21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5463 í B-deild Alþingistíðinda. (4715)

459. mál, flótti háskólamenntaðra manna úr þjónustu ríkisins

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Hér liggur meðal fjölmargra þskj. fyrir hinu háa Alþingi till. til þál. um sölu á íslenskri sérþekkingu erlendis. Flytjendur hennar eru nokkrir þm. Framsfl. Í grg. fyrir þáltill. segir svo, með leyfi forseta:

„Til skamms tíma höfum við Íslendingar litið svo á að lífsafkoma okkar byggðist á þeim auðlindum sem felast í landinu sjálfu, hafinu umhverfis það og orkunni í fallvötnum og jarðhita. Að undanförnu hefur athygli manna beinst meira og meira að þeirri auðlindinni sem eðlilegast væri að telja upp fyrsta, en það er sú orka sem felst í manninum sjálfum, hugvitið, þekkingin og reynslan.“

Síðar í grg. segir, með leyfi forseta:

„Hugvitið er hins vegar sú auðlind er við höfum enn sem komið er lítt hugleitt að geti verið markaðsvara eitt og sér. Á þessu hafa aðrar þjóðir fyrir löngu áttað sig og hagnýtt sína sérþekkingu sem markaðsvöru í öðrum löndum. Íslendingar hafa á undanförnum árum keypt erlendis frá margvíslega þekkingu sem í mörgum tilfellum hefur ekki verið til staðar hér á landi. En þó gæti verið álitamál í sumum tilvikum — t. d. á sviði tækniþekkingar — hvort ekki hefði verið leitað langt yfir skammt. Og þó að við eigum enn eftir að sækja margvíslega þekkingu til annarra landa er mál til komið að brjóta í blað og huga að því með hvaða hætti við getum selt okkar íslensku sérþekkingu erlendis.“

Allt er þetta mikið rétt og satt og vel hugsað, en ég hygg að það stingi nokkuð í stúf við það ástand sem nú ríkir meðal háskólamenntaðra manna á Íslandi og ekki síst vegna þeirra lífskjara sem þeir nú búa við.

Ef við lítum á ástandið í skólum landsins var s. l. haust skipuð sex manna nefnd til að vinna að löggildingu starfsheitis kennara, en eins og málum er nú háttað getur nánast hver sem er tekið að sér uppfræðslu og eru þess dæmi í grunnskólunum að á kennarastóli sitji fólk sem hefur styttri skólagöngu að baki en nemendurnir. Svo virðist nú skv. svari hæstv. menntmrh. við fsp. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar hér á dögunum, um hvað liði löggildingu starfsheitis kennara, að ekki standi til að það mál nái fram að ganga á þessu þingi. Við horfum sem sagt fram á það með haustinu að mjög svo sé óljóst hvort kennarar fáist til þess að annast kennslu barna. Ég held að allir geti verið sammála um að ef við ætlum að vinna að öflugri menntun og sterku skólakerfi í landinu hljótum við að byrja á byrjuninni, þ. e. í grunnskólanum.

En auðvitað hangir þetta saman við allt ástand efnahagsmála í landinu eins og það er í dag. Lækkun raunlauna eins og átt hefur sér stað á undanförnum tveimur árum hefur vissulega í för með sér lækkun verðbólgu, en aðeins svo lengi sem raunlaunin haldast á þessu lága stigi. Meginástæða aukningar verðbólgunnar á árunum 1982 og 1983 var ekki hækkun launa, heldur miklar gengislækkanir sem miðuðu að því að auka hagnað í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Kjaraskerðingin felur í sér tekjutilfærslu til fjármagnseigenda og þeirra sem hærri launin hafa sem hafa ótal leiðir til að bæta sér upp þær skerðingar sem aðrir mega þola.

Alvarlegustu efnahagslegu áhrif kjaraskerðingarinnar og láglaunastefnunnar eru áhrif hennar á form fjárfestingar nú og á hagvöxt í framtíðinni. Kjaraskerðingin eykur að öðru jöfnu á þau offjárfestingarvandamál sem við er að stríða í íslensku efnahagslífi. Í þeim greinum sem hafa tilhneigingu til offjárfestingar er hætta á að hagvexti verði sólundað í enn meiri offjárfestingu og þannig aukið við þau vandamál sem yfirlýst var að reynt yrði að leysa í upphafi.

Að sjálfsögðu veldur kjaraskerðingin því að stofnsett eru fyrirtæki sem miða við það að launin haldist á því lága stigi sem þau nú eru og eldri fyrirtæki fjárfesta í tækni og framleiðslutækjum sem einnig miða við hin lágu laun. Reynslan hefur einnig sýnt að þegar kjörin eru skert eins og tvö undanfarin ár eykst tekjumunur meðal launafólks. Sumir geta notað sterka markaðsstöðu til að fá hærri yfirborganir meðan aðrir sitja eftir með bera taxtana, eins og það er kallað, og hátekjuhóparnir á sporslukerfinu, með óunna yfirvinnu, bílastyrki o. s. frv., fá skerðingu kaupmáttar bætta með ýmsu móti. Þannig eykst bilið á milli hálauna- og láglaunafólks, en einnig á milli mismunandi hópa, svo sem á milli þeirra sem vinna hjá hinu opinbera og þeim sem vinna hjá einkafyrirtækjum.

Það er ljóst að námsmenn, háskólamenntaðir menn sem koma heim frá löngu námi, eiga nú mjög erfitt með að setjast að hér á landi og fara þar saman lág laun og erfiðleikar í húsnæðismálum. Við höfum þegar á síðustu vikum orðið vör við að læknar setjast nú í hópum að erlendis og það þarf ekki að tala lengi við íslenska stúdenta erlendis til þess að heyra tóninn í þeim: Það er ekki fýsilegt að setjast að á Íslandi. Á Norðurlöndum er alveg óhætt að fullyrða að laun háskólamenntaðra manna séu um fjórum sinnum hærri en hér á landi og húsnæðismálin allt önnur en hér. Það er því full ástæða til að óttast verulegan fólksflótta meðal háskólamenntaðra manna og ríkisstj. hlýtur að fara að huga að því hvernig hún bregðist við ef hér verður skortur á háskólamenntuðum mönnum. Við skulum viðurkenna það alveg opinskátt að háskólamenntaðir menn eru að verða láglaunahópur í þessu þjóðfélagi.

Ég hef því lagt fram fsp. á þskj. 778 til hæstv. forsrh. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hvernig hyggst ríkisstj. bregðast við fyrirsjáanlegum flótta háskólamenntaðra manna úr þjónustu ríkisins eftir að niðurstaða Kjaradóms liggur nú fyrir í máli launamálaráðs ríkisstarfsmanna innan Bandalags háskólamanna gegn fjmrh.?“

Það er svo komið að rn. ríkisstj. fái ekki lengur starfsfólk sem fulla hæfni hefur, þannig að ég held að þetta vandamál eigi að blasa við ríkisstj. sjálfri.