01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

100. mál, þingnefnd vegna rekstrarvanda í sjávarútvegi

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að fara nokkrum orðum um það sem hæstv. sjútvrh. nefndi hér áðan, en ég geri enga tilraun til að teppa ráðh. hér vegna þess að hann er bundinn í öðru. Ég vona að hann virði mér það þó til vorkunnar að ég svari engu að síður nokkrum atriðum sem fram komu í ræðu hans til þess að það sé bókað í þingtíðindi.

Eitt aðalatriðið í máli hæstv. ráðh. var það að hann væri á móti tillögu okkar Alþb.-manna vegna þess að honum líkuðu ekki forsendurnar í grg. En það er mikill misskilningur að það sé tillaga Alþb. að þingið samþykki grg. Það er ekki nein tillaga uppi um það hér, heldur er einungis gert ráð fyrir því að till. sem slík verði samþykkt. Það liggja hér ýmsar ágætar tillögur fyrir þinginu sem maður gæti út af fyrir sig hugsað sér að samþykkja þó að í grg. sé eitt og annað sem maður á ákaflega erfitt með að fallast á. Mér fannst líka að í seinni ræðunni drægi hæstv. ráðh. nokkuð í land í þessu efni og viðurkenndi að till. væri út af fyrir sig góð, en forsendurnar slæmar. Þegar málið kemur næst hér til meðferðar, sem verður vonandi fljótt eftir meðferð atvmn., verður það auðvitað bara tillögugreinin sem verður til afgreiðslu. Þess vegna geri ég ráð fyrir því að hún fái stuðning hæstv. ráðh. samkvæmt þeim orðum sem hann lét falla hér áðan.

Varðandi þau atriði sem hann nefndi vildi ég sérstaklega svara þessu: Hæstv. ráðh. hélt því fram að Alþb. hefði verið sérstaklega áhugasamt um það að halda við verðbólgu, við hefðum verið á móti því að gera nokkuð til að keyra niður verðbólguna. Þetta er rangt. Vandinn var hins vegar sá, að í síðustu ríkisstjórn vildi Framsfl. ekki lækka verðbólguna nema með því að lækka kaupið. Það var auðvitað forsenda sem við gátum ekki gengið inn á og þess vegna urðu átök innan þeirrar stjórnar um það, ekki hvort, heldur hvernig ætti að ná verðbólgunni niður. Síðan fékk Framsfl. bandamann sem dugði vel í þessu efni. Það var íhaldið sem var tilbúið að keyra verðbólguna niður með því einu að lækka kaupið eins og kunnugt er.

Varðandi þróunina í þessu efni undanfarin ár og það sem hv. þm. Valdimar Indriðason nefndi vil ég aðeins halda því hér til haga að ég kannast ekki við það að sjútvrh. eða viðskrh. Framsfl. hafi flutt eina einustu tillögu í fráfarandi ríkisstjórn um að bæta þann vanda sjávarútvegsins sem nú er sérstaklega við að glíma. Ég man aldrei eftir slíkri tillögu. Þvert á móti ýttum við, sem vorum með þeim í umræddri ríkisstjórn, iðulega á ýmsa þætti, en það tókst ekki vegna þess að það var lítill áhugi, sérstaklega í viðskrn., á því að koma til móts við það sem við vorum að gera tillögur um.

Ég tel nauðsynlegt að hafa það í huga, þegar menn eru að líta til fortíðarinnar, hverjir fóru með sjútvrn. og viðskrn. á síðustu árum og að þeir voru gjörsamlega tillögulausir í sambandi við þau vandamál sjávarútvegsins sem við stöndum núna frammi fyrir.

