20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5436 í B-deild Alþingistíðinda. (4689)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breytingar á lögum um stjórn efnahagsmála hefur orðið mönnum tilefni til nokkuð almennra umræðna um efnahagsmál. Er svo sem alveg að ósekju að menn taki sér smálotu við að ræða þau mál hér á hinu hv. Alþingi nú á vordögum, þó að menn tali frá nokkuð mismunandi forsendum og um nokkuð mismunandi þætti efnahagsmála, eins og hér kom fram í ræðu eins hv. þm. áðan. Sínum augum lítur hver á silfrið eins og gengur.

Hér kom hv. 1. þm. Vestf. og hafði mikið við þegar hann nefndi hv. 5. þm. Vestf. í fleirtölu, þegar saman kæmu miklir andans menn eins og hv. 5. þm. Vestf. Ég hef nú látið mér nægja, herra forseti, að nefna hv. skrifara vorn í eintölu og hyggst gera svo áfram nema forseti heimti annað. Hv. 1. þm. Vestf. varð tíðrætt um vexti, sem vonlegt var því að hann er í þeirra hópi sem hafa mikið dálæti á þessu hugtaki „vextir“ og sjá flest í gegnum einhver vaxtaraugu, allir hlutir skuli í raun og veru lúta í lægra haldi fyrir vöxtunum og þeim lögmálum sem þeim eiga að stýra.

Nú er það vel hugsanlegt að mínu mati, herra forseti, að setja upp efnahagskerfi sem þola raunvexti eins og þá sem hér hafa verið undanfarið. Það er hins vegar sannanlegt og löngu orðið ljóst að hið íslenska efnahagskerfi er ekki af þeirri tegund og ekki undir það búið að taka við slíkum raunvöxtum sem hér hafa verið og vantar þar mikið á. Reyndar var það ótrúlegur barnaskapur að halda að hagkerfi eins og það sem við höfum búið við um áratuga skeið, annaðhvort við nokkurn veginn núllvexti eða þá neikvæða vexti eins og hér hafa verið um árabil, gæti bara í einu vetfangi tekið við mjög háum raunvöxtum án þess að eitthvað hrikti í. Ég held að það sé ótrúlegur barnaskapur að láta sér detta slíkt í hug.

Ýmsir alvarlegir gallar eru á þessum vaxtakenningum og sparnaðarkenningum, sem tengjast eiga háum raunvöxtum, eins og þeir, sem eru nú kannske alvarlegir, að sparnaðurinn hefur yfirleitt ekki skilað sér í þeim mæli sem kenningasmiðirnir hafa haldið fram. Það er búið að reyna þessa leið víða, að hækka raunvexti verulega, og menn krossleggja fingurna og segja: Nú mun fjármagnið streyma inn í bankana í formi aukins sparnaðar og við fáum allt þetta fé til að spila úr, til að fjárfesta í atvinnulífinu o. s. frv., o. s. frv. En niðurstaðan er í mjög mörgum tilfellum a. m. k. lengi vel sú að sparnaðurinn skilar sér ekki, hann lætur á sér standa. Vaxtakostnaðurinn hins vegar, sem leiðir af þessum háu vöxtum, veltur út í atvinnulífið. Hann veldur auknum tilkostnaði í framleiðslu og auknum kostnaði almennings í framhaldi af því, í gegnum dýrari vörur o. s. frv. Afleiðingin verður sú að minna verður eftir til að spara bæði hjá einstaklingum og atvinnulífi. Þetta er nokkuð þekkt hringrás sem þarna getur farið af stað og veldur því að sparnaðurinn skilar sér ekki sem skyldi. Þetta þurfa menn að hafa í huga áður en þeir teygja sig undir blind lögmál raunvaxtastigs.

Það er alveg laukrétt hjá hv. 1. þm. Vestf. að auðvitað hefur stjórnarstefnan og önnur stjórnun efnahagsmála veruleg áhrif. Ég er honum hjartanlega sammála um það að eins vitlaust og það var að ætla að innleiða þessa háu raunvexti hér á Íslandi á örfáum mánuðum, þá var það þó enn þá brjálæðislegra miðað við þær aðgerðir aðrar sem ríkisstj. hefur haft uppi í efnahagsmálum, eins og hv. þm. rakti réttilega margar hverjar, t. d. yfirboð ríkisins sjálfs á vaxtamarkaðinum, sem hlaut að draga úr því fjármagni sem á annað borð gat runnið sem sparnaður inn í bankakerfið. Og erlendar lántökur, taumlausar erlendar lántökur, stjórnlaust sukk hæstv. ríkisstj. í þeim efnum, hefur auðvitað einnig áhrif, því að þarna er verið að flytja inn erlent vaxtastig, sömuleiðis taumlaus viðskiptahalli, sem að sjálfsögðu er fjármagnaður með þessum erlendu lántökum að verulegu leyti ásamt með mörgu, mörgu öðru fleiru sem of langt mál yrði upp að telja, sem þessi ríkisstj. hefur gert af sér í efnahagsmálum, hefur þarna auðvitað veruleg áhrif. Svo að ekki var nú von á góðu yfirleitt.

