20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5418 í B-deild Alþingistíðinda. (4679)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka hér til máls aftur fyrr en hv. 1. þm. Suðurl. fór að ýta undir áframhaldandi umr. Það er bersýnilegt að stjórnarliðið telur að það sé nógur tími til að hafa hér eldhúsdag um efnahagsmálin og það er þá rétt að taka því og hafa almennar umræður um þróun efnahagsmálanna.

Ég vil þá í upphafi máls míns leyfa mér að víkja aðeins að ræðu hv. 5. þm. Reykv. Hann áréttar andstöðu sína við gamla vísitölukerfið, eins og hann orðar það. Hann segir að það hafi ekki tryggt kaupmátt launa. Spurningin, sem ég vil þá gjarnan að hv. 5. þm. Reykv. svari í þessari umr. eða síðar þegar málið kemur til meðferðar, er þessi: Er Alþfl. þá á móti verðtryggingu launa? Er Alþfl. á móti því að verkalýðshreyfingin nái samningum um verðtryggingu launa eða er Alþfl. tilbúinn að stuðla að því fyrir sitt leyti, er það hans stefna, að það náist samningar um verðtryggingu launa og dýrtíðaruppbætur fyrir launafólkið í landinu? Ég held að það sé mjög mikilvægt að stjórnarandstöðuflokkur eins og Alþfl. með tengsl í verkalýðshreyfinguna tali skýrt í þessu máli, alveg afdráttarlaust. Ég tel að hv. 5. þm. Reykv. hafi ekki talað skýrt í þessu máli áðan og ég óska eftir því að hann geri grein fyrir sínum sjónarmiðum í þessu efni.

Ég er þeirrar skoðunar að verðtryggingu launa með einhverjum hætti verði að taka upp. Í þeim efnum má notast við ýmsar aðferðir. Ein getur verið sú að setja tilteknar reglur um að verðlag megi ekki hreyfast nema upp að ákveðnu marki og það sem er umfram það verði bætt með sjálfvirkum kaupbreytingum. Það geta verið kaupbreytingar í prósentum og það geta verið kaupbreytingar í krónutölu eftir atvikum. Önnur leið í þessu efni er sú að vera með svipað verðbótakerfi á laun og við vorum með um langt árabil og það má líka hugsa sér ýmis afbrigði af því kerfi. Þriðja leiðin er sú, ef stjórnvöld vilja ekki sætta sig við að verkalýðshreyfingin í landinu fái samninga um dýrtíðaruppbætur, að samið verði til skamms tíma í senn vegna þess að menn treysti ekki þeim samningum sem gerðir eru af ótta við það að verð vaði upp úr öllu valdi og kaupmátturinn verði etinn upp jafnharðan. Þá eru menn komnir að þeirri niðurstöðu, sem viðreisnarstjórnin komst að á sínum tíma, að með þessari aðferð er ekki tryggður viðunandi vinnufriður hér á landi. Það voru gerðir stuttir samningar aftur og aftur, 1961, 1962 og 1963, og það var ekki fyrr en með júnísamkomulaginu 1963 að það varð niðurstaðan að viðreisnarstjórnin hvarf frá banni sínu við vísitölubótum á laun vegna þess að það kerfi sem hafði verið í gildi þýddi ófrið og ágreining á vinnumarkaðinum, stöðuga stutta samninga og þau vandamál sem því fylgja. Þess vegna er það alveg ljóst að ríkisstj. sem setur sig upp á móti einhvers konar dýrtíðaruppbótum á laun er ekki að stuðla að friði á vinnumarkaði heldur ófriði.

Hv. 1. þm. Suðurl. hefur talað um það mikið oftar en allir aðrir menn hér á hv. Alþingi og sennilega í sögunni samanlagt að það þurfi að stuðla að þjóðarsátt. Staðreyndin er sú að hann ber ábyrgð á ríkisstjórn sem er einhver argasta sundrungarstjórn sem þessi þjóð hefur haft og er þá langt til jafnað. Það sést m. a. á tölum um vinnudeilur á árinu 1983 og sérstaklega á árinu 1984 þar sem um það er að ræða að verkafólk neyddist til þess hvað eftir annað að grípa til aðgerða til að verja sinn kaupmátt, til að sækja laun og launabætur vegna þess hvað hallað hafði á verkalýðshreyfinguna í samskiptum við núverandi ríkisstj. og efnahagsstefnu hennar. Ef eitthvað hefur stuðlað að ósáttum og sundrung í þessu samfélagi er það stefna ríkisstj. Þess vegna eru þessi ræðuhöld hv. 1. þm. Suðurl. um þjóðarsátt alltaf og ævinlega sennilega mælt vegna þess að hann hefur slæma samvisku og veit hvaða afleiðingar stefna hans og ríkisstj. hefur haft í þessum efnum.

