21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5458 í B-deild Alþingistíðinda. (4707)

450. mál, lán opinberra lánasjóða

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. þm. hefur lýst þeirri fsp. sem hann hefur borið fram til viðskrh. Sem svar við fsp. vil ég taka fram að undir starfssvið viðskrn. falla einungis málefni innlánsstofnana, þar á meðal ríkisbanka, en ekki málefni opinberra lánasjóða. Alþingi hefur falið einstökum ráðuneytum yfirstjórn þessara sjóða. Til að öðlast vitneskju um málefni þeirra er því nauðsynlegt að hlutaðeigandi ráðherra eða trúnaðarmenn Alþingis, sem Alþingi hefur kjörið í stjórn sjóðanna, svari því.

Innlánsstofnanir eru hins vegar háðar eftirliti bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Um starfsemi bankaeftirlitsins segir í lögum um Seðlabanka að þær skuli fylgjast með því að innlánsstofnanir fylgi lögum og reglum sem hverju sinni gilda um starfsemi þeirra. Enn fremur segir að bankaeftirlitinu skuli heimilt að gera athugasemdir ef það telur hag eða rekstur innlánsstofnunar óheilbrigðan og skulu slíkar athugasemdir tilkynntar ráðherra þegar í stað. Athugasemdir um útlán ríkisbankanna, sem gætu hafa verið tilefni slíkra fsp., hafa ekki borist rn. Athugasemdir eftir öðrum leiðum hafa heldur ekki komið til rn. Með vísan til þessa þykir mér rétt að svara fsp. neitandi að því er varðar útlán ríkisbankanna, en vísa um útlán opinberra lánasjóða til viðkomandi ráðherra og stjórnarmanna kjörinna af Alþingi.

Þá er rétt að vekja athygli á að krafa um opinbera rannsókn á hendur ríkisbönkum vegna útlána þeirra er alvarlegs eðlis, ekki síst vegna þess að um slíka kröfugerð er rætt hér á Alþingi. Slíka kröfu væri ekki hægt að mínum dómi að setja fram nema grunur léki á um refsiverða háttsemi eða eitthvað það sem viðkomandi teldi að úrskeiðis hefði farið, en af ræðu hv. fyrirspyrjanda mátti ráða að ekki væri um neitt slíkt tilfelli að ræða, sem væri orsök fsp., heldur aðeins að hann óskaði eftir svari sem nánast væri um prinsipákvörðun.