21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5457 í B-deild Alþingistíðinda. (4705)

445. mál, kísilmálmverksmiðja á Grundartanga

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það má segja að litlu verði Vöggur feginn, eins og heyra mátti hér hjá hv. fyrirspyrjanda Jóni Kristjánssyni í sambandi við yfirlýsingu hæstv. iðnrh. Það er út af fyrir sig mjög eðlilegt að þm. Austurlands spyrji að því hvort fyrirhugað sé af hæstv. iðnrh., sem er einn af þm. Austurlands, að flytja þetta fyrirtæki um set yfir í annan landshluta. En það er alveg ljóst að hæstv. ráðh. hefur látið nefnd sína standa í viðræðum við Elkem í Noregi, viðræðum sem af hálfu Elkem eru lagðar upp þannig að þeir séu ekki reiðubúnir til að standa að kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði nema að fá einhverja sérstaka meðgjöf vegna uppbyggingar slíks fyrirtækis þar. Það er alveg ljóst að áhugi Elkem hefur fyrst og fremst verið bundinn við það að geta haft ákveðna stýringu á þessum málum. Ef til þess kæmi að Íslendingar ætluðu sér að fara inn á þennan markað og standa að slíku fyrirtæki, þá vildu þeir hafa þar fingurna í til þess að tryggja sína hagsmuni sem stórframleiðandi á kísilmálmi. Og þegar hæstv. iðnrh. hefur ekki getað dregið upp neina aðila, sem í alvöru vildu ræða við hann um þátttöku í þessu fyrirtæki, þá hefur Elkem gefið sig fram og viðræður standa nú yfir um kísilmálmverksmiðju „hér á landi“, eins og það er orðað í fréttatilkynningu.

Nú ætla ég ekki að gera því skóna að hæstv. ráðh. ætli að beita sér fyrir breytingu á lögum í þessa átt. En hitt hefur komið fram af hálfu ráðh., að hann er reiðubúinn til þess að breyta lögunum að því er varðar meirihlutaeignaraðild Íslendinga og íslenska ríkisins að þessu fyrirtæki. Það hefur komið fram og ég tek því með öllum fyrirvara orð og yfirlýsingar að þessu leyti eins og að þessum málum hefur verið staðið. Hitt hljótum við einnig að rifja upp og láta koma fram hér í sambandi við þetta mál, að stjórnarmenn þessa fyrirtækis, sem kosnir eru af Alþingi, m. a. af Framsfl., hafa ekki knúið á um það innan stjórnar Kísilmálmvinnslunnar hf. að ráðist yrði í framkvæmdir á grundvelli laga og heimilda sem Alþingi hefur veitt ríkisstj. þar að lútandi, þó að tillögur hafi komið fram um það ítrekað af hálfu fulltrúa Alþb. í stjórn þessa fyrirtækis að ráðist yrði í verksmiðjuna af Íslendingum eins og lög standa til um.

Og hitt atriðið, að af hálfu fyrirtækisins, Kísilmálmvinnslunnar, verði unnið að markaðsmálum með það í huga að Íslendingar geti beitt sér fyrir þessu fyrirtæki sem fullburðugir aðilar, það hefur ekki heldur fengið stuðning fulltrúa Framsfl. í stjórn fyrirtækisins. Þetta tel ég út af fyrir sig mjög slæma afstöðu, afstöðu sem er ekki til þess fallin að ýta á eftir því að ráðist verði í framkvæmdir svo sem eðlilegt hefði verið fyrir löngu síðan.