21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5456 í B-deild Alþingistíðinda. (4703)

445. mál, kísilmálmverksmiðja á Grundartanga

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrri lið fsp. vil ég taka þetta fram: Viðræðunefnd mín við erlend fyrirtæki um eignaraðild að kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði hefur átt viðræður við allmörg fyrirtæki eins og áður hefur komið fram á Alþingi. Eitt þeirra fyrirtækja er Elkem í Noregi, en Elkem er einn stærsti framleiðandi kísilmálms í heimi og framleiðir um 25% af heimsframleiðslunni.

Í upphafi var áhugi Elkem lítill, en hann hefur nú aukist og hefur fyrirtækið lýst sig reiðubúið til frekari viðræðna um eignaraðild. Af hálfu íslensku viðræðunefndarinnar hefur Elkem verið gerð grein fyrir þeim lögum sem gilda um staðsetningu kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði og að íslensk stjórnvöld hefðu ekki í huga að gera breytingu þar á. Á viðræðufundi aðila kom fram af hálfu Elkem að fyrirtækið teldi ódýrara að reisa kísilmálmverksmiðju á Grundartanga en á Reyðarfirði, enda væri hægt að samnýta ýmsar eignir Íslenska járnblendifélagsins á Grundartanga, m. a. mötuneyti, verkstæði, skrifstofur og fleira. Létu Elkem-menn það í ljós að óeðlilegt væri að leggja þann kostnað alfarið á verksmiðjuna á Reyðarfirði. Íslensk stjórnvöld yrðu í einhverju formi að bæta upp þann kostnaðarmun og er slík afstaða út af fyrir sig skiljanleg.

Sem svar við 2. lið fsp. tek ég fram: Samninganefnd mín hélt fund með Elkem í Osló 9. maí s. l. Þar var farið yfir þætti málsins, en fátt nýtt kom fram. Fundur með Voerst Alphine, ríkisfyrirtæki í Austurríki, er haldinn í dag í Linz í Austurríki. Við þær viðræður bind ég miklar vonir.