20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5425 í B-deild Alþingistíðinda. (4683)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Hv. 3. þm. Reykv. vék að því í ræðu sinni að við stjórnarmyndun vorið 1983 hafi hann og hans flokkur talið nauðsynlegt að grípa til aðgerða sem skertu kaupgjaldsvísitölu til þess að ná þeim efnahagslegu markmiðum sem menn voru þá sammála um að ná þyrfti, þ. e. að draga úr verðbólgu og ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd. Í því að hv. þm. staðfesti þetta viðhorf flokks síns hélt hann því fram að spurningin þá hefði einungis snúist um það hvort skerða hefði átt kaupmátt lægsta kaups með sama hætti og annars kaups í landinu. Af þessu tilefni er rétt að minna á að með efnahagsaðgerðunum í maí 1983, með þeim lögákveðnu kauphækkunum sem þá voru ákveðnar, var sérstaklega ákveðið að lægstu laun hækkuðu umfram önnur laun í þjóðfélaginu. Lágmarkstekjutryggingin var sérstaklega hækkuð.

Með gerð febrúarsamninganna 1984 var enn gerð sérstök hækkun á lágmarkstekjutryggingunni og með samkomulagi við stjórnvöld voru ákveðnar sérstakar hækkanir á tryggingabótum og sköttum einmitt til þess að tryggja kaupmátt lægstu launa og óumdeilt er að þeir sem nutu þessara aðgerða urðu ekki fyrir kaupmáttarskerðingu. Því verður þannig ekki haldið fram að þessar aðgerðir hafi skilið lægst launaða fólkið eftir. Þvert á móti fólust í þessum ákvörðunum aðgerðir til að treysta stöðu þess við þessar erfiðu aðstæður. En það er svo athyglisvert að í samningunum í fyrrahaust, sem stjórnvöld áttu enga aðild að, var það ein meginkrafa verkalýðshreyfingarinnar að falla frá kaupmáttar- eða tekjutryggingunni, lágmarkstekjutryggingunni. Það var ein meginkrafa verkalýðsfélaganna þegar samningar voru gerðir án nokkurrar hlutdeildar eða aðildar stjórnvalda.

Vegna ummæla hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur um það að kaupmáttarskerðingin hefði haldið áfram er rétt að minna á að frá ársbyrjun 1984 og fram til 1. okt. var fullkomið jafnvægi á milli launaþróunar og þróunar framfærsluvísitölu. Ef ég man rétt hækkuðu launataxtar að meðaltali á þessu tímabili um 16.7%, en framfærsluvísitalan um 16.2%, þannig að frá upphafi síðasta árs og fram til októbermánaðar hafði verið þarna fullkomið jafnvægi. Og mér skilst að það sé mat samningsaðila að eftir kjarasamningana sem gerðir voru og leiddu til nýrrar verðbólguholskeflu séu mál komin í það horf nú að kaupmáttur sé svipaður og fyrir kjarasamningana, en fyrirsjáanlegt að hann muni falla á næstu mánuðum fram á haustið um 3–4%. Þetta sýnir okkur að það hefur tekist frá ársbyrjun 1984 og fram til þessa tíma að viðhalda kaupmættinum og við hefðum vafalaust náð miklu meiri og betri árangri í þessu efni ef okkur hefði auðnast að gera kjarasamninga með öðrum hætti en raun varð á, með þeim hætti sem margir af forustumönnum Alþýðusambandsins höfðu áhuga á s. l. haust en náði ekki fram. Þessar staðreyndir er nauðsynlegt að hér komi fram vegna þessara ummæla.

Hv. 10. landsk. þm. fór að spyrja eftir gildi þeirra fjölmörgu og fjölskrúðugu lagaákvæða sem sett voru á valdatíma hv. síðustu ríkisstj. Að sjálfsögðu eru þau öll úr gildi fallin, en það væri athugandi fyrir hv. þm. og flokksbræður hennar að efna nú til leshrings um allan þann mikla og fjölskrúðuga lagabálk um hnappheldur og vísitöluskerðingar sem settur var á valdatíma þeirra í ríkisstj. áður en fleiri ræður eru haldnar um ógnir vísitöluskerðingar sem átt hafi sér stað í tíð þessarar ríkisstj. Það væri hollt ef þingflokkur Alþb. efndi til slíks leshrings og þá þyrfti ekki að koma til fsp. af því tagi sem borin var fram fyrr við þessa umr.