20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5452 í B-deild Alþingistíðinda. (4696)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Einar Kr. Guðfinnsson:

Herra forseti. Það var óneitanlega spaugilegt að hlýða á ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar þar sem hann hafði miklar áhyggjur af því að örlítill ræðustúfur minn hér áðan mundi verða þess valdandi að þing mundi teygjast fram á sumar. Þetta er ekki síst spaugilegt vegna þess að hv. þm. hefur nú verið efstur í keppnum Dagblaðsins sem fram hafa farið undanfarin ár um það hver talaði lengst hér á hv. Alþingi. (Gripið fram í: Sprengt allt kvótakerfið.) Margsprengt allt kvótakerfi og talað margfalt lengur en svona meðalþingmaður hér á hv. Alþingi. Þess vegna held ég að hv. þm. væri best að líta í eigin barm ef hann hefur áhyggjur af því að þing kunni að teygjast fram á sumar.

Ég ætla mér ekki að tefja umræður mjög en vegna þeirra orða sem fallið hafa frá því að ég lauk máli mínu áðan þarf ég að gera örfáar athugasemdir. Mikilvægast er auðvitað að taka af öll tvímæli um að mér dettur aldrei í hug að tala um hv. 5. þm. Vestf. í fleirtölu þó ég hafi mikið álit á þeim manni, a. m. k. hefði ég ekki viljað sjá hv. þm. í fleirtölu þegar útvarpslagafrv. hlaut afgreiðslu sína. Þess vegna var það mikill misskilningur hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að ég notaði fleirtölu um hv. þm. Ólaf Þórðarson. Ég talaði hér um andans menn eins og t. d. Ólaf Þórðarson og það er náttúrlega allt annað mál.

Hv. 3. þm. Vestf. reyndi, eins og honum er stundum lagið, að snúa út úr orðum mínum þegar hann talaði um að ég hefði verið að kveinka mér undan því að haldið væri uppi umræðum um stöðu fiskvinnslunnar og fiskvinnslufólks í landinu hér á hv. Alþingi. Þetta er auðvitað eins mikið út í loftið og frekast er unnt að hafa það. Vitaskuld er ég ekki að kveinka mér undan þessu nema síður sé. Ég held að það væri einmitt ástæða til þess núna að á hv. Alþingi væri rædd staða fiskvinnslunnar og útgerðarinnar í landinu þegar eru að líta dagsins ljós ársreikningar útgerðar og fiskvinnslufyrirtækja fyrir árið 1984 og draga nú ekki upp allt of glæsilega mynd af afkomu í þeirri atvinnugrein.

Það er hins vegar misskilningur hjá hv. 3. þm. Vestf. að þessi þróun hafi hafist í tíð núv. ríkisstj. Hún hafði hafist áður en því miður hefur núv. ríkisstj. ekki gert nægjanlegt til þess að sporna gegn henni og snúa henni við. Sú þróun kemur m. a. vel fram í tölum sem fyrrum varaformaður Alþb. hefur birt opinberlega og Þjóðviljinn vitnaði í með sérstakri velþóknun. Þar kemur m. a. fram að skuldir útgerðar sem hlutfall af eignum námu árið 1980 47.5% en árið 1983 voru þær komnar upp í 60.2%. Þetta sýnir okkur auðvitað að þessi þróun hófst á þessum tíma og raunar hygg ég allnokkru fyrr.

Út af ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingríms J. Sigfússonar vil ég einungis segja það að undir henni rifjaðist upp fyrir mér gömul saga, sem oft er rifjuð upp, um það hvernig fór þegar Kínverjar þurftu að skamma sína gömlu bandamenn Rússa. Þá höfðu þeir þann siðinn að beina spjótum sínum að smáríkinu Albaníu sem hér hefur borið örlítið á góma í umræðunni. Þannig fór auðvitað um hv. þm. Steingrím J. Sigfússon sem belgdi sig hér mjög út yfir því að erlendar lántökur hefðu aukist á undanförnum árum og viðskiptahalli væri orðinn viðvarandi og allt of mikill. Ég veit að hv. þm. er fullvel ljóst hvernig þróunin var í þessum efnum í tíð þeirrar ríkisstj. sem Alþb. átti aðild að og þess vegna eru þessi orð sem hann mælti hér ekki síður meint til þeirrar ríkisstj. og hans eigin stjórnmálaflokks fyrir þá stjórnarþátttöku.

