01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

100. mál, þingnefnd vegna rekstrarvanda í sjávarútvegi

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að endurtaka það í mjög stuttu máli sem ég sagði. Mér þykir leitt ef það varð ekki skilið. Ég gat um það að þessari endurskoðun átti að ljúka fyrir 1. nóv. Henni er enn ekki lokið. Hins vegar lagði hæstv. viðskrh. fram skýrslu um þetta mál á ríkisstjórnarfundi í morgun og ég vænti þess að þessari endurskoðun muni ljúka nú alveg á næstunni. Ég sagði jafnframt að ákvörðunin um þriggja mánaða greiðslu hefði verið tekin til að skapa svigrúm fyrir þessari endurskoðun og útgerðin fengi þessar uppbætur á meðan. En vegna þess að endurskoðuninni er ekki lokið og þessar greiðslur eru raunverulega runnar út, þá þarf að taka ákvörðun um framhald þeirra þangað til niðurstaða liggur fyrir um endurskoðun á olíuverði.

Ég get því miður ekkert annað um þetta sagt, en vænti þess að þetta sé nægilega skýrt til að það skiljist, jafnvel þótt vera kunni að það sé ekki fullnægjandi.