20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5409 í B-deild Alþingistíðinda. (4675)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Efnisatriði þessa frv. er í sjálfu sér einfalt. Það er um það að fella úr gildi vísitöluákvæði Ólafslaga og þar með heimila aðilum vinnumarkaðarins á ný að semja um kaup og kjör eftir þeim niðurstöðum sem eðlilegar teljast á milli þeirra. Þar með er í raun og veru lokið öðrum kaflanum í aðalstefnu ríkisstj. í kjaramálum.

Í fyrsta lagi ákvað ríkisstj. að banna kjarasamninga. Það var gert með brbl. sem aldrei voru staðfest á Alþingi. Ríkisstj. heyktist á því að láta staðfesta það ákvæði hér á Alþingi og bannið við kjarasamningum kom aldrei til atkvæða haustið 1983. Þar hopaði ríkisstj. fyrir verkalýðshreyfingunni, en í gildi var áfram lagaákvæði sem bannaði vísitölugreiðslur á laun. M. ö. o.: það hefur verið um að ræða takmarkaðan samningsrétt, takmarkað samningsfrelsi verkalýðshreyfingarinnar frá árinu 1983 og allt til þessa dags eða um það leyti sem ríkisstj. er tveggja ára.

Með þessu frv. lýkur öðrum kaflanum í kjaramálastefnu ríkisstj. Hún gefur eftir fyrir kröfum verkalýðshreyfingarinnar. Hún gefst upp á því að hafa vísitölubannið í lögum. Hún opnar fyrir það að unnt sé að semja um kaup og kjör á almennum vinnumarkaði með eðlilegum hætti. Þessari uppgjöf ríkisstj. hljótum við sérstaklega að fagna sem höfum gagnrýnt þær samningstakmarkanir sem hafa verið í lögum.

Þriðji þátturinn er hins vegar óunninn af launamálastefnu ríkisstj. og það er að reka láglaunastefnuna á flótta. Það er það verkefni sem er brýnast núna í íslenskum stjórnmálum, að mínu mati, eftir að ríkisstj. hefur í rauninni með þessum tveimur ákvörðunum varðandi bann við samningum og bann við vísitölu viðurkennt tilteknar staðreyndir og ekki þorað annað en taka tillit til verkalýðssamtakanna í landinu — þeir sem töldu kjaraskerðingu óhjákvæmilega vorið 1983 og gerðu það á þeim grundvelli að það hafi verið nauðsynlegt til að lækka verðbólgu og tryggja jöfnuð í viðskiptum við útlönd. Það voru tvær aðalröksemdirnar fyrir kjaraskerðingunni á árinu 1983. Launahækkanir eru skv. þessum kokkabókum megindriffjöður verðbólgunnar og þess vegna höfuðatriði að koma í veg fyrir launahækkanir af hvaða tagi sem er. Lækkun raunlauna hefur hins vegar í för með sér minni tekjur almennings sem þar af leiðandi getur veitt sér minna. Eftirspurn almennings eftir neysluvörum minnkar og þar með dregur líka úr eftirspurn eftir innfluttum neysluvörum. Innflutningur minnkar og viðskiptahallinn verður minni. Þetta er sú röksemdafærsla sem höfð er uppi af talsmönnum þessarar efnahagsráðstöfunar frá árinu 1983.

Hins vegar er ljóst að reynslan hefur nú sýnt að lækkun kaupmáttar launa ein sér dregur ekki úr innflutningseftirspurn nema í mjög takmörkuðum mæli. Ástæðan er sú að kjaraskerðingin felur í sér tekjutilfærslu til fjármagnseigenda og þeirra sem hærri launin hafa sem hafa ótal leiðir til að bæta sér upp skerðingar kaupmáttar kauptaxta. Það bendir reyndar allt til þess að þessir hópar hafi tilhneigingu til þess að eyða stærri hluta viðbótartekna sinna í innflutning en láglaunahóparnir og þar af leiðandi hafi þessi tilflutningur á fjármunum í för með sér áframhaldandi viðskiptahalla. Þess vegna er önnur meginröksemdin fyrir láglaunastefnunni fallin út frá þessu kalda, efnahagslega sjónarmiði séð, burtséð frá hinum félagslegu afleiðingum láglaunastefnunnar sem oft hafa verið ræddar hér og ég ætla ekki að ítreka hér að sinni.

