að sparisjóður geti gefið út skuldabréf sem hafa að geyma ákvæði þess efnis að krafa, sem eigandi slíks bréfs eignast á hendur sparisjóði, skuli við slit eða gjaldþrotaskipti á búi sparisjóðs víkja í skuldaröð fyrir öðrum kröfum sem kunna að stofnast á hendur sparisjóðum. Hér er um svokölluð „víkjandi lán“ að ræða og skipta þau máli um mat eigin fjár.

Þá er rétt að vekja athygli á ákvæði er mælir svo fyrir að sparisjóðsstjórar, aðstoðarsparisjóðsstjórar og skoðunarmenn megi ekki vera skuldugir sparisjóði sem þeir starfa fyrir, hvorki sem aðalskuldarar né ábyrgðarmenn annarra. Gildir hið sama um maka þeirra. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að sparisjóðsstjórn setji reglur um viðskipti starfsmanna við þann sparisjóð sem þeir starfa hjá.

Þau ákvæði frv. sem ég hef nú rakið eru í öllum meginatriðum hliðstæð og í frv. til l. um viðskiptabanka sem hér hefur verið lagt fram.

Í VIII. kafla frv. er fjallað um laust fé og eigið fé sparisjóðs. Ákvæði gildandi laga um laust fé eru óþjál og taka ekki tillit til þess að aðstæður á peningamarkaði geta breyst á tiltölulega stuttum tíma. Því hefur verið farin sú leið að skilgreina laust fé með öðrum hætti en áður var þannig að betur hæfi aðstæðum nú á tímum.

Einn af mikilvægari þáttum í löggjöf um innlánsstofnanir eru ákvæði um eigið fé enda miða þau að því að vernda hagsmuni eigenda innlánsfjár þótt innlánsstofnun verði fyrir óvæntum áföllum. Í meginatriðum er hér um að ræða að eigið fé skuli nema ákveðnu hlutfalli af tilteknum efnahagsliðum á hverjum tíma. Ég fer þó ekki nánar út í það en vísa til ítarlegra athugasemda við ákvæði greinarinnar.

Í IX. kafla frv. er fjallað um gerð ársreikninga og ráðstöfun tekjuafgangs. Um gerð ársreikninga þarf ekki að hafa mörg orð en gert er ráð fyrir að ráðh. setji reglur um gerð hans enda mikilvægt að gengið sé út frá sömu forsendum við uppgjör einstakra efnahagsliða og mat á eignum og skuldum hjá öllum innlánsstofnunum. Varðandi ráðstöfun tekjuafgangs er áhersla lögð á eflingu varasjóðs.

Í X. kafla frv. er að finna margvísleg nýmæli varðandi endurskoðun, enda erfitt að benda á starfsemi þar sem vel unnin endurskoðun hefur mikilvægara hlutverki að gegna en hjá innlánsstofnunum. Má hér nefna að nú verður gerð krafa um kosningu a. m. k. tveggja skoðunarmanna á aðalfundi og skal annar þeirra eða einn þeirra vera löggiltur endurskoðandi eða endurskoðunarstofa. Nauðsynlegt tillit er tekið til minnstu sparisjóðanna þannig að heimilt er að undanþiggja þá kosningu löggilts endurskoðanda en í þess stað tilnefnir stjórn Tryggingarsjóðs sparisjóða annan endurskoðandann.

Í XI. kafla eru ákvæði um nýjan Tryggingarsjóð sparisjóða. Skal hann koma í stað núverandi Tryggingarsjóðs sem hefur mjög takmarkað gildi fyrir starfsemi sparisjóðanna. Ástæður þess eru þær að framlög til hans sem nema 2% af árlegum tekjuafgangi hvers sparisjóðs, færast sem eign í efnahagsreikning viðkomandi sparisjóðs og eru því í reynd séreign hans. Þetta veldur því að Tryggingarsjóður getur ekki veitt óafturkræft framlag til sparisjóðs sem kynni að þurfa þess með. Forráðamenn sparisjóðanna hafa lengi haft mikinn hug á því að upp yrði byggður öflugur Tryggingarsjóður sem gæti gegnt því hlutverki að auka fjárhagslegt öryggi sparisjóðanna og treysta hagsmuni innstæðueigenda. Með ákvæðum frv. þessa um nýjan Tryggingarsjóð er reynt að búa svo um hnútana að hann verði sparisjóðunum sá bakhjarl sem þeir hafa sóst eftir og eigendum innlánsfjár sú trygging endurgreiðslu innstæðna sem þeim er nauðsynleg.

Í XII. kafla er mikilvægt nýmæli þar sem um er að ræða ákvæði um lánastofnun sparisjóðanna. Undangengið ár hafa sparisjóðirnir stóraukið samvinnu sín í milli. Breyttar aðstæður og aukin samkeppni hafa kallað á aukið samstarf. Forráðamenn sparisjóðanna hafa lengið talið það afgerandi forsendu fyrir samkeppnishæfni þeirra og möguleikum til að bregðast við breyttum starfsskilyrðum að skapaður verði vettvangur þar sem sameiginlega væri hægt að eiga við verkefni sem ella væri smærri staðbundnum stofnunum um megn að fást við. Þetta tekur jafnt til jöfnunar sveiflna í lausafjárstöðu sem geta komið fram á mismunandi tíma eftir því hvort stofnunin er rekin við sjávarsíðu eða til sveita og til möguleika sparisjóðanna að veita þjónustu á sviði gjaldeyrismála. Ort vaxandi tölvuvæðing, nauðsyn á sameiginlegri hagdeildarstarfsemi og aðgangur að lánasjóði, sem geri einstökum sparisjóðum kleift að taka að sér verkefni í þágu atvinnuveganna sem reynast einstökum sparisjóðum ofviða, eru nokkur þeirra verkefna sem væntanlegri lánastofnun sparisjóðanna er ætlað að stuðla að.