Ég held að nauðsynlegt sé, vegna þess hvernig hann setti málin upp áðan, að ræða nokkuð um efnahagsaðgerðirnar vorið 1983. Auðvitað var ljóst að efnahagsaðgerðir ríkisstj. 1982 höfðu í för með sér samdrátt í kaupmætti. Auðvitað voru aðgerðirnar gerðar vegna þess að kaupmáttur launa hafði lækkað og þjóðarframleiðsla hafði minnkað. En spurningin var þá um það: Átti að halda áfram og lækka kaupmátt lægstu launa meira en nam falli þjóðarframleiðslunnar? Það er það sem skilur á milli feigs og ófeigs í þessu efni. Yfirlýstur tilgangur efnahagsaðgerða ríkisstj. vorið 1983 var í fyrsta lagi sá að draga úr viðskiptahalla og þar með erlendum skuldum og í öðru lagi að koma skikki á efnahagskerfið að öðru leyti, m. a. að hafa ríkissjóð hallalausan. Það er eitt af stefnumálum ríkisstj. Það þykir reyndar hlægilegt nú til dags, en þeir sem nenna að lesa stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, sem var gefinn út í fölgrænu kveri hérna fyrir nokkru, sjá að þar kemur fram að það er eitt af stefnumiðum ríkisstj. að hafa ríkissjóð í jafnvægi. Og hver er svo niðurstaðan: Hafa aðgerðir ríkisstj. leitt til jafnvægis í hagkerfinu? Er jafnvægi í íslenska hagkerfinu?

Í fyrsta lagi er ljóst að það er ekki jafnvægi á alþýðuheimilunum í landinu um þessar mundir. Þar er halli. Þar er viðskiptahalli. Kaupmáttur launa hefur aldrei verið verri en núna og staðan er þannig að fólk getur hvorki byggt né borgað skuldir, eins og ítrekaðar umræður um húsnæðismál hafa sýnt hér á hv. Alþingi. Út á við er staðan svo þannig að efnahagsstefna ríkisstj., láglaunastefnan, hefur haft í för með sér aukinn viðskiptahalla vegna þess að þeir peningar sem hafa verið teknir af láglaunafólkinu og fluttir til hálaunamanna og fyrirtækja í þjóðfélaginu hafa verið notaðir til að auka innflutning. Þess vegna hefur stefna ríkisstj., láglauna- og lágtaxtastefnan, ýtt undir aukinn viðskiptahalla, enda liggur það fyrir að viðskiptahallinn hefur orðið margfaldur á við það sem gert var ráð fyrir vorið 1983 þegar ríkisstj. tók við. Þannig rekur sig hvað á annars horn í þessum efnum.

Afleiðing af vaxandi viðskiptahalla er svo hækkandi erlendar skuldir. Það er verið að ganga á gjaldeyrisforða okkar, ríkissjóður er rekinn með halla á erlendum lántökum og húsnæðislánakerfið er afvelta eins og menn þekkja og það er verið að taka erlend lán til þess að lána húsbyggjendum þessa dagana. Þetta er allt sem ríkisstj. hefur til þess að hreykja sér af, hinir miklu snillingar í efnahagsmálum, hv. 1. þm. Suðurl. og hæstv. forsrh. Þetta er nú afrekið! Ríkissjóður er, eins og hann stendur, á hausnum, viðskiptahallinn stórfelldur, erlendar skuldir hærri en nokkru sinni fyrr á sama tíma og kauptaxtarnir eru eins illa staddir og allir þekkja að kaupmætti til. Hæstv. forsrh. sagði í Jórdaníu: Þetta vandamál er leyst. En verðbólgudraugurinn, sem átti að kveða niður, rýkur hér upp úr stakkstæðinu aftur og aftur. Það er sama hvað menn reyna að berja þar á móti.

Það má ekki hækka kaupið um svo sem 5% eða 7%, þá er hagkerfið þannig á sig komið hjá þessari ríkisstj. að hún reiknar það óðar út sjálf að verðbólgan fari upp um 5 eða 6 eða 7% — út á örlitlar tilfærslur í kaupi. Þetta eru afrekin. Þetta eru nú afrekin á tveggja ára afmæli ríkisstj. sem stendur fyrir dyrum næstu dagana. Ríkissjóður, þjóðarbúið út á við og heimilin eru á hausnum. Það er staðan. Og framleiðsluatvinnuvegirnir standa þannig, eins og þekkist af umræðum að undanförnu, að það hefur orðið verulegur fjármagnstilflutningur frá framleiðsluatvinnuvegunum á landsbyggðinni til þjónustunnar og milliliðanna. Landauðn blasir við í landbúnaðarhéruðum og eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja hefur skerst um marga milljarða króna vegna þessarar stefnu sem hefur verið rekin. Þetta er kjarni málsins. Það er von að menn komi hér upp og stæri sig af hinum mikla árangri sem sé auðvitað stórkostlegur miðað við það sem menn hafi tekið við,

Auðvitað var við stórfelld og veruleg vandamál að eiga í íslenska hagkerfinu eftir að þjóðarframleiðslan dróst saman. Auðvitað var um að ræða verulegan verðbólguvanda. En vandamál sem voru viðráðanleg 1983 eru í höndum á þessari ríkisstj. að verða þannig að staða heimilanna og atvinnuveganna, sérstaklega framleiðslugreinanna auðvitað, er lakari en hún hefur verið áður.

