01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

100. mál, þingnefnd vegna rekstrarvanda í sjávarútvegi

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég óska eftir að hæstv. sjútvrh. sé í salnum, annars þjónar ræða mín engum tilgangi. (Forseti: Það skal tekið fram að upplýst er að hæstv. sjútvrh. er í fréttaviðtali hér í húsinu og er upptekinn í bili.) Hann hlýtur að gera hlé á því, enda er hann hér kominn. (Forseti: Hér kemur hæstv. ráðh.)

Herra forseti. Ég kom hér í fyrsta lagi upp til að segja að ég harma mjög að ég skildi ekki umbeðið svar hæstv. sjútvrh. í sambandi við olíumálið og óska því eftir að hann endurtaki það svar hér á eftir í nokkuð skýrara máli en hann lýsti því áðan.

Ég skil heldur ekki alveg hvers vegna hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstj. eru svo varkár í aðgerðum þegar um er að ræða einn aðalatvinnuveg þjóðarinnar. Vissulega segir hér að endurskoðun á verðlagningu á olíu og endurgreiðslu olíuskatta til fiskiskipa skuli fara fram fyrir 1. nóv. Allt er það gott og blessað, en því miður hefur það ekki verið gert. En ríkisstj. hefur verið öldungis ófeimin að gera aðrar aðgerðir mjög snemma á valdatíma sínum og án þess að gera þyrfti nokkra endurskoðun.

Og skal nú getið þess helsta. Ríkisstj. þurfti ekki langa endurskoðun til þess að afnema skatt af vaxtatekjum. Vaxtaokrið hefur auðvitað blómstrað síðan. Ríkisstj. þurfti ekki mikla endurskoðun til þess að hækka frádrátt til skatts til eignamanna um 57%. Ríkisstj. þurfti ekki langa endurskoðun til að lækka eignarskatta um 20% að raunvirði. Að ógleymdum ótal öðrum frádráttarheimildum til fyrirtækja af öllu tagi. Arðskattur fyrirtækja var t.d. lækkaður um 23%.

Menn eru auðvitað misvarkárir í ríkisstj. en ég held að meiri ástæða hefði verið til að vera nokkru djarfari við aðgerðir sem varða sjávarútveginn heldur en kaupmannastéttina og gróðaöflin í landinu, enda sjáum við nú hér árangurinn. Og er þó satt að segja vandræðalegt að vitna í annað eins og hér segir frá í Dagblaðinu í dag. Hér er fyrirsögn, með leyfi forseta: „Stórfyrirtæki stálu íslenska útvarpsfélaginu.“ Og hverjir skyldu það hafa verið sem stálu íslenska útvarpsfélaginu. Ég les hér, með leyfi forseta:

“Hulduherinn svonefndi eða stuðningshópur Alberts Guðmundssonar“ — til upplýsingar er það hæstv. fjmrh. — „skrifaði sig fyrir um 16% hlutafjár. Fyrir hans hönd var Þorvaldur Mawby, tengdasonur Alberts, í framboði við stjórnarkjörið, en hann náði ekki kosningu.“

Það eru þessir eignamenn, sem hæstv. fjmrh. hefur verið svo hugulsamur við, sem eru að stela atvinnuvegum þjóðarinnar. Þarna liggja peningarnir. (Forseti: Má ég vekja athygli hv. þm. á því að ef þm. leggur áherslu á að hæstv. sjútvrh. svari einhverju í ræðu hennar, þá væri mjög þýðingarmikið að hún lyki því af sem hún þarf að eiga orðaskipti við ráðh. um því að hann þarf eftir nokkrar mínútur að hverfa vegna starfa sinna af þingi.)

Herra forseti. Ég skal að fullu virða það, enda hafði ég nær lokið máli mínu. Mér þótti aðeins rétt að benda hæstv. sjútvrh. á þá einföldu staðreynd hvar peningarnir í þjóðfélaginu eru komnir. En í sambandi við þá spurningu sem ég bar hér fram og skal hlífa hv. þm. við ræðu, þá verð ég enn að endurtaka það að ég skildi ekki það sem hann sagði, og það skal tekið fram að ég spurði tvo aðra þm., sem eru hógværari menn en ég, og þeir skildu svörin ekki heldur.

(Forseti: Það skal tekið fram að það er ekki ætlunin af hálfu forseta að stytta mál hv. 10. landsk. þm. Hv. 10. landsk. þm. getur haldið áfram tali sínu hér á eftir þegar hæstv. ráðh. hefur talað. Hann tekur nú til máls.)