20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5402 í B-deild Alþingistíðinda. (4670)

493. mál, sparisjóðir

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil fagna því að hér er komið fram frv. um sparisjóði. Vissulega var orðið tímabært að endurskoða þau lög þó að eitt og annað í þessu frv. sé á þann veg að vekur vissa undrun. Það er t. d. dálítið athyglisvert að þegar er talað um hverjir eigi að vera umsagnaraðilar um það hvort stofna beri sparisjóð, þá eru það Seðlabankinn og Tryggingarsjóður sparisjóða sem eiga að veita umsögn.

Ég hygg að það ákvæði að ráðh. eigi að veita leyfi fyrir stofnun sparisjóðs hafi fullnægt ákveðnum skilyrðum, það sé í hæsta máta eðlilegt. En mér er ekki ljóst hvaða hagsmuni er verið að vernda ef fleiri aðilar koma þar inn sem umsagnaraðilar. Ég vil líka spyrja út í það alveg sérstaklega: Á hvaða forsendum eiga umsagnir Seðlabanka Íslands að vera? Eiga forsendurnar að vera þær að Útvegsbankinn, Landsbankinn, Verslunarbankinn eða Iðnaðarbankinn líti á þetta sem sitt svæði og hafi ekkert áhuga á því að þarna komi upp sparisjóður? Hverjar eiga forsendurnar að vera? Það fer ekki á milli mála þrátt fyrir allt að sparisjóðirnir annars vegar og ríkisbankarnir hins vegar eru hinar lýðræðislegustu af þeim stofnunum sem fjalla um fjármál. Mér er hreint ekki ljóst hvernig t. d. Tryggingarsjóður sparisjóða ætlar að fara að sjá það fyrir hvort það eigi að heimila stofnun einhvers ákveðins sparisjóðs eða ekki. Þeim kemur málið nákvæmlega ekkert við. Þeir hafa allt önnur verksvið. Það er eins og það eigi að fara að leggja einhvern fyrirfram dóm á það hvort lögin verða brotin, hvort þessir aðilar verði hæfir til að sinna þeim kvöðum sem þeir ætla að taka á sig.

Mér finnst að það sé nauðsyn að menn geri sér grein fyrir því að það hefur orðið ákaflega sérstæð þróun hér á landi varðandi aðstöðu fólks til lánastofnana. Þeir sem búa úti á landi og hafa þar sparisjóð geta yfirleitt treyst því sem einstaklingar að gagnvart persónulegum þörfum, eins og t. d. því að eignast íbúðarhús, muni þeir fá meiri fyrirgreiðslu í gegnum sparisjóðinn en ef þeir eiga viðskipti við banka. Aftur á móti má gera ráð fyrir því að þegar kemur að fyrirtækjum snúist þetta við. Sum svæði sitja uppi með það að sparisjóðurinn sameinaðist á sínum tíma banka og bankinn er búinn að starfa þar lengi, hann þjónar miklu stærra svæði atvinnulega séð en sveltir meira og minna sitt nánasta umhverfi í fyrirgreiðslu til fólksins. Ágætt dæmi um þetta er staða mála á Vestfjörðum. Þar er Ísafjörður búinn að vera í þeirri úlfakreppu að þau tvö útibú, sem þar eru, þurfa að lána út um alla Vestfirði afurðalán til atvinnuveganna. Þegar vel veiðist á þessu svæði, miklar birgðir af fiski eru í húsunum, hefur afleiðingin orðið sú að víðbótarlánin, sem bankarnir hafa lánað, hafa þrengt svo lausafjárstöðu útibúanna að þegar kemur að því að hinn almenni maður leitar eftir lánum er honum góðfúslega bent á að það sé ekki staða hjá útibúinu í dag til að verða við hans ósk. Nú sé ég að ágætur bankaráðsmaður hlustar mjög gaumgæfilega því að þetta eru tíðindi sem koma að gagni og eru umhugsunarefni. Það virðist heldur ekki vera óalgengt að það gerist á öðrum stöðum, eins og t. d. í Vestmannaeyjum, að sparisjóðurinn fær mjög mikið af innlánsfénu en bankaútibú Útvegsbankans fjármagnar aftur á móti atvinnulífið að miklu leyti.

Í þeirri umr. sem farið hefur fram um bankana fram og til baka hefur stundum verið lagt til að afurðalánin komi úr Seðlabankanum. Nú virðist sem menn hafi tekið það upp sem einhvern heilagan sannleika að bankarnir sjálfir skuli sjá um afurðalánin. Ég man ekki betur en þessi kenning um að þau ættu að koma frá Seðlabankanum væru frá dögum viðreisnar og þeirra efnahagsráðgjafar hafi lagt á þetta höfuðáherslu. Ég minnist þess að þegar bindiskyldan var sett neitaði einn ágætur sparisjóðsstjóri á Vestfjörðum, harður sjálfstæðismaður, að króna úr sínum sparisjóði skyldi fara inn í Seðlabankann. Ég er ekki viss nema honum hafi liðist þetta því að maðurinn var nokkuð sérstæður og ekki gefinn fyrir það að gefa hlut sinn og hótaði ófriði ef þetta yrði ekki virt.

