20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5424 í B-deild Alþingistíðinda. (4682)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er ástæðulaust að orðlengja um efni þess frv. sem hér liggur fyrir, en það er eitt atriði, sem fram hefur komið hér í umr., sem ég vil gera að umræðuefni. Það er sú þráhyggja sumra þm. að reyna að halda því fram að misrétti og ranglæti í launakjörum hafi vaxið eftir að verðbólga minnkaði í landinu. Ég held að það sé afskaplega hættuleg kenning að halda því mjög á loft. Ég held að þeir sem hafa fylgst með þróun launakjara hér á landi lengur en tvö eða þrjú misseri viti að lífskjörin byrjuðu fyrst og fremst að raskast fyrir alvöru eftir að verðbólguvöxturinn varð mestur, ég vil segja á árunum eftir 1978, á árunum 1979–1980, og sérstaklega þó á árunum 1982 og 1983, fram eftir því ári. Á þessum árum breyttust kjör manna mjög hratt hér á landi, verðtrygging launa var tekin upp, verðbólguhraðinn fór á einum ársfjórðungi, öðrum ársfjórðungi 1983, upp fyrir 150% þegar mest var og verðgildi krónunnar minnkaði svo ört að menn höfðu misst allt verðskyn og einungis þeir sem besta lausafjárstöðu höfðu hverju sinni gátu hagnast á þessum miklu verðsveiflum, þessari öru og stanslausu verðþróun krónunnar. Það var á þessum tíma sem öll launaviðmiðun fór úr skorðum og við munum það að á þessum árum, að á þeim tíma sem formaður Alþb. Svavar Gestsson var ráðh., voru launin skert 13 eða 14 sinnum og ekki síst á þeim tíma þegar hann var í stjórnarsamvinnu við Alþfl. (SvG: Var þá ekki nóg komið?)

Launin hafa ekki verið skert í tíð þessarar ríkisstj. meira en formaður Alþb. hefur sjálfur lagt til. Eins og hér var rifjað upp áðan var hann reiðubúinn til þess í maímánuði 1983 að... (SvG: Þm. röflar.) Ja, það getur verið að þm. röfli, en hann hefur þá eftir röflið úr formanni Alþb. Röflið er þá þaðan ættað. En það liggur fyrir að Alþb. var reiðubúið til þess í maímánuði 1983 að semja um það gegn stjórnarsamvinnu við Sjálfstfl. að engin kauphækkun kæmi á laun hinn 1. júní það sama ár. Sýndi formaður Alþb. þá meiri röggsemi og dirfsku en vart varð við hjá Alþfl.

En þetta er sem sagt kjarni minnar ræðu. Ég held að þm. eigi að hætta að gefa það í skyn að verðbólga sé til hagsbóta fyrir þá sem lægst eru launaðir. Það er þveröfugt. Þegar menn tala um að launamismunurinn í landinu hafi vaxið eftir að verðbólga hjaðnaði eru menn viljandi að halda fram hinu ranga, snúa hlutunum við, láta ranghverfuna líta út sem sannleika, framhefja lygina sem einhverja rétta kenningu. Auðvitað mun það verða svo, ef þjóðfélagið nær að jafna sig eftir verðbólguáratuginn, að lífskjörin jafnast. Þau munu jafnast í landinu. Það hefur margsinnis verið sýnt fram á að það hafi merkingu og þýðingu að spara eyrinn og velta fyrir sér verðlagi. Að verðlag hafi þýðingu, er mest til hagsbóta fyrir þá sem lægst eru launaðir. Það er ævintýramennska, spákaupmennska og annað því líkt sem blómstrar á miklum verðbólgutímum. — [Fundarhlé.]