20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5430 í B-deild Alþingistíðinda. (4685)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Reykv. fyrir skýringar sem hann gaf á sinni afstöðu. Þær eru að hann er ekki á móti dýrtíðarbótum á laun. Hann telur fyrir sitt leyti að eðlilegt sé að samið verði um verðtryggingu launa. Þó að hann kjósi að kalla afstöðu sína ekki „gamla vísitölukerfið“ er það aukaatriði fyrir mér. Aðalatriðið er að formaður Alþfl. hefur gefið um það pólitíska yfirlýsingu að hann vill fyrir sitt leyti stuðla að því og beita sér fyrir því að um verði að ræða verðtryggingu launa og dýrtíðaruppbætur á laun. Það er auðvitað höfuðatriði að slíkt liggi fyrir.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara hér út í einstök atriði þeirra umræðna sem hér hafa orðið, en margt hefur komið hér fróðlegt fram. Ég ætla ekki að fara að tíunda það frekar en ég hef hér gert, en ég ætla þó að minna á eitt.

1982 var lagt hér fram í Ed. Alþingis frv. til laga um húsnæðismál, flutt af ríkisstj. Í því frv. var ákvæði um að það skyldi miða greiðslur af húsnæðislánum við kauptaxtavísitölu. Þetta frv. fór í gegnum þrjár umr. í Ed. Það var stöðvað og komst aldrei til Nd. vegna þess að stjórnarandstaðan setti sig mjög þversum í því máli og talsmenn Alþfl. og Sjálfstfl. í Ed. á þeim tíma áttu ekki orð til að lýsa vandlætingu sinni á þessu vitlausa frv., gagnsleysi þess á alla lund. Þó var þetta frv. tilraun ríkisstj. til að stöðva þá þegar á árinu 1982 það misgengi sem verið er að ræða um í húsnæðismálum í dag.