20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5408 í B-deild Alþingistíðinda. (4674)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Með efnahagsráðstöfun ríkisstj. í maí 1983 var bann lagt við vísitölutengingu launa, þ. e. bann lagt við hvers konar verðbótum á laun. Einnig var því þá lýst yfir af hálfu stjórnarflokkanna og kemur það fram í stjórnarsáttmála að samráð yrði haft við aðila vinnumarkaðarins áður en slíkt bann yrði hugsanlega framlengt eða aðrar ákvarðanir teknar í því sambandi. Það samráð hefur verið haft. Viðræður hafa átt sér stað, bæði við fulltrúa ASÍ, við formann BSRB og við vinnuveitendur. Fulltrúar launþega hafa lagt á það ríka áherslu í þessum viðræðum að umrætt bann yrði ekki framlengt. Þeim var þá boðið að gildandi ákvæði um verðbætur á laun yrðu felld úr lögum. Það töldu þeir ásættanlegt og er þetta frv. flutt til að standa við það loforð.

Með þessu frv. er m. ö. o. felldur niður sá kafli efnahagslaganna frá 1979 sem fjallar um verðbætur á laun, þ. e. 48.–52. gr., og sömuleiðis hvers konar ákvæði kjarasamninga sem byggja á þeim lagaákvæðum.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa um þetta langt mál. Þó vil ég leggja á það áherslu að þótt ríkisstj. hafi fallist á að fella úr lögum umrædd ákvæði um verðbætur og láta þar við standa er það yfirlýst stefna ríkisstj. og stjórnarflokkanna að verðbætur á laun eins og þær voru væru hið mesta glapræði og reyndar hefur því verið lýst yfir hvað eftir annað af hálfu talsmanna stjórnarflokkanna að fara þurfi mjög varlega í alla tengingu launa og verðlags. Þetta vil ég endurtaka og vek athygli á því að við Íslendingar höfum fengið þá reynslu af slíku að ekki boðar gott. Hitt er svo annað mál að við leggjum áherslu á frjálsa samninga eins og kallað er, leggjum áherslu á að samningar um kaup og kjör eru í höndum vinnuveitenda og launþega. Með þessu frv. er á það fallist að einnig geti þessir aðilar fjallað um verðlag í tengslum við launasamninga. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.