Það sem ég var að benda hv. 1. þm. Suðurl. á, og hann nefndi það ekki í ræðu sinni, en það er kjarni málsins í þessu, er þetta: Hið lága kaup hefur það í för með sér að menn fjárfesta í greinum þar sem var tilhneiging til offjárfestingar fyrir. Og menn fjárfesta í láglaunagreinum. Fjármagnið leitar þangað inn. Þess vegna hefur hagkerfið tilhneigingu til þess að aðlaga sig láglaunastefnu á tiltölulega skömmum tíma. Það er þess vegna m. a. sem þessi láglaunastefna verður hættuleg til langframa. Hún dregur úr hagvexti og hún dregur úr þjóðarframleiðslu og verðmætasköpun í landinu. Það er það sem er alvarlegt um þessar mundir við íslenskt hagkerfi að láglaunastefnan er að keyra hagvöxtinn niður, láglaunastefnan er að keyra þjóðarframleiðsluna niður umfram þann vanda sem þjóðarbúið á við að stríða vegna aflasamdráttar sem aðallega birtist okkur á árinu 1982 og 1983.

Hv. 1. þm. Suðurl. mótmælti því að ríkisstj. væri að hverfa frá stefnu sinni með þessu frv. Ég held að það sé ekki nokkur leið að mótmæla því að hún er að nokkru leyti að gefast upp. Hún er að nokkru leyti að gefast upp fyrir þrýstingi verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Í fyrsta lagi var ekki aðeins um að ræða takmarkaðan samningsrétt, takmarkað samningsfrelsi, eins og hv. 1. þm. Suðurl. sagði hér áðan. Það var um að ræða bann við kjarasamningum. 100% bann við kjarasamningum var hér í gildi um fimm eða sex mánaða skeið. Ísland er eina landið í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku sem hefur bannað alla kjarasamninga með lögum og það bráðabirgðalögum um margra mánaða skeið. Ríkisstj. þorði ekki að láta reyna á þetta bann hér á Alþingi. Bráðabirgðalögin voru aldrei staðfest. Samningabannið var aldrei staðfest hér á Alþingi, m. a. vegna þess að í þingliði Sjálfstfl. voru menn eins og hv. þm. Pétur Sigurðsson o. fl. sem vildu ekki taka þátt í því að leggja þennan kross á Sjálfstfl. sem fólst í því ofbeldi gagnvart launþegahreyfingunni í landinu sem lögin um bann við kjarasamningum höfðu í för með sér. En þeir hopuðu. Það varð flótti. Það var fyrsta skrefið í flóttann. Annað skrefið er þessi tillaga um að afnema bannið við vísitölubindingu launa. Þetta er árangur verkalýðshreyfingarinnar. Ríkisstj. er þarna að hörfa. Hún er að heimila að það verði samið um verðtryggingu launa. Það er heimilt, ef þetta frv. nær fram að ganga, að samið verði um verðtryggingu launa, dýrtíðarbætur, vísitölubætur eða hvað menn vilja kalla það. Það er heimilt. Það er ekki bannað lengur eftir að þau lög tækju gildi sem hér er verið að tala um. Þetta er mikilsverður áfangi fyrir verkalýðshreyfinguna í landinu, flótti stjórnarinnar undan verkalýðshreyfingunni og stefnu hennar.

Þá er eftir að reka flóttann endanlega með því að hrekja í burtu þá láglaunastefnu sem hér er við lýði í landinu, bæta almenn lífskjör og hækka kaup frá því sem nú er. Ég er sannfærður um að það mun takast áður en langur tími líður að reka flóttann endanlega. En það eru þrjú skref sem þarna er um að ræða: Í fyrsta lagi bannið við kjarasamningum, í öðru lagi bannið við vísitölubótum og í þriðja lagi þarf að hrekja í burtu láglaunadrauginn sem núv. ríkisstj. hefur gert að stefnu sinni hér.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni. Ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs var almennar aths. hv. 1. þm. Suðurl. áðan sem mér fannst vilja efna til umr. um efnahagsmál almennt. Þeim umr. má vafalaust halda áfram við annað tækifæri. Aðalatriðið í þeim efnum er auðvitað að menn átti sig á að stjórnarstefna sem rekin er í fjandskap við verkalýðshreyfinguna í landinu er dæmd til að mistakast.