21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5460 í B-deild Alþingistíðinda. (4709)

462. mál, lán Fiskveiðasjóðs Íslands

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 782 beint fsp. til sjútvrh. um tryggingar fyrir lánum Fiskveiðasjóðs Íslands. Fsp. hljóðar svo:

Hefur Fiskveiðasjóður nægar tryggingar fyrir veðlánum til svokallaðra uppboðstogara?

Ef svo er ekki, telur ráðherra að stjórn og forstjóri Fiskveiðasjóðs hafi sinnt skyldum sínum?

Þessi fsp. kemur í beinu framhaldi af fsp., sem ég hef rétt nýlokið við að gera grein fyrir, þar sem ég spurði hæstv. viðskrh. almennt um álit hans á því hvernig þessum málum væri fyrir komið í sambandi við sjóða- og bankakerfið allt. Hér er hins vegar um nánar afmarkað dæmi að ræða. Eins og ég vék að hér áðan, þá er mikilvægt að gæta tryggingar fyrir lánveitingar opinberra sjóða, þeirra sem ekki eru beinlínis áhættulánasjóðir. Það er auðvitað erfitt eins og málum hefur verið háttað hér á landi að undanförnu, en það hlýtur engu að síður að vera skylt að gera það, enda er það beinlínis tekið fram í lögum um hina ýmsu sjóði. Það er erfitt að gera það á tímum mikillar verðbólgu og mikilla gengisbreytinga og alls kyns misvísana í efnahagslífi þjóðanna. Ef marka má fréttir af svokölluðum uppboðstogurum virðast skuldir í sumum tilfellum verulega miklu hærri en tryggingarverðmæti skipanna sem lagt er til grundvallar veði. Í 11. og 12. gr. laga Fiskveiðasjóðs er kveðið á um ákveðið hlutfall sem lán sjóðsins megi nema af kostnaðar- eða matsverði skipa. Af nýjum skipum, sem smíðuð eru innanlands, er talað um 3/4 hluta svo að tekið sé dæmi. Lán gegn veði í öðrum eignum mega einungis nema 60% af matsverði. Á síðasta þingi var samþykktur viðauki við lög um Fiskveiðasjóð og var það til staðfestingar á brbl. sem voru gefin út við fæðingu þessarar ríkisstj. Þar er fjallað um að stofnuð verði sérstök deild sem hafi það hlutverk að veita lán til hagræðingar í fiskiðnaði og að leysa sérstök staðbundin vandamál fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar eru Fiskveiðasjóði veittar rýmri reglur til að veita lán, en engu að síður eru í grg., sem gefin var út í framhaldi af þeirri lagasetningu, tiltekin ákveðin mörk sem lánunum eru sett, þ. e. að þau séu tryggð með veði í atvinnuhúsnæði lántakenda ásamt vélum og búnaði innan 70% af vátryggingarverði eða í fiskiskipum innan 90% af húftryggingarmati. Þessi veðmörk eru sem sé hækkuð, en þau eru engu að síður. Tilefni fsp. minnar er það að í fréttum af skuldastöðu svokallaðra uppboðstogara virðast skuldir nema verulega miklu hærri fjárhæðum en tryggingarverð skipanna er, svo að við látum nú veðmörk vera. Þess vegna beini ég þessari fsp. minni til ráðh. Ég ætla mér ekki að gera að umtalsefni fjármál eða afkomu einstakra skipa. Mig langaði aðeins að spyrjast fyrir um eiginlega framkvæmd laga og reglugerða og það hvernig þessara hluta sé gætt skv. þeim lögum og reglugerðum og fyrir hönd skattborgara.