En síðast en ekki síst er lánastofnuninni ætlað að stuðla að hagræðingu í rekstri sparisjóðanna, hagræðingu sem felst í því að hafa möguleika til að leysa mál í sameiningu en þurfa ekki að leggja í fjárfestingu sem ella yrði nauðsynleg ef þeir þyrftu að leysa þessi mál hver fyrir sig. Með þessum hætti er unnt að finna lausn á vanda sparisjóða sem upp kemur með breyttum kröfum viðskiptamanna þeirra án þess að hróflað sé við sérstöðu þeirra með tilliti til staðbundinna viðhorfa á starfssvæði hvers einstaks sparisjóðs.

Skýrt skal tekið fram að lánastofnuninni verður ekki heimilt að hafa inn- og útlánsviðskipti við almenning. Hún mun því ekki leiða til þenstu í kerfinu heldur, þegar til lengri tíma er litið, stuðla að ódýrari og einfaldari lausn á framkvæmd margra þátta í þjónustu sparisjóðanna.

Í XIII. kafla eru ný ákvæði um slit sparisjóðanna. Tengjast þau um margt ákvæðum frv. um eigið fé. Ákvæðin hafa að geyma reglur um það hvernig með skuli fara ef eigið fé sparisjóðs fer undir það lágmark sem áskilið er og ekki tekst að bæta úr innan hæfilegs frests. Um mikla hagsmuni getur hér verið að ræða og er því brýnt að opinbert eftirlit sé með tilhögun slita. Af þessum sökum er farin sú leið að slit sparisjóðs eða skipti á búi hans verði í höndum skiptaréttar.

I XIV. kafla frv. eru ákvæði um samruna sparisjóða. Skv. ákvæðinu þarf leyfi ráðh. til samruna og er tilgangur þess tvíþættur. Annars vegar er verið að tryggja hagsmuni innstæðueigenda þeirra stofnana er renna saman. Hins vegar að koma í veg fyrir samruna sem óæskilegur er frá almannahagsmunum, t. d. vegna þess að hann dragi óeðlilega mikið úr samkeppni. Þá verður aðalreglan skv. ákvæðum þessa kafla sú að við samruna sameinist sparisjóður öðrum sparisjóði sé þess nokkur kostur.

XV. kafli hefur að geyma refsiákvæði og skýra ákvæði kaflans sig að mestu leyti sjálf.

XVI. kafli frv. hefur að geyma ýmis ákvæði og er þar helst að nefna ákvæði um skattalega meðferð stofnfjárinneignar í séreignarsjóði Tryggingarsjóðs og lánastofnunar, en varðandi hana er svo fyrir mælt að hún skuli skattlögð eftir lögum um skattskyldu innlánsstofnana nr. 65/1982 með síðari breytingum. Er þetta eðlilegt þar eð rekstur lánastofnunar verður svo samofinn rekstri sparisjóðanna sjálfra að óeðlilegt er annað en að sömu reglur gildi um skattskyldu þessara aðila.

XVII. og síðasti kafli frv. fjallar um gildistöku þess o. fl. Þar er mælt fyrir um þá meginreglu að frv. öðlist gildi sem lög frá Alþingi hinn 1. janúar 1986. Auk þess er að finna undanþágu frá nokkrum ákvæðum frv. sem ekki er talið fært að taki til starfandi sparisjóða. Þá eru ákvæði sem veita starfandi sparisjóðum frest til að koma eigin fé í það horf sem ákvæði frv. áskilja og enn fremur eru tilgreind þau lög sem falla eiga úr gildi við gildistöku frv. sem laga.

Með frv. fylgja ákvæði til bráðabirgða í þremur liðum og skýra þau sig að mestu sjálf.

Herra forseti. Ég hef nú yfirfarið flest meginatriði þess frv. sem hér liggur fyrir. Ég vænti þess að unnt sé að haga afgreiðslu frv. með þeim hætti sem ríkisstj. hefur lagt áherslu á. Af hálfu viðskrn. verður kappkostað að veita fjh.- og viðskn. beggja deilda þær upplýsingar sem óskað kann að verða eftir og þannig reynt að tryggja sem skjótasta meðferð. Á það skal aftur lögð áhersla að til grundvallar þessu frv. liggur mikið starf sem rekja má allt aftur til ársins 1972.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa þessi orð fleiri hér við kynningu þessa frv. en vil að lokum leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar og leyfi mér að mælast til þess að fjárhags- og viðskiptanefndir deildanna starfi saman til þess að unnt verði að koma þeim upplýsingum sem óskað er eftir til nm.