21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5462 í B-deild Alþingistíðinda. (4712)

462. mál, lán Fiskveiðasjóðs Íslands

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það kom fram í svari mínu að Fiskveiðasjóður gætti þess í upphafi að útlán væru í samræmi við þau hlutföll sem nefnd eru í lögunum. Hins vegar hefur þróun mála orðið sú að viðkomandi skip hafa ekki haft tekjur til að standa undir fjárfestingum af ástæðum sem ég hef áður greint. Jafnvel þó að vátryggingarverð sé út af fyrir sig ágætis viðmiðun oft og tíðum skiptir þetta vátryggingarverð afar litlu máli þegar út í erfiðleikana er komið. Þá eru það tekjumöguleikarnir sem skipta máli. Síldarplönin á Norðurlandi voru einskis virði þegar síldin hvarf og skipti þá litlu hversu hátt vátryggingarverð viðkomandi stöðva var. Sama máli gegnir um fiskiskipin. Verðmæti fiskiskipanna felst ekki í vátryggingarverði þeirra, heldur í tekjumöguleikum þeirra og öllum framtíðarmöguleikum.

Við skulum vonast eftir því að öll þessi skip eigi eftir að sjá miklu hærri tekjur í framtíðinni en við sjáum í dag. Þess vegna hafa menn farið út í jafnumfangsmiklar skuldbreytingar. Það er vegna þess að við væntum þess að hægt verði að auka afla þessara skipa og tekjumöguleikar þeirra verði meiri. En þá skiptir öllu máli að mörg ný skip komi ekki inn í flotann til að taka tekjumöguleikana frá þeim sem fyrir eru.