Ég verð að játa að það er dálítið erfitt að ná handfestu á kennisetningu Ólafs Þ. Þórðarsonar hv. þm. um vaxtamál. Hann spyr: Hverjir eru raunvextirnir ef miðað er við fasteignaverð í Reykjavík og þróun þess? Síðan segir hann: Þeir eru 30%. Út af fyrir sig er þetta örugglega alveg rétt. Út af fyrir sig er það örugglega líka alveg rétt að ef notuð væri viðmiðunin um barnafötin væru raunvextirnir einhverjir allt aðrir. Og ef miðað væri við einhverja aðra vísitölu þá væru raunvextirnir enn aðrir. Ef miðað væri t. d. við þróun vísitölu á húseignum úti á landi þá væri niðurstaðan auðvitað allt önnur.

Þess vegna er þetta deila um keisarans skegg að vera að þrátta um það hvort raunvexti eigi að miða við einhverja tiltekna hækkun á einhverjum tilteknum vörum. Það er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er einfaldlega sá að þegar við erum að móta okkar peningamálastefnu þá erum við að gera það með tilteknu markmiði. Ekki með því markmiði endilega að hafa vextina sem næst hækkun ákveðinna vörutegunda eða vöruflokka. Við erum einfaldlega að stefna að því að hér sé eðlilegur sparnaður í landinu, að það sé eðlilegur sparnaður til þess að fólk sem er að ráðast í húsbyggingar geti fengið lán til langs tíma með viðráðanlegum kjörum. Við erum líka að tala um þá eðlilegu stefnu okkar að atvinnulífið í landinu þurfi ekki ævinlega að leita út fyrir landsteinana eftir lánsfé heldur geti leitað eftir því í innlendum bankastofnunum.

Þetta er auðvitað kjarni málsins. Og ef við búum við þá efnahagsstjórn sem m. a. leiðir til svo hárra raunvaxta sem hér eru ríkjandi og ég gaf skýringar á hér áðan og við viljum breyta þessu, þá verðum við að reyna að nota þau tæki sem við höfum til þess. Það gerum við ekki með því að halda hér langar ræður og belgja okkur yfir því að þetta sé aldeilis fráleitt ástand. Það þýðir ekkert að hafa stór orð um okurlánara. Það þýðir ekkert að setja hér á klukkustundalangar ræður um vonsku þessara vaxta. Það þýðir ekkert að tala eins og hv. þm. Ólafur Þórðarson gerði um það að menn eigi að tala vel eða illa um fasteignamarkað. Það er verið að tala um þessa hluti eins og þetta séu einhverjir persónugervingar. Þessi umræða er alveg fjarstæðukennd. Menn kjafta ekkert niður vextina með orðskrúði. Það er kjarni málsins. Menn móta efnahagsstefnu þar sem reynt er að hafa áhrif á raunvaxtastigið í landinu. Það er það sem málið snýst um og ekkert annað.

Ég sagði að fasteignamarkaðurinn væri duttlungafullur. Yfir þessu hneykslast hv. 5. þm. Vestf. óskaplega og taldi að þetta rækist á við það sem ég hefði á undanförnum árum verið að segja. Vitaskuld er fasteignamarkaðurinn duttlungafullur vegna þess að hann ræðst af svo ákaflega mörgu. Hann ræðst t. d. af því hvert kaupmáttarstigið er í landinu. Hann ræðst af því hvert er framboð á lánsfé og á hvaða kjörum það fæst. Og hann ræðst af því hvort eitthvað er að marka yfirlýsingar Alexanders Stefánssonar. Og hafandi hið síðasttalda í huga er óeðlilegt að ég tali um að fasteignamarkaðurinn sé duttlungafullur.