Ég óttast það mjög að ef þessi mikla mismunun, sem átt hefur sér stað gagnvart almenningi í aðstöðu til venjulegra lána, verður látin viðgangast í landinu muni það leiða til þess að mjög grimm ásókn verður í það að stofna sparisjóði, enda eðlilegt eins og að málum er staðið að menn geri það. Þá hlýtur það að koma inn í þessa heildarskoðun hvort það sé þá eðlilegt, ef menn fullnægja vissum skilyrðum, eru reiðubúnir að fullnægja lögunum eins og þau eru sett upp, að þeir fái að stofna sparisjóðina. Hvers vegna á að koma í veg fyrir það? Af því að Seðlabankinn telur að það sé vitlaust að stofnaður sé sparisjóður t. d. á Ísafirði? Á þá að segja nei? Eða af því að Tryggingarsjóður sparisjóða telur að mönnum á Ísafirði sé ekki treystandi til að bera ábyrgð á sparisjóði? Á þá að segja nei? Hver eru rökin fyrir því að þessir aðilar verði þarna umsagnaraðilar? Er það bara eitthvað sem er úthugsað af kerfinu til þess að auðvelda ráðh. að geta sagt nei þar sem umsagnir hafa verið neikvæðar um málið, það sé miklu auðveldara að segja nei undir slíkum kringumstæðum? Og hvernig stendur á því að í nafni þessa mikla frelsis, sem nú gengur yfir þjóðina og frjálshyggjumenn boða að sé af hinu góða, þarf að hafa þessi fjandans höft á þessum hlutum? Hver eru rökin fyrir því? Er þetta kannske í algerri andstöðu við stefnu Sjálfstfl. á landsfundinum að þessi ákvæði eru höfð á þennan veg að Seðlabankinn og þessi Tryggingarsjóður sparisjóða á að hafa þetta vald?

Þegar kemur að 6. gr. er talað um að stofnfé sparisjóðs eigi að vera 3 millj. En ráðh. er heimilt að víkja frá þessu bæði til hækkunar eða lækkunar þegar sérstaklega stendur á að hans mati. Þetta þýðir á mæltu máli að ráðh. ræður því einn hvert stofnféð á að vera. Til hvers eru menn að setja lög um að ráðh. ráði þessu einn? Af hverju geta menn ekki gengið frá þessu í lögum? Það hefði verið hægt að stytta greinina ef tilgangurinn er sá að hann eigi að ráða þessu einn? Þá stæði bara einfaldlega: Ráðh. ræður hvert stofnféð sé. Punktur. Svo er það búið mál.

Það heyrist eitthvað í stýrimanninum, hv. 12. þm. Reykv., en það er nú svo óglöggt að það kemst ekki hingað upp. (Gripið fram í.) Ég vænti þess að hann tjái sig um þetta mál og geri grein fyrir sinni afstöðu. Mér finnst að framkvæmdavaldið eigi að sitja uppi með ákveðinn texta í þessu efni. Það getur ákveðið að það skuli vera 3 millj. og það getur ákveðið að breytist verðlag þá hækki sú upphæð. En að þetta eigi að vera eitthvert atriði sem er afgreitt í góðra vina hópi í kosningaslag eða einhverju slíku, hvort tryggingarféð hjá sparisjóði eigi að vera 1 millj. eða 3 eða 10 til að koma í veg fyrir að hann verði stofnaður, svoleiðis aðskot á ekkert erindi inn í lög, það er fráleit lagasmíð.

Ég set einnig spurningarmerki mikið við ákvæði hér, sem kemur í 71. gr. Þar stendur, með leyfi forseta: „Sparisjóðir, sem stofnaðir eru fyrir gildistöku laga þessara, og sparisjóðir, sem stofnaðir verða með samruna þessara sjóða, skulu koma eigin fé í það horf sem áskilið er skv. 40. gr. innan fimm ára frá gildistöku laga þessara.“ Þegar maður fer að lesa skýringarnar til þess að fá það upplýst hversu margir sparisjóðir þyrftu væntanlega að fara að breyta sinni stöðu kemur þessi klassíska skýring: „Grein þessi þarfnast ekki sérstakra skýringa.“

Það kemur ekki fram hvort það þurfi að breyta eiginfjárstöðu allra sparisjóða í landinu, hvort það sé 1/4 af þeim, 2 eða 3 sem þurfi að aðlaga sig eða hvað raunverulega er um að ræða. Mér finnst að það sé dálítið billega farið með aðalatriði ef ekkert tillit er tekið til þess hvort sjóðirnir haldi velli. Ég óska eindregið eftir að ráðh. geri grein fyrir því í ræðu hér á eftir hversu margir sparisjóðir í dag standast ekki þær kröfur sem þarna er verið að tala um og hversu margir sparisjóðir að hans mati geta þá e. t. v. ekki aðlagað sína eiginfjárstöðu að þeim kröfum sem hér eru settar fram. Er það sanngjarnt að Alþingi Íslendinga fari að samþykkja ákvæði um þetta án þess að hafa hugmynd um það hvort þeir séu að taka ákvarðanir um að leggja niður sparisjóði?

Ég vil taka það fram að ég tel sparisjóðina ákaflega merkar lánastofnanir og ég vil þakka fyrir þær sögulegu upplýsingar sem hér koma fram um starfsemi þeirra. En ég vil hvetja til þess að menn sýni víðsýni varðandi stofnun sparisjóða og að lögin verði sem fortakslausust og það verði sem minnst af heimildum þar sem ráðherrum er ætlað að framkvæma lögin eftir geðþótta í þessum lögum.