Einnig kom fram hjá hæstv. ráðh. hin gamla aðferð þeirra framsóknarmanna að kenna Seðlabankanum um stöðuna núna. Seðlabankinn hefði í raun og veru brugðist eftirlitsskyldu sinni í sambandi við vextina. En hvað gerðist nákvæmlega? Ríkisstjórnin samþykkti að gefa vaxtaskráninguna frjálsa í hendur viðskiptabankanna. Það var það sem þarna gerðist. Seðlabankinn átti að vísu að hafa þarna eitthvert eftirlitshlutverk. En það var erfitt fyrir hann að sinna því eftirlitshlutverki, eins og t.d. hv. þm. Stefán Benediktsson hefur bent á á opinberum vettvangi, það var erfitt fyrir Seðlabankann að sinna því eftirlitshlutverki á sama tíma og ríkisstj. hafði ákveðið að svipta Seðlabankann sínum eftirlitsskyldum. Í ákvörðunum ríkisstj. í vaxtamálum í sumar stangaðist því hvað á annars horn. Ég held þess vegna að það sé alveg fráleitt að ætla sér að skjóta sér á bak við Seðlabankann í þessu efni. Staðreyndin er hin. Ríkisstj. ætlaði að taka þessa miklu ákvörðun um frjálsa vexti, mesta framfaraspor í sögu þjóðarinnar í 25 ár. Þannig var Seðlabankinn tekinn út úr myndinni í raun og veru og viðskiptabönkunum afhent þetta með þeim afleiðingum sem menn sjá.

Hæstv. sjútvrh. rökstyður sitt sjónarmið með því að það hafi orðið að hækka vextina til að fá meira peningamagn inn í bankann. Ætli það hafi nú skilað árangri? Menn sjá tölur um innlánsaukningu bankanna og sjá náttúrlega að þar hefur ekkert lagast. Ég held að ríkisstj. verði að átta sig vel á því að sú mikla hækkun vaxta sem orðið hefur dregur peninga út úr atvinnulífinu yfir í eitthvað annað. Það er kjarni málsins. Það er verið að rífa fjármuni út úr atvinnulífinu og leggja þá í alls konar hluti eins og verðbréf og gull og hvað eina, sem verið er að fjárfesta í núna á hinum svokallaða „frjálsa peningamarkaði“. Þessi ákvörðun um hina frjálsu vexti svokölluðu, á sama tíma og það er bara eftirspurn eftir fjármagni en ekki framboð, gengur ekki upp. Hún sogar fjármunina út úr bönkunum út á hinn svokallaða frjálsa peningamarkað, sem hét okur þegar ég var að alast upp hér í bæ fyrr á árum.

Ég hefði margt viljað segja fleira í framhaldi af ræðu hæstv. sjútvrh. M.a. þótti mér fróðlegt það sem hann sagði um viðskipti mín við Kaupmannasamtökin. Það var ansi athyglisvert og að þeir hefðu alveg sérstaklega saknað mín úr rn. (VI: Maður hefur heyrt þetta.) Maður hefur heyrt þetta, segir hv. þm. Valdimar Indriðason. En það er auðvitað þannig með kaupmennina að þegar fólk hefur kaup, þá geta þeir selt. Og það er e.t.v. það atriði sem einhverjir þeirra hafa áttað sig á, að þegar þær ríkisstjórnir voru við völd sem Alþb. var aðili að, þá höfðu menn kaupmátt sem menn hafa ekki nú. (Gripið fram í: Menn höfðu verðbólgugróða, hv. þm.) Skattalögum var breytt til þess að taka af þeim þennan verðbólgugróða eins og kunnugt er, m.a. almennum skattalögum, og lagður sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Það er því alveg ljóst að það var mjög saumað að þessum aðilum í tíð fráfarandi ríkisstj., enda voru þá í gildi verðlagsákvæði sem núna er búið að afnema. Þessir aðilar geta hækkað sína vöru og þjónustu eins og þeim sýnist.

Að lokum vil ég biðja Bandalag jafnaðarmanna velvirðingar á því að hafa ruglað þeim saman við Framsfl. En það var að gefnu tilefni.