21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5465 í B-deild Alþingistíðinda. (4716)

459. mál, flótti háskólamenntaðra manna úr þjónustu ríkisins

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að mjög mikilvægt er að halda í þjónustu ríkisins og ríkisstofnana, skólum o. s. frv., hæfu háskólamenntuðu fólki. Sem betur fer hefur ekki verið átakanlegur skortur á því. Ég get fullyrt að í þeim rn. sem ég þekki til er mjög margt af ágætu og færu háskólamenntuðu fólki. Ég get tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda engu að síður að kjör háskólamenntaðra manna eru lág og þau þarf að bæta eins og öll kjör í þessu landi.

Ég ætla ekki að fara út í almennar hugleiðingar um grundvallaratriði efnahagsmála, ástæður fyrir gengisfellingum og slíku, sem hv. fyrirspyrjandi kom inn á, en þó vil ég leyfa mér að fullyrða að bæði fyrrv. ríkisstj. og þessi hafi ekki fellt gengið til þess að hafa fé af eða skerða kjör atmennings í landinu, heldur til þess að halda þeim atvinnugreinum gangandi sem kjörin byggjast á. Það er merkilegt að sumir virðast halda að við gætum bætt kjörin með því að loka frystihúsunum, loka fyrir útflutninginn. Hvaðan eigum við að fá okkar tekjur? Gengið hefur verið fellt af illri nauðsyn til að skapa þessum atvinnuvegum útflutningsgrundvöll. Staðreyndin er sú, eins og m. a. kom fram í athyglisverðri ræðu hv. 3. þm. Reykv. fyrir nokkru, að framleiðslan í hlutfalli af þjóðarframleiðslu er ákaflega lág hér á landi á hverja vinnustund, töluvert innan við helming af því sem gerist í mörgum löndum í kringum okkur. Það er úr þessu sem þarf að bæta og til þess þurfum við meiri tækni. Við þurfum nýjar iðngreinar. Við þurfum atvinnuvegi sem eru miklu meira verðmætaskapandi á hverja vinnustund. Við eigum að sjálfsögðu ekki að leggja niður sjávarútveg sem við munum lengi byggja á, heldur auka framleiðni og afköst í þeirri grein einnig. Það er þess vegna sem við þurfum vel menntað háskólamenntað fólk til að aðstoða við að auka framleiðni á þessum sviðum sem öðrum.

Svo að ég svari fsp. samþykkti ríkisstj. fyrir alllöngu að háskólamenntuðum mönnum í þjónustu ríkisins skyldu greidd sömu laun og á hinum almenna markaði. Ég get því miður ekki sagt hvort það hefur tekist í dag eða gær að skipa þá nefnd sem um var samið að á að úrskurða í deilutilefnum. Ég get þó upplýst að búið er að tala við allmikinn fjölda af mönnum sem fjmrn. og Bandalag háskólamenntaðra manna geta komið sér saman um sem oddamann í nefndinni. Þeir sem hefur verið talað við til þessa hafa allir hafnað því að taka að sér það erfiða ábyrgðarstarf, því miður. Ég hef sjálfur talað við menn sem við töldum kjörna til þess starfs, en þeir hafa ekki treyst sér til þess. Lögð er mikil áhersla á að koma þessari þriggja manna matsnefnd af stað og eins og fjmrh. hefur lýst yfir mun hann leggja niðurstöðu nefndarinnar fyrir ríkisstj. Ég held að ég megi fullyrða, a. m. k. geri ég það fyrir mitt leyti, að niðurstöður sem þessi samanburðarnefnd kemst að mun ég a. m. k. fallast á. Ég sé ekki ástæðu til að deila um það. Markmiðið er að háskólamenntaðir menn fái sömu kjör á hinum almenna markaði.

Það eru ýmis atriði sem um er deilt. Hvers virði er Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna? Forseti ASÍ telur að hann sé 12–13% virði í launum. Launaráð BHM segir 3%. Þarna ber töluvert á milli. Hvers virði eru réttindi sem opinberir starfsmenn hafa til endurmenntunar o. s. frv.? Um þetta allt þarf þessi nefnd að fjalla og vonandi hraðar hún störfum svo unnt verði að leysa þann ágreining sem stendur heilbrigðu starfi í skólum og annars staðar fyrir þrifum. Á það mun ríkisstj. leggja áherslu.