20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5405 í B-deild Alþingistíðinda. (4671)

493. mál, sparisjóðir

Einar Kr. Guðfinnsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram hefur komið, að hér er á ferðinni ákaflega mikilvægt og nauðsynlegt frv. um starfsemi sparisjóða í landinu. Það er nauðsynlegt m. a. vegna þess að bankalöggjöf okkar hefur tekið miklum breytingum á síðustu misserum og árum og þar af leiðandi er það mjög mikilvægt fyrir stöðu og sjálfstæði sparisjóðanna að þannig sé að þeim búið, a. m. k. lagalega séð, að þeir geti starfað með eðlilegum hætti í eðlilegri samkeppni við aðrar innláns- og útlánsstofnanir í landinu.

Sparisjóðir eru ákaflega mikilvægar stofnanir, ekki bara fyrir bankakerfið og þjóðina í heild heldur ekki síður fyrir hinar dreifðu byggðir í landinu. Sannleikurinn er sá að fjármagnsfyrirgreiðsla í mörgum dreifðum héruðum vítt og breitt um landið stendur nánast og fellur með því hvernig sparisjóðirnir í viðkomandi héruðum eru í stakk búnir til að veita slíka fyrirgreiðslu. Fólk í hinum dreifðu byggðum á oft og tíðum óhægt með að fara suður á land til að sækja þá nauðsynlegu fjármagnsfyrirgreiðslu sem er forsenda fyrir því að hægt sé t. d. að leggja út í nýjan atvinnurekstur. Sparisjóðirnir hafa líka verið mjög mikilvægur liður í fjármögnun á íbúðarhúsnæði fyrir fólk á landsbyggðinni. Ég held að í rauninni hafi sparisjóðirnir að þessu leytinu gegnt veigameira hlutverki í sínum heimabyggðum en venjulegar bankastofnanir gegna hér í þéttbýlinu því að oft og tíðum er það þannig að sparisjóðirnir hafa fyrst og fremst beint kröftum sínum að þessu tvennu: að því að ýta undir atvinnuuppbyggingu í viðkomandi héruðum og enn fremur hinu að aðstoða unga húsbyggjendur og húskaupendur í því að koma sér þaki yfir höfuðið. Ég er hræddur um að fátæklegt væri um að litast víða í sveitum og bæjum landsins ef ekki nyti góðra og sterkra og öflugra sparisjóða sem þar hafa verið staðsettir um langt árabil.

Það er að vísu dálítið áhyggjuefni að líta á þær tölur sem fram koma í fskj. þessa frv. þar sem fram kemur að á síðustu 25–30 árum hefur orðið geigvænleg fækkun á sparisjóðum í landinu, en þó er hitt ekki síður ánægjulegt að á sama tíma hefur þeim sparisjóðum sem fyrir eru tekist að efla svo stöðu sína að þeir hafa á síðustu árum haldið sínu í samkeppni við bankana í landinu. Hv. 3. þm. Reykv. hafði af því nokkrar áhyggjur að sparisjóðirnir mundu glata stöðu sinni nú við hina nýju bankalöggjöf í samkeppni við aðrar innláns- og útlánsstofnanir í landinu. Ég hygg að þessar áhyggjur hans séu óþarfar og ég tel að viðbrögð sparisjóðanna vítt og breitt um landið á síðustu mánuðum hafi einmitt sýnt það og sannað að sparisjóðirnir eru allra stofnana líklegastir til þess að standast þá samkeppni, sem nú á sér stað í bankakerfinu, og muni raunar eflast við þá samkeppni. Ég hygg að ef glöggt er skoðað hafi komið í ljós einmitt á síðustu mánuðum að sparisjóðirnir hafi fremur eflt stöðu sína en hitt við þá breytingu sem átt hefur sér stað á bankalöggjöfinni og vaxtaákvörðunum í þjóðfélaginu. Sannleikurinn er sá, og það kemur einmitt fram í 25. gr. þessa frv., að sparisjóðunum er gert kleift að hafa samráð sín á milli, m. a. um vaxtaákvarðanir og þar fram eftir götunum. Að þessu leytinu standa sparisjóðirnir betur en aðrar innláns- og útlánsstofnanir í landinu sem er óheimilt að hafa slíkt samráð sín á milli. Vegna sérstöðu sparisjóðanna er eðlilegt að þetta samráð sé þeim leyfilegt. Sparisjóðirnir eru alla jafna staðbundnar stofnanir og því er ekki úr vegi að þeim sé heimilað að hafa samráð sín á milli. Þetta gerir það líka að verkum að kostnaður á hvern sparisjóð við undirbúning vaxtaákvarðana, sem oft og tíðum eru flóknar, verður minni og þar af leiðandi ættu sparisjóðirnir að vera betur í stakk búnir til þess að takast á við þau verkefni sem þeim er ætlað að glíma við.

Ég held að eitt af mikilvægustu ákvæðum þessa nýja frv. sé ákvæðið um stofnféð og hvernig því skuli háttað. Með þessu ákvæði er í rauninni verið að leggja drögin að því að efla stöðu sparisjóðanna, auka eigið fé þeirra og gera þá þar af leiðandi sjálfstæðari og sterkari til átaka fyrir framtíðina. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, 5. þm. Vestf., hafði af því nokkrar áhyggjur að þetta lagaákvæði og þetta frumvarpsákvæði væri fullrúmt þar sem ráðh. væri gefin heimild til að lækka eða hækka þetta stofnfjártillegg. Í rauninni held ég að ekki sé ástæða til þess að hafa mikinn beyg af þessu. Eins og fram kemur í aths. með þessu frv. er ástæðan fyrir því að þetta er þannig sú, að sparisjóðir hafa einmitt starfað mjög mikið í hinum smærri hreppum, hafa oft og tíðum verið litlar stofnanir og í slíkum tilvikum er kannske ekki alltaf ástæða til að gera mjög strangar eiginfjárkröfur. Á hitt er þó að líta að það er mjög varasamt og þess vegna ágæt ábending hjá hv. 5. þm. Vestf. að gera ekki nægjanlegar kröfur um eigið fé eða stofnfé sparisjóða og þess vegna held ég að væri til athugunar fyrir hv. fjh.- og viðskn., sem mun fá þetta frv. til meðferðar, að jafnframt því að ráðh. sé heimilað að hækka eða lækka þetta stofnfjártillegg sé jafnframt gerð einhver lágmarkskrafa sem ráðh. sé ekki heimilað að víkja frá. Með því móti ætti það að vera tryggt í fyrsta lagi að hægt sé að stofna til sparisjóða í fámennari héruðum, en jafnframt að þeir sparisjóðir verði ekki svo veikir að þeir verði til lítils megnugir. Ég held að með því að fara þessa leið sé hægt að sneiða fram hjá þeim vanköntum sem hv. 5. þm. Vestf. benti á, en einnig gera að verkum að minni sparisjóðir geti starfað í landinu. Ég held að það væri ákaflega slæm þróun og hvorki sparisjóðunum né hinum dreifðu byggðum til framdráttar ef það gerðist að hinir minni sparisjóðir legðust niður eða sameinuðust bönkum eða öðrum stærri sparisjóðum. Ég álít því að það sé ákaflega mikilvægt að þessar peningastofnanir geti starfað hlið við hlið.