Það er hins vegar mjög ánægjulegt, herra forseti, að verða vitni að því hér að upp er að renna ljós fyrir einstökum þm. stjórnarflokkanna, eins og hv. 1. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Vestf., sem hélt hér mjög merkilega tölu um þá heimskulegu stefnu sem hæstv. ríkisstj. tók með því að rjúfa samhengi kaupgjalds og annarra verðskuldbindinga í þjóðfélaginu. Það var auðvitað glórulaus stefna frá upphafi. Ég er alveg sammála hv. 5. þm. Vestf. um það. Nú er það að koma í ljós. Hæstv. félmrh. hefur t. d. viðurkennt það með frv. sem hann lagði fram hér á Alþingi að svona lagað gangi ekki, það sé ekki hægt að taka með þessum hætti eina stærð efnahagsmálanna út úr og afnema alla verðtryggingu hennar og frysta hana niður en láta síðan aðrar stærðir ganga skv. sjálfvirkum vísitölum sem ekki eru teknar úr sambandi.

Ég fagna því alveg sérstaklega, herra forseti, að þetta ljós skuli nú hafa runnið upp, þó á nokkuð mismunandi sviðum sé, fyrir þessum hv. þm. sem teljast til stjórnarflokkanna. Auðvitað er niðurstaðan af þessu sú að efnahagsstefna ríkisstj. hefur beðið algjört skipbrot. Þessi aðferð hennar, að nota eingöngu launin til að hafa áhrif á stjórnun efnahagsmála og reyna að ná niður verðbólgu, er kapút, hún gengur ekki, hún er alveg fáránleg. Það er að koma betur og betur í ljós þessi misserin og það eru fleiri og fleiri að viðurkenna, vegna þess að nú hafa menn fyrir sér reynsluna af þessum árum, sem bráðum eru að verða tvö, þessum löngu þrautaárum.

Það er reyndar umhugsunarvert að einn hv. þm. Framsfl. skuli nú vera búinn að átta sig á þessu, því að sagan segir það, herra forseti, að þegar verið var að mynda síðustu hæstv. ríkisstj., þá sem nú situr, hafi það verið Framsfl. sem lagði ofurkapp á það að afnema verðtryggingu launa og vildi ganga miklu, miklu lengra í þeim efnum en Sjálfstfl. Svo merkilegt sem það nú var, þá var það Sjálfstfl. sem var að sögn tregur í taumi, herra forseti, en Framsfl. vildi afnema þetta helst um aldur og ævi, a. m. k. fram að aldamótum, allavega um nokkurra ára skeið, en Sjálfstfl. tókst að toga hann niður í þann tíma sem síðar varð raunin á, eins og alkunna er. Þetta má vera hv. þm. Framsfl. nokkurt umhugsunarefni.

Ég vil láta það uppi sem mína skoðun hér, herra forseti, með tilliti til þess frv. sem hér er flutt og þeirra umræðna sem hér hafa orðið, að ég tel verðtryggingu launa sjálfsagða og eðlilega í þjóðfélagi sem á annað borð notast við slíkar verðtryggingaraðferðir. Þjóðfélag sem verðtryggir fjárskuldbindingar einstaklinga og aðrar slíkar stærðir í efnahagslífinu kemst ekki hjá því að gera hið sama með launin. Það er alveg morgunljóst í mínum huga, herra forseti. Að hægt sé að draga þennan eina þátt út úr, verðlagninguna á þeirri einu vöru sem launþeginn hefur að selja, þ. e. vinnuafli sínu, það gengur ekki. Það er siðleysi auk þess sem það er efnahagsleg heimska, herra forseti, og gengur ekki upp.

Menn skyldu líka minnast þess hvernig dýrtíðarbætur eða verðtrygging launa er í raun og veru til komin og hvernig hún er hugsuð. Hún er uppbót á þegar orðnar hækkanir, sem launþeginn hefur borið á liðnum tíma. Þannig eru dýrtíðaruppbæturnar til komnar og þannig eru þær hugsaðar. Þær eru því afleiðing af verðbreytingu, ekki orsök í raun og veru. En það er að sjálfsögðu hægt að snúa hlutunum á haus og kenna endinum um upphafið, eins og hér hefur oft verið gert í þessari umræðu.