Ég held að nauðsynlegt sé að átta sig á því að vegna þess að kjaraskerðingarstefnan felur í sér tilfærslu til hálaunahópa, sem höfðu mikið fyrir, þá hefur hún ekki í för með sér að úr viðskiptahalla dregur eins og var látið í veðri vaka á árinu 1983. Það sem er hins vegar ekki síður alvarlegt við kjaraskerðingarstefnu ríkisstj. og það sem ég kalla láglaunastefnu er það að þessi stefna, sem rekin er til langframa, hefur hættuleg áhrif á þjóðarframleiðslu og hagvöxt. Það er ljóst að kjaraskerðingin eykur að öðru jöfnu á þau fjárfestingarvandamál sem við er að stríða í íslensku efnahagslífi. Þegar hagnaður eykst vegna kjaraskerðingarinnar í þeim greinum sem hafa tilhneigingu til offjárfestingar er hætta á að honum verði sólundað í enn meiri offjárfestingu og þannig aukið við þau vandamál sem yfirlýst var að reyna átti að leysa í upphafi. Einnig veldur kjaraskerðingin því að stofnsett eru ný fyrirtæki sem miða við það að launin haldist á því lága stigi sem þau eru nú og eldri fyrirtæki fjárfesta í tækni og framleiðslutækjum sem líka miða við hin lágu laun.

Haldist launin þetta lengi eins langt niðri og raun ber vitni um núna mun kjaraskerðingin í rauninni enda í vítahring. Það gerist með tvennum hætti: Í fyrsta lagi aðlagast framleiðslustarfsemin að hinum lágu launum og í öðru lagi aðlagar fólk sig smám saman að hinum lágu launum í neyslukröfum sínum og neyslusamsetningu. Afleiðingar láglaunastefnunnar verða þess vegna minni þjóðartekjur á vinnandi mann og minni hagvöxtur til frambúðar. Þess vegna held ég að það sé ljóst, ef þessir hlutir eru skoðaðir út frá efnahagslegum rökum einum, að þessi láglaunastefna skapar hér pólitískan og efnahagslegan vítahring. Hún flytur til fjármuni til þeirra sem eyða meiru í innflutning. Hún flytur til fjármuni til fyrirtækja sem hafa tilhneigingu til að offjárfesta. Hún flytur til fjármuni með þeim hætti að ný fyrirtæki, sem stofnuð eru, eru helst stofnuð í greinum þar sem lág laun eru greidd vegna þess að þar er hagnaðarvon mest. Og þetta hefur auðvitað í för með sér vítahring, skapar vanda og dregur úr hagvexti þegar fram í sækir. Þetta grundvallaratriði held ég að við verðum að hafa í huga.

Við umræður fyrir nokkrum dögum um efnahagsmál rakti ég nokkrar tölur um þjóðarframleiðslu á vinnandi mann á Íslandi og í ýmsum öðrum löndum og einnig tölur um laun á unna vinnustund. Þessar tölur er fróðlegt að rifja hér upp. Ef við gerum ráð fyrir því að laun á unna vinnustund á árinu 1983, á öllu því ári, hafi verið 100, þá eru þau í Bandaríkjunum 190.5, í Kanada 196, í Finnlandi 115, í Svíþjóð 149.6, í Bretlandi 108.6, í Frakklandi 103.8, á Ítalíu 121.6 og Japan 169.8. Ég held að þessar staðreyndir segi okkur ákveðna sögu. Ég held að þær segi okkur líka þá sögu að ef við ætlum að halda hér uppi eðlilegri þjóðfélagslegri þróun, halda hér uppi lífvænlegu samfélagi höfum við ekki efni á láglaunastefnunni, bæði séð frá sjónarmiðum heimilanna og líka frá sjónarmiðum heildarstjórnarinnar í efnahagsmálum.

