21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5466 í B-deild Alþingistíðinda. (4717)

459. mál, flótti háskólamenntaðra manna úr þjónustu ríkisins

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég held að hér sé verið að fjalla um meira alvörumál en í fljótu bragði gæti virst. Ekki eru margir dagar síðan að kom frétt í einu af blöðum borgarinnar um að tveir íslenskir vísindamenn, sem báðir höfðu hlotið prófessorsstöður við Háskóla Íslands í raunvísindum, ákváðu að hafna því að taka við þessum stöðum. Sú ákvörðun var tekin að nýgengnum kjaradómi. Í skýringum sem þeir létu fylgja með þessum ákvörðunum sínum kom fram að launakjörin voru ástæðan. Nú gætu menn að óreyndu haldið, og sú var raunar tíðin, að prófessorar væru mjög vel launaðir menn.

En það er ástæða til þess út af þessu dæmi að rifja það upp að eftir kjaradóm eru byrjunarlaun prófessora 34 500 kr. Sennilega er þar komin greinilegasta skýringin á þessari ákvörðun hinna tveggja raunvísindamanna sem ég nefndi. Við því er ekki að búast að hæfir menn fáist til starfa hjá ríkinu þegar þannig er að þeim búið og það þarf engan að undra. Þeir sem starfa að menntun eða stjórnsýslu í æðstu stöðum hljóta vitanlega að vænta þess að fá sæmilega umbun starfa sinna. Þessi launaflokkur, sem ég nefndi áðan, er næsthæsti launaflokkurinn sem Kjaradómur ákvarðaði.

Það eru aðeins örfáir embættismenn sem eru einum flokki hærri. Af þessum tölum sjá menn hvernig launakjörin eru.

Ég ætla ekki að ræða þau orð og ummæli sem hér féllu áðan í umr. En ég vildi aðeins varpa að lokum fram þessari spurningu:

Hefur ríkið efni á því að borga þeim mönnum, sem að mörgu leyti eru kjölfestan í rekstri ríkisins, laun sem þessu líkjast?