20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5446 í B-deild Alþingistíðinda. (4692)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal með ánægju svara spurningu hv. síðasta ræðumanns, en áður en ég kem að því vil ég fara nokkrum orðum um ráðgjafarþjónustuna sem mér virðist hún ekki skilja og ekki vita hvað er. Með þessari ráðgjafarþjónustu fylgja lán. Það eru veitt viðbótarlán. (GHelg: Hversu há forsrh.?) Upp að 150 þús. Það munar marga um það, hv. þm. Við mig hefur talað fjöldi manns sem hefur sagt að það hafi gerbreytt sinni stöðu. Það eru samtals um 200 millj. kr. sem verða lánaðar í viðbótarlánum í gegnum ráðgjafarþjónustuna.

Það er furðulegt að standa upp og gera ekkert úr því sem þó er gert. Það mætti gera meira. Ég er sammála því. Það þyrfti að gera meira. En það verður ráðstafað um 300 millj. til aðstoðar við þá sem eru í mestum erfiðleikum í húsnæðismálum og það munar um það.

Hv. þm. ræddi um byggingarvísitöluna. Laun í byggingariðnaðinum er stærsti einstaki þátturinn í byggingarvísitölunni og um þau semja aðrir en ríkisstj.

Um VII. kafla, sem fjallar um lánskjaravísitölu, er það að segja að í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins kom mjög greinilega fram hjá þeim, m. a. s. skriflega, að þeir fara ekki fram á að lánskjaravísitalan verði afnumin. Ég skýrði frá því fyrr í dag að ein ástæðan fyrir því að það dróst nokkuð að leggja þetta litla frv. fram er sú að fram fóru ítarlegar umræður um hugsanlegar breytingar á grundvelli lánskjaravísitölunnar. Það getur vel komið til greina að breyta grundvellinum, t. d. að taka út úr lánskjaravísitölu áhrif ýmissa opinberra aðgerða, eins og t. d. skatta o. s. frv. Það er vilji til að athuga það. Þetta mál er þó ekki einfalt og það var fullt samkomulag um að taka það ekki með í þetta frv.

En hvers vegna vill launþegahreyfingin ekki afnema lánskjaravísitöluna? Það er ákaflega skiljanlegt. Launþegahreyfingin gerir sér vonir um það og það vona ég líka að kaupmáttur fari hækkandi, að launin hækki meira en verðlag á næstu mánuðum og árum. Ég geri fastlega ráð fyrir því að með auknum sjávarafla og batnandi þjóðarhag gerist það. Þá er lánskjaravísitalan jákvæð.

Ég veit ekki hvort hv. þm. veit það, en séu lánskjaravísitala og kauptaxtar borin saman frá 1. jan. 1984 til dagsins í dag, þá hafa þau haldist í hendur. Ef við setjum báðar þessar vísitölur á 100 í janúar 1984 eru þær einnig 100 báðar í mars í ár. Vitanlega hafa á þessu tímabili orðið sveiflur. T. d. fór lánskjaravísitalan upp í nóvember, desember og janúar og þá hallaði á lántakendur. Mánuðina þar áður var það öfugt. Þegar yfir allt tímabilið er litið hefur ekki raskast hlutfall á milli lánskjaravísitölu og kauptaxta.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því að ekki var talið fært eða rétt að afnema VII. kafla Ólafslaga.

Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur séð ákaflega fróðleg línurit sem forseti ASÍ hefur sýnt um greiðsluþunga af lánum. Vitanlega hljóta allir þm. að gerþekkja þau mál því að búið er að ræða þau svo oft. Lánskjaravísitalan, þó að vissulega megi gagnrýna hana, hefur þó þann kostinn að hún dreifir fjármagnskostnaðinum yfir allan lánstímann. Ef lán eiga hins vegar að vera með nafnvöxtum einum og engri verðtryggingu gjaldfalla þeir nafnvextir á hverjum gjalddaga lánsins, en stór hluti af fjármagnskostnaðinum við lánskjaravísitöluna dreifist yfir tímabilið. Menn verða þá líka að svara þeirri spurningu í 25% verðbólgu hvernig þeir ætla að dreifa greiðslubyrðinni af vöxtunum því að nú hygg ég að menn séu ekki að tala um að hafa neikvæða vexti. Eina leiðin til að dreifa þessum byrðum er að endurfjármagna lánin og þá eru menn komnir út í nokkurn veginn það sama og með lánskjaravísitölu, þ. e. að dreifa fjármagnsbyrðunum. Þetta var ástæðan. Ég vona að ég hafi svarað hv. þm.