Ég held að það sé líka alveg hárrétt, sem hér kom fram í umræðunum, að það verður aldrei neinn friður á vinnumarkaði og það næst engin þjóðarsátt um það að taka eina stærð efnahagsmálanna, nefnilega launin, út úr og frysta þau á einhverjum nauðþurftamörkum á meðan allt annað verðlag æðir áfram óbeislað. Það er ekki það frelsi sem nokkur þjóð getur sameinast um, að frelsa þannig fjármagnið og láta það vaða upp úr öllu valdi en frysta lífskjörin. Það eiga frelsispostularnir að hugleiða.

Það má nefna um það fjöldamörg dæmi, herra forseti, af því að við erum nú farin að ræða þetta svolítið efnislega á annað borð, að um árabil í sinni hagsögu hefur bæði íslenska þjóðin og ýmsar aðrar þjóðir notast við verðtryggingu launa, eins konar dýrtíðaruppbætur eða verðbætur á laun með ágætum árangri án sjáanlegra verðbólguáhrifa. Um þetta er auðvelt að nefna dæmi bæði úr íslenskri hagsögu síðustu áratuga og frá fjöldamörgum nálægum löndum sem mörg hver notast enn þann dag í dag við slíkar aðferðir og búa við tiltölulega mjög lágt verðbólgustig og stöðugt verðlag. Það er því auðvitað eins og að berja höfðinu við steininn að kenna þessari einu aðferð, þessari einu reikningstölu um. Það getur vel verið að í íslenska hagkerfinu séu sérstakar skekkjur sem geri okkar hagkerfi næmara en hagkerfi og efnahagslíf annarra þjóða í þessu efni, ég þori ekki að fullyrða að svo sé ekki, herra forseti. En þá hljótum við fyrst og fremst að einbeita okkur að því að finna þær skekkjur og leiðrétta þær, vegna þess að þegar öllu er á botninn hvolft liggur það í augum uppi að launin ein eru ekki sú stærð í efnahagslífi þjóða, þau eru ekki sá pottur sem endalaust er hægt að ganga í og leysa öll önnur vandamál út frá, það gengur ekki. Það hlýtur að vera keppikefli í sjálfu sér að halda kaupmáttarstigi, launagreiðslum jöfnum og stöðugum til þess að þær sem aðrar stærðir í efnahagslífinu geti verið í sæmilega stöðugu formi frá ári til árs. Það ætti öllum að vera alveg ljóst.

Það væri auðvitað óskaplega freistandi, herra forseti, af því að þessi umræða er nú komin af stað á annað borð, að fara hér örfáum orðum um eignaupptöku í húsnæðismálum, eins og hv. 5. þm. Vestf. reifaði hér nokkuð, vegna þess misgengis sem orðið hefur og er sömuleiðis afleidd stærð af okurvöxtum þessarar ríkisstj. Ég er ekki sammála því að stjórnmálamenn geti ekki og eigi ekki að hafa áhrif á vexti. Ef stjórnmálamenn ætla að skipta sér eitthvað af efnahagsmálum á annað borð þá verða þeir auðvitað að taka á vaxtamálum eins og öðrum ákvarðanaþáttum í þeim efnum, það er í mínum huga alveg ljóst og á ekki að vera neitt feimnismál. Hitt er svo annað mál að íslenskir stjórnmálamenn hafa um árabil verið ákaflega feimnir við þennan þátt. Til hefur verið stofnun sem heitir Seðlabanki og maður sem heitir Jóhannes Nordal sem hafa fengið að ráðskast með þessi mál langt umfram það sem góðu hófi gegnir vegna aumingjaskapar íslenskra stjórnmálamanna, það er alveg rétt. En það er ekki vegna þess að þeir ættu ekki að geta tekið á þessum málum. Auðvitað eiga þeir að gera það ef þeir eru eitthvað að reyna að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar á annað borð. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að taka þessa einu stærð út úr dæminu.

Herra forseti. Ég ætla þá ekki að hafa þetta miklu lengra. Það er auðvitað öllum ljóst, sem hlustað hafa á þessar umræður og fylgst hafa með þessum málum síðustu mánuði, að stjórnarstefnan er hrunin, hún er í rúst. Það stendur ekki steinn yfir steini í því meginmarkmiði sem var nánast eina nestið, eini bitinn í malnum þegar þessi ríkisstj. lagði af stað, það var það að ráðast á launin og banna verðtryggingu launa. Það var eina ráðið sem þessi ríkisstj. kunni í efnahagsmálum. Síðan hefur hún ekki gert neitt í þeim málum eins og allir vita og eru nú senn liðin tvö ár og árangurinn er að koma betur og betur í ljós, að tök hennar á efnahagsmálum eru algjörlega hrunin. Og sú umræða sem hér hefur orðið er merkilegust fyrir þær sakir að ákveðnir þm. í stjórnarliðinu eru að gera sér grein fyrir þessu.