En núverandi ríkisstj. hefur eins og allar ríkisstjórnir haft ráðgjafa í efnahagsmálum sem hafa leiðbeint henni. Það er rétt að lokum að benda á nýlegar upplýsingar um hvernig þessar ábendingar og ráðgjöf hafa reynst. Í ársskýrslu Vinnuveitendasambands Íslands kemur fram fróðleg tafla um þjóðarbúskapinn árið 1984, annars vegar það sem þjóðhagsáætlun spáði og hins vegar það sem kom í ljós. Þetta er í rauninni ein fróðlegasta samantekt á vinnubrögðum Þjóðhagsstofnunar sem ég hef séð og á Vinnuveitendasambandið þakkir skildar fyrir að hafa sett þetta á blað.

Ég ætla að rekja hér nokkrar tölur. Þjóðhagsstofnun spáði fyrir árið 1984 4% samdrætti í einkaneyslu. Raunin varð aukning heildareinkaneyslu um 3%. Munurinn er 7%. Þjóðhagsstofnun spáði samdrætti fjármunamyndunar um 5.5%. Niðurstaðan varð + 6.9%. Munurinn er m. ö. o. 12–13%. Þjóðhagsstofnun spáði því að þjóðarútgjöld mundu dragast saman um 4.3% á árinu 1984. Útkoman varð sú að þjóðarútgjöld jukust um 6.3%. Munurinn er 10.5%. Þjóðhagsstofnun spáði því að verg þjóðarframleiðsla mundi minnka um 2.4% á árinu 1984. Útkoman varð aukning þjóðarframleiðslunnar um 2.7%. Munurinn var 5.1%. Síðan var því spáð að viðskiptajöfnuður yrði óhagstæður eða hallinn yrði 0.2% af þjóðarframleiðslu. Niðurstaðan varð 6%. Þetta finnst mér lýsa ákaflega vel þeim stjórntækjum sem stjórnvöld hafa við að styðjast í efnahagsmálum. Upplýsingar frá rannsóknarstofnunum eru veikar. Þær eru ekki traustvekjandi. Það væri raunar fróðlegt að Alþingi eða Þjóðhagsstofnun tæki saman yfirlit um það um næstu tíu ár eða svo hvernig þessi þróun hefur verið, hverju hefur verið spáð og hver hefur orðið útkoman. Ég hygg að reynslan sé sú að þessar sérfræðistofnanir hafi tilhneigingu til þess að spá alltaf í neðri kantinum, vera mjög svartsýnar og þegar um er að ræða ríkisstjórn eins og þá sem nú situr hefur hún tilhneigingu til þess að taka þessar spár sem heilagan sannleika og nota þær ævinlega til að keyra kaupið í landinu niður meira en efni standa til miðað við breytingar á þjóðarframleiðslu og verðmætasköpun í landinu.

Herra forseti. Ég vek athygli á því að það er kominn 20. maí og þetta frv. þarf að afgreiða fyrir mánaðamót, annars mælast vísitölubætur núna 1. júní. Það er auðvitað alveg ótrúlegur slappleiki af ríkisstj., en bara dæmi um annað hjá henni, að hún skuli ekki hafa getað komið fyrr frá sér þessu frv. upp á tvær línur. Hvað á nú þetta eiginlega að þýða? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um hvað menn eru að gaufa með tveggja línu texta á milli sín í stjórnarráðinu vikum saman og leggja þetta svo fram loksins tíu dögum áður en þetta verður að taka gildi ef það á að vera brúklegt. Ég vil lýsa því yfir fyrir hönd míns flokks að við erum tilbúin að stuðla að því að málið fái skjótan framgang.